03.05.1949
Efri deild: 95. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1811 í B-deild Alþingistíðinda. (2827)

141. mál, iðnfræðsla

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti. Þetta mál, frv. til l. um iðnfræðslu, er gamall kunningi hér í deildinni, því að það lá hérna 1946 og 1947, og í janúar 1947 var það afgr. til hv. Nd. Á frv. voru þá gerðar ýmsar breytingar, sem iðnn. gat fallizt á, og náðu þær brtt. allar samþykki deildarinnar, en auk þess voru þá brtt., sem n. gat ekki öll komið sér saman um, og voru þær samþ. sumar hverjar a.m.k.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið af milliþn., en í henni áttu sæti fulltrúar frá atvinnurekendum eða meisturum og fulltrúar iðnsveina og auk þess fulltrúi ríkisstj., og má segja, að frv. sé byggt á samkomulagi þessara aðila. Nú hefur þetta mál verið tekið upp af ráðh. og flutt af iðnn. Nd. Frv. var flutt að mestu eins og 1946, og voru þá ekki teknar með breyt. þær, sem iðnn. Ed. hafði gert á því þá. Hins vegar hefur nú iðnn. Nd. tekið upp í frv. flestar af þeim breyt., sem iðnn. Ed. hafði gert 1946, og náðu þær samþykki Nd. Eftir því sem málið liggur nú fyrir, þá er aðeins ein till., sem flutt var í Nd., sem samkomulag náðist ekki um og var felld þar. Það er sams konar till. og nú er flutt hér í deildinni af minni hl. iðnn., hv. 1. þm. N–M. Annars ætla ég ekki að fara að rökræða þá till. hér, en vil aðeins geta þess hér, að ef hún verður samþ., þá þykir mér það sennilegt, að það muni þýða sama og það, að frv. mundi daga uppi. Í fyrsta lagi af því, að Nd. hefur þegar fellt till. um sams konar efni og er því líklegt, að hún mundi gera slíkt hið sama aftur, þó að hún yrði samþ. hér, og í öðru lagi af því, að mjög skammt er nú til þingloka og líkur til þess, að frv. mundi daga uppi, því að ef Ed. samþykkir þessa till., þá er nokkurn veginn vissa fyrir því, eftir því sem ég hef komizt að hjá iðnn. Nd., að ráðh. óski ekki eftir því, að það fram kemur í brtt. En burtséð frá þessu þá telur meiri hl. iðnn., að full þörf sé á því að fá frv. samþ. á þessu þingi og vildi þess vegna ekki taka undir till. minni hl. n., því að það mundi þýða það, að frv. dagaði uppi.

Ég dreg enga dul á það, að iðnaðarstéttin muni vera orðin langeyg eftir þessari löggjöf, sem að ýmsu leyti er frábrugðin þeirri löggjöf, sem nú gildir í þessum málum. Og það er almenn krafa stéttarinnar, að Alþ. samþ. þessar breyt., og undir þær kröfur vill meiri hl. taka. Ég ætla hér ekki að fara að gera grein fyrir þeim breyt., sem hafa orðið frá því, sem er í núgildandi löggjöf, því að það var gert, þegar málið var hér til umr. í deildinni 1946 og 1947, og öllum deildarmönnum er kunnugt um það, nema e.t.v. einum, hv. 1. þm. Reykv. (BÓ). En ég vildi aðeins með þessum orðum sýna fram á það, að n. vildi orka á það, að frv. yrði samþ. óbreytt, en ella mundi það daga uppi, því að ég hef fært fram rök fyrir því áliti mínu. að ég tel ekki fært, að gerðar verði breyt. á frv., nema eiga það á hættu, að málið dagi uppi. Get ég svo lokið ummælum mínum um málið að þessu sinni.