11.10.1948
Sameinað þing: 0. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (2857)

Minning látinna manna

Minning látinna manna. Aldursforseti (BK):

Háttvirtu alþingismenn. Frá því er síðasta þingi sleit hefur einn hinna mikilhæfustu manna úr vorum hópi fallið frá, Pétur Magnússon bankastjóri og fyrrv. fjármálaráðherra. Vér kvöddum hann hér um síðustu páska heilan á húfi, að því er virtist, en skömmu síðar tók hann hættulega veiki og fór til Ameríku til þess að leita sér lækninga, en þar lézt hann eftir uppskurð 26. júní síðastliðinn í Boston, sextugur að aldri.

Pétur Magnússon fæddist á Gilsbakka í Hvítársíðu 10. janúar 1888, sonur séra Magnúsar Andréssonar og konu hans Sigríðar Pétursdóttur Sívertsens. Hann útskrifaðist úr menntaskólanum í Reykjavík 1911 og lauk lögfræðiprófi í Háskóla Íslands 4 árum síðar, 1915, gerðist þá starfsmaður í Landsbankanum og hafði það starf á hendi til 1920. Í rúm 20 ár þar á eftir, eða til 1941, hafði hann með höndum málaflutningsstörf í Reykjavík og varð hæstaréttarlögmaður 1921, en gegndi á því árabili ýmsum öðrum störfum, var framkvæmdastjóri Ræktunarsjóðs Íslands 1924–1930 og bankastjóri í Búnaðarbankanum 1930–1937. Árið 1941 var hann skipaður bankastjóri í Landsbankanum og gegndi þeim starfa að því sinni um þriggja ára skeið, til 1944, en þá varð hann fjármála- og viðskiptamálaráðherra og fór einnig með landbúnaðarmál. Þegar hann lét af því embætti í febrúar 1947, hvarf hann að málflutningsstörfum í nokkra mánuði, en var aftur í nóvember s. á. skipaður landsbankastjóri, og það starf hafði hann á hendi til dauðadags. Á Alþingi átti hann alls sæti í 13 ár og sat á 16 þingum, var landskjörinn þingmaður 1930–1933 og aftur 1942–1946, þingmaður Rangæinga 1933–1937 og þingmaður Reykvíkinga frá 1946. í bæjarstjórn Reykjavíkur sat hann á árunum 1922–1928 og var forseti bæjarstjórnar. Af öðrum störfum, er hann hafði á hendi, má nefna, að hann átti sæti í milliþinganefnd í kjördæmamálinu 1931 –1932 og var nokkrum sinnum á síðari árum stjórnskipaður í sáttanefnd í meiri háttar vinnudeilum.

Í öllum þeim ábyrgðarmiklu störfum, er Pétur Magnússon hafði á hendi og nú hafa verið að nokkru rakin, naut hann almannatrausts og virðingar framar flestum öðrum mönnum, jafnt í hópi andstæðinga sem samherja, þótt hann kæmist ekki hjá því að verða stundum fyrir aðkasti, eins og dæmin gerast um forustumenn á stjórnmálasviðinu, enda var maðurinn óvenjulega starfshæfur, að hverju sem hann gekk, glöggskyggn lögfræðingur, kunni góð skil á aðalatriðum og aukaatriðum, manna þýðastur í viðmóti, góðviljaður og greiðvikinn. Að eðlisfari var hann maður hlédrægur og sóttist lítt eftir frama eða vegtyllum, en hann var þeim hæfileikum búinn, viti, réttsýni, þekkingu og mannkostum, að hann komst ekki undan því að takast á hendur hin mikilvægustu trúnaðarstörf í þarfir þjóðfélagsins, þótt honum væri það oft þvert um geð. Og öll störf sín rækti hann af alúð og kostgæfni.

Oss er öllum í fersku minni, hver áhrifamaður hann var á þingi, hverjum manni betur máli farinn, rökfastur og fylginn sér, en þó jafnan stilltur, hófsamur og orðprúður. Í eðli sínu var hann ekki bardagamaður, þó að hann væri vel vopnum búinn og manna vaskastur að beita þeim, ef til þurfti að taka, heldur friðarhöfðingi og mannasættir, seinþreyttur til stórræða.

Alþingi og öll þjóðin hefur misst einn sinna færustu og beztu manna.

Ég vil biðja hv. þingmenn að votta minningu Péturs Magnússonar virðingu með því að risa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]

Þá vil ég einnig minnast tveggja þjóðkunnra fyrrverandi alþingismanna, er látizt hafa á þessu sumri, Magnúsar Torfasonar sýslumanns, er andaðist 14. ágúst síðastl., áttræður að aldri, og Héðins Valdimarssonar forstjóra, er andaðist 12. f. m., á 57. aldursári.

Magnús Torfason fæddist 12. maí 1868 í Reykjavík, sonur Torfa bókhaldara Magnússonar prests í Eyvindarhólum Torfasonar og konu hans Jóhönnu Jóhannsdóttur verzlunarstjóra í Vestmannaeyjum Bjarnasonar. Hann útskrifaðist úr lærða skólanum í Reykjavik 1889 og lauk síðan á tæpu 41/2 ári, veturinn 1894, lögfræðiprófi við háskólann í Kaupmannahöfn. Á sama ári, um haustið, var hann settur sýslumaður í Rangárvallasýslu og fékk veitingu fyrir því embætti á næsta ári. Á sýslumannsárum sínum í Rangárvallasýslu bjó hann jafnframt góðu búi á Árbæ í Holtum. Tæpum 10 árum síðar, vorið 1904, var honum veitt Ísafjarðarsýsla og bæjarfógetaembættið á Ísafirði, og hafði hann það embætti á hendi í 17 ár, til 1921, en það ár var honum veitt sýslumannsembættið í Arnessýslu, og gegndi hann því til þess, er honum var veitt lausn frá embætti frá árslokum 1936, en þá fluttist hann til Reykjavíkur. Hafði hann þá verið sýslumaður í 42 ár samfleytt. Á Alþingi átti hann sæti í tæp 19 ár samtals og sat á 21 þingi, var fyrst þingmaður Rangæinga á þinginu 1901, þingmaður Ísafjarðarkaupstaðar 1916–1919, þingmaður Árnesinga 1924–1933 og loks landskjörinn þingmaður 1934–1937. Hann var forseti sameinaðs Alþingis á árunum 1927–1929. Af öðrum störfum, er hann gegndi í almenningsþarfir, má nefna, að hann átti í mörg ár sæti í bankaráði Útvegsbankans.

Magnús Torfason var umsvifamikill og röggsamur embættismaður, fljótur að úrskurða mál eða afgreiða á annan hátt, reglusamur og verkhygginn og var sérstaklega sýnt um að stýra farsællega fjármálum sýslna þeirra og bæjarfélaga, er hann veitti forstöðu.

Hann var stórbrotinn í lund, kappsfullur og óvæginn við andstæðinga, ef því var að skipta, en mildur við alþýðu manna og vildi jafnan rétta hlut þeirra, er miður máttu sín í þjóðfélaginu, og bæta kjör þeirra.

Á Alþingi lét hann allmikið að sér kveða og háði hér marga hildi. Einkum lét hann til sín taka sjálfstæðismálið og skipaði sér þar á bekk með þeim, sem kröfuharðastir voru fyrir landsins hönd. Hann var, eins og kunnugt er, annar þeirra þingmanna, er hafna vildu sambandslagasamningnum við Dani 1918.

Með Magnúsi Torfasyni er til moldar genginn einn hinna aðsópsmestu embættismanna landsins á þessari öld.

Héðinn Valdimarsson fæddist í Reykjavík 26. maí 1892, sonur Valdimars ritstjóra Ásmundssonar bónda í Flögu í Þistilfirði Sæmundssonar og konu hans Bríetar ritstjóra Bjarnhéðinsdóttur bónda í Böðvarshólum Sæmundssonar. Hann lauk stúdentsprófi í menntaskólanum í Reykjavík 1911 og hagfræðiprófi í háskólanum í Kaupmannahöfn 1917. Að loknu embættisprófi varð hann skrifstofustjóri landsverzlunar og gegndi því starfi til 1926. Þá stofnaði hann Tóbaksverzlun Íslands og var framkvæmdastjóri hennar til 1929, en árið 1928 stofnaði hann Olíuverzlun Íslands og var forstjóri hennar til dauðadags.

Þegar á námsárum hneigðist hugur hans að stjórnmálum, og hallaðist hann snemma að jafnaðarstefnunni. Þegar hann kom heim frá námi, gekk hann í Alþýðuflokkinn, sem þá var nýstofnaður, gerðist brátt einhver helzti forustumaður hans og átti manna mestan þátt í að móta og skipuleggja starfsemi hans. Hann var formaður stærsta verkamannafélags landsins, Dagsbrúnar, í 15 ár, átti sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur í 7 ár, 1922–1929, var þingmaður Reykvíkinga um 15 ára skeið samfleytt, 1927–1942 og sat á 21 þingi. Af öðrum störfum, er hann hafði á hendi, eru þau helzt, að hann var skipaður í verðlagsnefnd 1920, átti sæti í bankaráði Landsbankans 1930–1934, var formaður fiskimálanefndar 1935–1937, formaður Byggingarfélags alþýðu frá stofnun þess 1931 og var tvívegis skipaður í samninganefndir við erlend ríki um viðskiptamál. Hann var einn af stofnendum Sameiningarflokks alþýðu — sósíalistaflokksins og fyrsti formaður hans, 1938–1939, en gekk þá úr flokknum af ástæðum, sem ekki verða raktar hér, og var utan flokka þau ár, sem eftir voru af kjörtímabilinu. Upp frá því hætti hann opinberum afskiptum af stjórnmálum.

Héðinn Valdimarsson var maður skapmikill og harðskeyttur, skeleggur baráttumaður, víkingur til vinnu og framkvæmda og hinn mesti áhrifamaður. Fyrir ötula forgöngu hans á þingi var sett löggjöf um ýmsar réttarbætur alþýðu manna til handa, svo sem lög um verkamannabústaði og alþýðutryggingar.

Héðins Valdimarssonar mun jafnan verða minnzt sem eins hinna dugmestu frumherja jafnaðarstefnunnar hér á landi.

Ég vil einnig biðja háttvirta alþingismenn að rísa úr sætum sínum til virðingar við minningu þessara merku fyrrverandi þingmanna. [Þm. risu úr sætum.]