16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Frsm. meiri hl. (Björn Ólafsson:

Herra forseti. Fjhn. klofnaði um málið, en 4 nm., sem mynda meiri hl., leggja til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. — Þetta er að vísu talsverður frádráttur hjá ýmsum, sem áður höfðu fengið kjötuppbætur greiddar úr ríkissjóði. En samkv. þeim upplýsingum, sem hæstv. fjmrh. gaf n., verðar þessar kjötuppbætur ekki teknar af þeim, sem lægst eru launaðir. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gaf n., eru takmörkin um niðurfellingu kjötuppbótanna eftir tekjum á þann hátt, að kjötuppbætur fá barnlaus hjón með 14.175 kr. tekjur, hjón með eitt barn, sem hafa 19.687 kr. tekjur, hjón með tvö börn, sem hafa 25.209 kr. tekjur, og hjón með þrjú börn, sem hafa 30.721 kr. tekjur. Verður því ekki sagt, að hér sé mjög þrengt kosti þeirra, sem lægst launaðir eru, en hins vegar hefur þessi ráðstöfun talsverðan sparnað í för með sér fyrir ríkissjóð, eða 10 millj. kr. Er þetta ein af þeim ráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert til þess að jafna þann mismun á tekjum og gjöldum, sem verið hefur undanfarið, og er því full nauðsyn fyrir ríkissjóð, að þetta mál nái fram að ganga. Meiri hl. n. vill því mæla með, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.