17.12.1948
Neðri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef flutt brtt. við frv. þetta, sem prentuð er á þskj. 238 og ég vil leyfa mér að fylgja úr hlaði með nokkrum orðum. Þessi brtt. er flutt við c-lið 29. gr. og er þess efnis, að undanþegnar þessu gjaldi skuli vera jeppabifreiðar eða aðrar hliðstæðar bifreiðar, sem fluttar eru inn í þágu landbúnaðarins, enn fremur bifreiðar, sem verið hafa 4 ár eða lengur í eigu íslenzkra manna, er dvalið hafa erlendis. Rökin eru þau, að á undanförnum árum hafa bifreiðar mikið verið fluttar til landsins, svo að tala bifreiða nemur nú 11 þús. Þar af hafa um 4 þús. bifreiðar flutzt inn nú síðustu 2 árin. Langsamlega mestur hlutinn eða svo að segja allar hafa verið fluttar inn af fólki í kaupstöðum. Að vísu hafa verið fluttir um 1.200 jeppabílar, sem aðallega hafa farið til bænda, en eins og áður er rakið, þá er ekki yfir helmingur þessara bifreiða í eigu landbúnaðarins eða sveitamanna. Nú er í ráði að auka innflutning á þessum handhægu og vinsælu tækjum, og má búast við, að nokkur hundruð verði flutt inn á næsta ári. Ég tel það rangt, að nú, þegar hægt er að flytja þetta inn til landbúnaðarins, þá skuli vera skellt á því gjaldi, sem hér er gert ráð fyrir. Og þetta bitnar eingöngu á landbúnaðarframleiðendum, sem hafa þó nógu lengi setið við skertan hlut. Ég held, að þetta séu mjög réttlát rök. Það hefur flutzt svo mikið inn af vörubifreiðum til landsins, að atvinna vörubílstjóra er nú þegar tekin að rýrna og atvinnuleysi farið að skapast, svo að orðið hefur að grípa til atvinnubótavinnu vegna þess. Þess vegna er ekki hægt að bera þá saman við jeppa, sem mikil þörf er fyrir í sveitunum og vissulega mundu létta mjög þungan róður landbúnaðarins. Ég vænti þess, að hv. þdm. sjái nauðsyn þessa og samþykki brtt.

Og þá er það síðari liðurinn. Ég held, að því verði ekki móti mælt, að menn, sem búnir eru að vera erlendis, eigi kröfu til þess að fá að flytja inn búslóð sína og bifreiðar, sem þeir hafa keypt erlendis, sérstaklega þegar tillit er tekið til þeirrar baráttu, sem þeir hafa orðið að eiga í við gjaldeyris- og innflutningsyfirvöldin. Ég þekki dæmi þess, að menn hafa átt í slíkri baráttu, og sumir hafa fengið loforð um að mega flytja þetta inn núna, en á meðan er skatti skellt á, og bitnar hann óneitanlega mjög á þessum mönnum. Ég hygg, að það sé vel hægt að koma í veg fyrir, að slíkt yrði misnotað, og hef ég þess vegna flutt fram þessa brtt., en mun verða við þeim tilmælum, að hún bíði atkvgr. þar til við 3. umr.

Að öðru leyti mun ég ekki ræða þetta frv. og stefnu þess. Ég vil þó segja þetta, að í því felst ekki nægileg trygging fyrir því, að bátaflotinn komist af stað — því miður. Mér eru ljós fjárhagsvandræði ríkisstj. og skil það vel, að ekki skuli vera hægt að hækka ábyrgðarverðið frá því, sem nú er. Ég vil samt vænta þess, að hv. nefnd reyni að finna aðrar leiðir til þess að tryggja höfuðsjónarmið frv., tryggja rekstur útvegsins næstu vertíð.

Ég ber nokkurn ugg í brjósti um, að þau gjöld, sem frv. gerir ráð fyrir, muni auka dýrtíðina. Virðist mér hækkun á söluskattinum benda eindregið til þessa. Ég bendi á þetta til þess, að þingið geri sér það ljóst og reyni að tryggja rekstur útgerðarinnar án þess að láta það koma fram í aukinni dýrtíð. Ég veit, að það er þetta, sem vakir fyrir hv. ríkisstj., að tryggja þær hliðar atvinnulífsins, sem þjóðin á afkomu sína mest undir. En eins og ráðh. lýsti yfir í gær, þá felur þetta frv. í sér tilraun til þess að samrýma sjónarmið þeirra, er að ríkisstj. standa, en það hlýtur að vera álit sjálfstæðismanna, að með þessu sé ekki mörkuð stefna til að leysa þjóðfélagsleg vandamál, en við viljum þó standa saman. Þess vegna mun ég fylgja þessu frv. þrátt fyrir þann ugg, sem ég ber í brjósti, í þeirri von. að hv. n. komist að niðurstöðu um að tryggja útveginn betur.