08.04.1949
Neðri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (2814)

141. mál, iðnfræðsla

Samgmrh. (Emil Jónason):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa langar umr. um þetta mál. Það liggur ljóst fyrir, en ég get ekki stillt mig um að svara hv. þm. A-Sk. með nokkrum orðum. Aðalrökin, sem hann hafði fram að færa, voru þau, að þessi heimild mundi ekkert eða lítið notuð. Hann bjóst við, að það sama mundi gilda hér sem við aðra skóla, að aðeins fáir mundu nota sér heimildina til að vera utanskóla. En þessi rök sýna bara, hve hv. þm. er þessum málum óendanlega ókunnugur, og vil ég því reyna að skýra þetta fyrir honum. Þegar nemandi ræður sig til meistara til 4 eða 41/2 árs, fær hann 1/2 eða 1/4 af kaupi. Hvaða maður heldur þessi hv. þm: að mundi gera slíkt, ef hann ætti kost á að fá venjulegt kaup og öðlast samt sem áður sömu réttindi? Með þessu móti mundi fara svo, að enginn færi í hið reglulega iðnaðarnám, heldur mundu menn vinna verkamannavinnu við iðngreinina, fá þar fullt kaup og síðan slampast einhvern veginn í gegnum próf og öðlast þar með full réttindi iðnsveina. Afleiðingin af þessu mundi aðeins verða sú, að iðnaðarmannastétt okkar mundi smám saman stórhraka. Þetta er megingallinn, sem orsakast af því, ef brtt. verður samþ. Hv. þm. A-Sk. vildi draga samlíkingu milli skólalöggjafarinnar og þessa, en þar er ekki mögulegt að afla sér þekkingar utan skólanna nema að litlu leyti, nema þá með því móti að taka einkatíma, og það verður ekki ódýrara, og er þetta því sáralítið notað. En þegar menn geta stundað iðnaðarvinnu á fullu kaupi og öðlazt sömu réttindi, þá lætur enginn binda sig á klafa um langt árabil við venjulegt iðnaðarnám, og afleiðingin verður sú, sem ég sagði. Ég tel þetta nægilegt svar við ræðu hv. þm. A-Sk. og tef ekki tímann við að telja upp fleiri rök gegn till. hans, sem vissulega eru þó nóg til.