13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (2786)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki flytja hér langt mál, en langar til að minnast á einstök atriði. Fyrst er það, að ég tel vel, að nú virðist mönnum ljóst, sem ekki var það áður, að kjötuppbótin svokallaða hafi verið til hagsbóta fyrir neytendur; en ekki verið styrkur til bænda. Þetta vil ég undirstrika, enda þótt ég hafi talið, að kjötuppbótin hafi hvorki verið styrkur til neytenda né bænda, heldur viss háttur til þess að halda dýrtíðinni í skefjum, en það gleður mig, að þeir, sem áður hafa talið uppbótina styrk til bænda, finna nú, að neytendur hafa notið hennar. En það atriði, sem ég vildi gera aths. við í þessu frv., er þetta: Er hægt að láta lög gilda langt aftur fyrir sig? Hæstv. ríkisstj. fer nú að vísu ekki í fyrsta skipti inn á þessa braut, því að hún hefur sett skattalög í júlí og látið þau gilda til næstu áramóta á undan. Ég spurði þá, hvort þetta væri hægt, og spurði þá m.a. hv. lögfræðinga þessarar d., en enginn þeirra þorði að svara. Með þeim 1., sem hér er ætlazt til að breyta, eru þeim Íslendingum, sem stunda ekki sauðfjárrækt, ætlaðar vissar tekjur, sem þeir bjuggust við, að mundu standa. Nú er talað um að taka þær tekjur af mönnum, og við því er ekkert að segja út af fyrir sig, en er hægt að gera þessar ráðstafanir allt til 20. sept. 1948? En svo langt eiga þær að verka skv. frv. Og slík l. hefur hæstv. ríkisstj. átt frumkvæði að því að setja áður, og það er þessi stefna að láta skattalög gilda langt aftur fyrir sig, sem er eitt af því,. sem hæstv. ríkisstj. gerir til að auka á hasarinn, óvissuna í landinu, sem hún virðist alls staðar vilja hafa. En ég kann ekki við það, að maður, sem hefur gert ráð fyrir að fá þessar tekjur og hefur lifað samkvæmt því frá 20. sept. 1948, sé sviptur þeim. Og ef hægt er að svipta hann þessum tekjum, hvað er þá ekki hægt? Má þá ekki koma og segja t.d. við hv. 1. þm. Reykv. (BÓ): Nú borgar þú, góði minn, 1% af öllum þeim vörum, sem þú fluttir inn s.l. ár, eða eitthvað tilsvarandi. Nei, þetta finnst mér alveg fráleit stefna í löggjöf. Þess vegna, þó að ég sé 100% með því að afnema kjötuppbótina og gera í staðinn ráðstafanir til þess, að ódýrara verði að lifa, þá er ég samt sem áður á móti þessu frv., því að ég er alveg á móti því að svíkjast þannig aftan að mönnum. Ég væri líka á móti því, ef nú ætti að fara að segja við hæstv. ráðh.: Nú eigið þið að borga til fulls þann mismun á verði, sem leiðir af sérréttindum ykkar í áfengisverzluninni og tóbakseinkasölunni, og borga til fulls þá vöru, sem þið keyptuð í fyrra og hittiðfyrra. Á sama hátt er ég á móti því að fara svo aftan að mönnum sem gera á í þessu frv. Slíkt má ekki eiga sér stað. En þetta er ekki nýtt, og hefur hvað eftir annað komið fyrir hér á Alþingi að breyta l. þannig, en sú stefna er að mínum dómi alveg forkastanleg. Og þó að ég sé með því að afnema kjötuppbótina, þá er ég ekki með þessu frv., því að ég vil ekki koma svo aftan að þeim mönnum, sem trúðu því, að l. hefðu gildi, en hæstv. ríkisstj. virðist ekki hugsa um það, því að það eru líklega milli 10 og 20 lög frá Alþingi, sem hún hefur ekki farið eftir á einn eða annan máta.