13.05.1949
Efri deild: 107. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

141. mál, iðnfræðsla

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki teygja þessar umr., en vil aðeins gera grein fyrir afstöðu minni til brtt., sem komið hafa fram. Ég hef skrifað undir nál. á þskj. 607 og vil þar með stuðla að framgangi frv. óbreytts, en áskildi mér þó rétt til að greiða atkv. með brtt., svo sem brtt. 602. Ég tel rétt, að námstíminn skuli teljast frá dagsetningu námssamningsins, en bíði ekki staðfestingar iðnráðs. Það hefur komið fyrir, að dráttur hefur orðið á þeirri staðfestingu og nemar hafa þannig verið snuðaðir. Ég tel rétt að setja slík ákvæði, og úr því að þau eru komin hér fram í brtt., þá mun ég greiða þeirri brtt. atkv. Efnislega er ég samþykkur 2. brtt. á sama þskj., að mönnum gefist kostur á að ganga undir iðnpróf, þótt þeir stundi ekki námið hjá meistara. Ég held hins vegar, að ekki sé tímabært að setja slík ákvæði inn í frv. nú, þar sem hvergi er nú til stofnun, þar sem hægt er að ganga undir slíkt verklegt nám. Ég mun því greiða atkv. gegn þessu.

Í lögum um iðnskóla er gert ráð fyrir vinnustofum, þar sem skilyrði verða til að stunda slíkt nám við skólann, og á þá að verða hægt að ganga undir próf, er veiti sömu réttindi og þeir fá, sem stunda nám hjá meisturum, svo að fullnægjandi sé, og verð ég því ekki með heimildinni, þó að efnislega sé ég sammála.

Um aðrar brtt. er það að segja, bæði á þskj. 617 við 22. gr. o.fl., að ég mun greiða atkv. á móti þeim með sömu rökum og hæstv. ráðh. tók fram, sbr. þskj. 624. Ég tel, að ákvæði verði að vera um þetta, en álít, að ákvæðin, sem eru í 22. gr., séu fullnægjandi. Annars skal ég ekki fjölyrða um málið.