16.05.1949
Efri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (2789)

208. mál, áhrif kjötverðs á framfærsluvísitölu

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Ég legg til sem minni hl. n., að þetta frv. verði fellt. Ég hef gert nokkuð ýtarlega grein fyrir þessari afstöðu minni við 1. umr. málsins, og tel ekki neina þörf á að endurtaka þau rök hér, enda ekki neitt komið fram í umr., sem gefi tilefni til þess. Ég vil aðeins segja í tilefni af því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að það virtist svo, að þeir, sem hefðu lægri tekjur, ættu eftir sem áður að fá kjötuppbæturnar, — að ég furða mig á því, hvernig hv. frsm. meiri hl. getur komizt þannig að orði, eftir að hafa nefnt þær tölur, sem hann nefndi, því að hvernig getur hann nefnt þessar tölur og dregið af því þá ályktun, að þeir, sem eru á lágum launum, fái kjötuppbætur? Sannleikurinn er sá, að kjötuppbæturnar eru með þessum l. teknar af einhleypu fólki og fólki, sem ekki á mörg börn. Aftur á móti fá barnmargar fjölskyldur uppbæturnar eftir sem áður og ekki aðeins þeir, sem eru á lágum tekjum, heldur einnig þeir, sem eru á háum tekjum. T.d. fær fjölskylda með 7 börn uppbætur, þó að tekjurnar komist yfir 50 þús. áður en uppbæturnar eru dregnar frá.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Ég hef lagt fram rök mín við 1. umr. málsins og legg til, að frv. verði fellt.