17.12.1948
Neðri deild: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Ég vildi aðeins segja þetta: Eins og hæstv. forseti veit manna bezt, er það ekki d. að kenna, hve seint þetta mál er hér á ferðinni. Það var afgr. klukkan 3 í nótt til n., og strax í morgun tók ég að undirbúa nál. mitt. Ég skrifaði þegar stjórn Landssambands íslenzkra útvegsmanna, og hún heldur fund klukkan tvö í dag, og eftir svari hennar bíð ég. Hér er um það að ræða, hvort bátaútvegurinn fer á stað eða gengur ekki í vetur, þótt þetta frv. verði samþ., og upplýsingar um það efni skipta öllu máli í sambandi við afgreiðslu frv. Það eru því eindregin tilmæli mín til forseta, að farið verði eftir þingsköpum og nefndarálitum leyft að koma fram. Ég læt ekki standa á mér að hraða áliti mínu eins og framast er unnt, ég verð aðeins að bíða eftir þeim upplýsingum, sem hafa úrslitaáhrif í málinu.