13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (2785)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja nokkur orð um þetta frv., áður en það fer í n. Það er skammt stórra högga milli hjá hæstv. ríkisstj. í því að þrengja að lífskjörum almennings með vaxandi álögum og lögboðinni kauplækkun. Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er ríkisstj. í annað skipti beinlínis að lögbjóða kauplækkun. Hitt skiptið var, þegar vísitalan var lækkuð með lögum niður í 300 stig. Þegar l. um þessar kjötniðurgreiðslur voru sett, var það gert í samráði við verkalýðsfélögin, og þá var því treyst, að þessi hluti kaupsins, sem ríkið þannig héldi eftir og hefur verið látinn ganga upp í skatta, væri í tryggum höndum, en raunin er önnur. Fyrst er tækifærið notað til þess að falsa vísitöluna, og síðan er þessum hluta kaupsins beinlínis rænt með l. — Það er fróðlegt að athuga, hvaða undirtektir skattar þeir, sem hæstv. ríkisstj. hefur. nú verið að leggja á almenning, hafa fengið. Í sambandi við till. þm. Barð. (GJ) um 1/2% gjald af innfluttum vörum komst dagblaðið Vísir þannig að orði:

„Mannætur eru taldar standa á tiltölulega lágu menningarstigi, en þegar ein stéttin étur aðra, sýnist siðleysið umfangsmeira og fordæmanlegra, einkum þegar þetta er gert með beztu lyst og til þess stofnað af löggjafarsamkomu þjóðarinnar.“

Og þessi orð voru rituð í tilefni af því, að skattleggja átti mestu gróðastétt landsins til að afla fjár í hlutatryggingarsjóð bátaútvegsins, sem aflar gjaldeyris handa þessari stétt til að græða á. En hvaða orð hæfa þá þessu athæfi hér? Þau hljóta að vera ljót, þar sem með þessu frv. er verið að leggja háa skatta á þá lægst launuðu í landinu og það raunverulega með hreinni gripdeild.

Hæstv. ráðh. las hér upp, hvaða tekjur menn mættu hafa til þess að vera ekki sviptir kjötuppbótinni. Þar kom fram, að einhleypur maður má ekki hafa nema kr. 7.087.50, barnlaus hjón ekki nema kr. 14.175.00, og hjón með eitt barn mega ekki hafa nema kr. 19.687.00. Með öðrum orðum eru það fyrst 4 manna fjölskyldur og það með lágum launum, sem einhverjar bætur fá. Þ.e.a.s., kjötuppbótin verður aðeins greidd fjölmennum barnafjölskyldum og það án tillits til, hvort þar eigi hátekjumenn hlut að máli. Fyrir 5 manna fjölskyldu jafngildir þetta 15 aura grunnkaupslækkun, ef í fjölskyldunni er t.d. eitt barn innan 16 ára aldurs, þó að tvö eldri börn séu í skólum. Hins vegar jafngildir þetta 10 aura grunnkaupslækkun fyrir 3 manna fjölskyldu. Já, það hefur oft þurft löng verkföll til að ná slíkri hækkun. Dagsbrúnarverkamenn eru rændir með þessu frv. 16 vísitölustigum, eða sem því svarar, ef miðað er við dagvinnukaup. Ef hins vegar farið er eftir útreikningi kauplagsnefndar, sem reiknar með, að hvert vísitölustig jafngildi 38.50 kr., þá munar þessi skattur 27 vísitölustigum. Við skulum nú bara segja, að ríkisstj. þurfi að leggja á skatta. En hvers vegna þarf hún að leggja á svona rangláta skatta, sem lenda með mestum þunga á þeim, sem lægst eru launaðir? Þetta er hvorki meira né minna en 50% skatthækkun á 5 manna fjölskyldu, sem greitt hefur 2.000 kr. í skatt. Slíkt er nú ekkert smáræði. Kjötuppbótin hefur verið dregin frá opinberum gjöldum. Þetta hefur orðið til þess, að skattar hafa greiðzt betur en ella, sérstaklega tryggingagjöldin. Afnám kjötuppbótarinnar hefur því í för með sér, að fjöldi fólks fellur út úr tryggingunum, t.d. mun hún koma hart niður á skólafólki, sem greitt hefur tryggingagjöldin með kjötuppbótinni. — Vitaskuld mun hæstv. fjmrh. svara eins og hann er vanur. Hann mun spyrja stjórnarandstöðuna, hvort hún sé til í að draga úr fræðslulöggjöfinni og skera niður verklegar framkvæmdir. Ég býst við, að hann muni spyrja að þessu nú sem áður, því að þetta er eini sparnaðurinn, sem hann kemur auga á. Að öðrum kosti eru svo skattaálögur, sem koma þyngst niður á þeim fátæku, eins og þessi skattur. Með slíkum spurningum tekst ekki að draga athyglina frá orsökum þessara álagna, en þeirra er að leita í hinni gífurlegu þenslu ríkisbáknsins í tíð núv. hæstv. ríkisstj.—- Nú er það svo, að þorri launþega getur ekki framfleytt heimilum sínum af launum sínum, og því standa víðtæk verkföll fyrir dyrum, og hæstv. ríkisstj. á sök á, að þau eru óhjákvæmileg. Aðeins til að bæta upp afnám þessarar kjötuppbótar þarf, eins og ég hef sýnt fram á, a.m.k. 10 aura grunnkaupshækkun á klst., aðeins vegna þessa eina frv., ef það nær fram að ganga.