13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (2775)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Einar Olgeirsson:

Það hefur þegar verið rætt allýtarlega um þetta frv. hæstv. ríkisstj. og það sést því betur, eftir því sem umr. verða meiri, hvað þetta frv. mundi svipta marga launþega tekjum, sem þeir þurfa þó sannarlega á að halda. Ég álít, eins og ég hef þegar látið í ljós, að það sé allt of harðvítuglega af stað farið hjá hæstv. ríkisstj. með þessu frv. um afnám kjötuppbótanna, því að það mundi í raun og veru þýða sama og að tvöfalda tekjuskattinn hjá lægst launuðu þegnum þjóðfélagsins. Þetta er því hatrammara sem það hefur verið samþykkt á þessu þingi skattfrelsi eða skattfríðindi fyrir hina ríkustu menn landsins og ríkustu félög landsins, svo að það virðist því gefa auga leið til þess að sjá, hvað ríkisstj. ætlast fyrir og vill láta gera. Hún vill láta undanþiggja hina ríkustu frá því að greiða, á sama tíma og hún tvöfaldar tekjuskattinn hjá hinum lægst launuðu. Mér sýnist það muni vera nokkuð erfitt að fá ríkisstj. af þessari braut, en ég vil þó freista þess að fá þingmeirihlutann til þess að ganga ekki eins langt og gert er í 4. gr. frv. Ég hef áður flutt brtt. við þessa gr. um, að í staðinn fyrir, að persónufrádrátturinn væri margfaldaður með 2,5, skyldi koma 3,5. Nú leyfi ég mér hér með að bera fram þá brtt., að í staðinn fyrir 2,5 tvisvar sinnum í grg. komi 3, en það mundi þýða það sama og það, að margir af hinum láglaunuðu mundu halda kjötuppbótinni og ekki verða fyrir þeim búsifjum þessa frv., að tvöfaldaður yrði við þá tekjuskatturinn. Ég vil svo vonast til, að þeir hv. þm., sem vilja heldur, að þetta lendi á hinum ríkari, mönnum eins og Eggert Claessen, en ætlast til, að hinum láglaunuðu sé hlíft við þessum búsifjum, sjái sér fært að fylgja þessari till. minni. Þetta mundi gera nokkra bót, þó að fjarri lagi sé, að það mundi skapa það réttlæti sem komið var á með setningu l. fyrir þremur árum síðan. — Af því að þessi till. mín er of seint fram komin og þar að auki skrifleg, þá vildi ég leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.