13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef áður leiðrétt það, sem fram kom í þessari síðustu ræðu hæstv. fjmrh., þar sem hann heldur fram, að hér sé ekki verið að skattleggja þá lægst launuðu, heldur sé verið að hlífa þeim. Ég skal taka dæmi. Afgreiðslustúlkur í verzlunum eða skrifstofustúlkur, sem lægst eru launaðar, hafa þetta frá 265 kr. í grunnlaun á mánuði og getur farið upp í 365 kr. Með 265 kr. í grunnlaun þýðir þetta samtals um 9.500 kr. á ári, eins og nú er. Ég býst við, að það megi reikna með því, að þessar stúlkur borgi nú í tekjuskatt um 400 kr., þannig að kjötuppbótin, meðan hún var, hefur þýtt sama og að tekjuskatturinn sé lækkaður um helming. Ef nú þessar stúlkur þurfa að kaupa sér fæði og húsnæði, fæði, sem kostar ekki minna en 350 kr. á mánuði, og herbergi, sem getur farið upp í einar 400 kr., þá er nú orðið heldur lítið, sem eftir er. Þessar stúlkur eru lægst launuðu einstaklingarnir, og hjá þeim öllum er verið að tvöfalda tekjuskattinn, því að eftir l. er það svo, að menn mega hafa 7.000 kr. tekjur til þess að missa ekki uppbótina, en lægst launuðu stúlkurnar hafa meira en það, svo að það er því gefið, að lægst launaða fólkið fær tekjuskattinn tvöfaldaðan. Sama er að segja um símastúlkur, sem hafa frá 4200–5400 kr. árslaun. Það er ekki hægt að hrekja þetta. Hins vegar get ég ekki mælt á móti því, að hjá verkamannafjölskyldum, sem hafa við bágust kjör að búa, helzt kjötuppbótin, en það er aðeins hjá þeim verkamönnum, sem hafa ekki fasta vinnu eða fast kaup allt árið um kring. Það er hins vegar öðru máli að gegna um faglærða verkamenn eða þá, sem hafa nokkurn veginn fasta vinnu allt árið um kring og nokkra eftirvinnu. Það er því alls ekki rétt, að þeim lægst launuðu sé nokkuð hlíft í þessu frv. Það er rétt, að lægst launuðu fjölskyldunum er hlíft, en alls ekki einstaklingunum.

Nú minntist hæstv. fjmrh. á það, að búið væri að ganga frá fjárl., svo að það kæmi ekki til mála að breyta þeim með neinni till., sem hafa mundi áhrif á reikning þeirra. Nú veit hann það vel, að þessar till. hans eru tómar áætlanir, sem brugðizt geta til beggja vona og ekki er hægt að taka neina ábyrgð á. Þessar 10 millj., sem áætlað er, að sparist við þessa breyt., eru aðeins áætlun, sem hann eða starfsmenn hans hafa gert, og auðvitað getur brugðið til beggja vona með hana, þannig að þó að till. mín verði samþ., breytir hún ekki það miklu, að allur grundvöllurinn kippist burt þar fyrir.

Svo vil ég aðeins geta þess að síðustu, að það er vafasöm aðferð hjá hæstv. ríkisstj. að rýra svona kjör almennings í landinu, því að ég vil vekja athygli á því, að með því að rýra tekjur almennings, þá er hún að rýra og skera smám saman niður sínar eigin tekjur. Þjóðartekjurnar eru nú um 1.000 millj. kr. hjá okkur Íslendingum, og þar af áætlar ríkið sér að taka 300 millj., eða einn þriðja hlutann, í sköttum og tollum. Það er því séð fyrir, að því meira sem takmarkað er við almenning, og því minna, sem hann getur veitt sér, því minni verður sú upphæð sem kemst í ríkiskassann. Allt það, sem ríkið stuðlar að, að fari út til almennings, eða mikill hlutinn af því, kemur aftur til ríkisins. En með því að fara þessa tekjuöflunarleið, sem ríkið er nú að fara, er ríkisstj. þar með að saga sundur þá grein, sem hún situr á.

Ég vænti þess svo, þar sem ég hef sýnt fram á, að það er lægst launaða fólkið, sem verst verður úti, ef þetta verður samþ., og þar sem hæstv. fjmrh. heldur því fram, að svo sé ekki, — þá vona ég, að hann og aðrir hv. þm. sjái, að þetta er byggt á misskilningi, og ég vona það einnig, að þeir leiðrétti þann misskilning. og samþ. þessa brtt. mína.