19.10.1948
Sameinað þing: 4. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (2879)

Marshallaðstoðin

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Í sambandi við þátttöku Íslands í Marshalláætluninni hafa verið lagðar fyrir efnahagssamvinnustofnunina í París áætlanir um utanríkisverzlun okkar og greiðslujöfnuð fyrir einstaka ársfjórðunga og fyrir árið 1. júlí 1948 til 30. júní 1949. Stofnuninni í París, sem er samtök hinna 19 þátttökuaðila, var falið af Bandaríkjunum að gera tillögur um skiptingu á Marshallhjálpinni á milli þátttökuríkjanna fyrsta árið. Í þessu starfi voru lagðar til grundvallar áætlanir, sem öll ríkin afhentu fyrir 15. júlí. Áætlun okkar fyrir þetta tímabil sýndi neikvæðan verzlunarjöfnuð við Bandaríkin og Kanada, sem nam 11,9 milljónum dollara, eða 77.350.000 krónum. Þennan halla var gert ráð fyrir, að hægt væri að greiða að miklu leyti með dollurum, sem Marshallhjálpin mundi væntanlega borga fyrir afurðir okkar, sem seldar væru fyrir milligöngu hennar til þátttökuríkjanna í Evrópu.

Samkvæmt þessari áætlun var Íslandi úthlutað til bráðabirgða 11 milljónum dollara fyrir missirin 1948–49, og var eflaust gert ráð fyrir því, að talsverður hluti af þessari greiðslu kæmi til greiðslu fyrir íslenzkar afurðir. Annars var það ekki starf Parísarstofnunarinnar að ákveða, hvort þessi úthlutun kæmi Íslandi til góða sem lán, gjöf eða fyrir afurðasölur. Það atriði er ákveðið af efnahagsstofnuninni í Washington.

Er bráðabirgðaúthlutun hafði farið fram um miðjan ágúst, áttu öll þátttökuríkin að endurskoða áætlanir sínar og reikna nú með þeirri dollaraupphæð, sem þeim var úthlutað. Vegna síldarleysis varð að lækka allverulega útflutningsáætlunina, hvað snertir þátttökuríkin og önnur Evrópuríki, en innflutningsáætlunina frá Bandaríkjunum og Kanada var lítið hægt að lækka, þar eð hún var upphaflega miðuð við aðeins bráðnauðsynlegar vörur, sem ómögulegt eða illmögulegt var að fá annars staðar. Er gert ráð fyrir, að eftirtaldar vörur verði fluttar inn gegn dollaragreiðslu. frá 1. júlí 1948 til 30. júní 1949:

Kornvörur

1828000

dollarar

Feiti og jurtaolíur

564000

Tóbaksblöð vegna tóbaksgerðar

42500

Hrísgrjón og baunir

84000

Olíur og benzín

2850000

Járn og stál

468000

Timbur, aðallega harðviður

600000

Pappír og pappi fyrir fiskumbúðir

200000

Manilla-hampur frá Filipseyjum

200000

Kjötpokar

30000

Síldarnætur og netagarn

470000

dollarar

Tilbúinn áburður

504000

-

Efnavörur og lyf

700000

Hjólbarðar

145000

-

Ýmsar vörur (m. a. járn- og stálvörur og niðursuðudósir)

2470000

Vélar fyrir rafveitur

100000

Vélar til ullariðnaðar

90000

-

Beltisdráttarvélar

120000

Hjóldráttarvélar

148000

Landbúnaðarvélar

218000

-

Ýmsar vélar, efni og varahlutir

(fyrir síldarverksm., landssímann, flugþjónustuna o. fl.)

2500000

Samtals

14331500

dollarar

Í þessari áætlun eru taldar með síldarverksmiðjuvélar, síldarvinnsluskipið Hæringur og síldarnætur, sem greiðast af 2,3 millj. dollara láninu, er tekið var í sumar. Að því meðtöldu er halli á dollaraviðskiptunum áætlaður 11 millj. dollarar eða eins og úthlutunin. En andvirði afurða, sem seldar eru fyrir dollara fyrir milligöngu Marshallhjálparinnar, verður einnig talið sem framlag til okkar og verður því dregið frá úthlutuninni. Á þriðja ársfjórðungnum var selt síldarlýsi og síldarmjöl á þennan hátt fyrir 1,9 millj. dollara, en nú er verið að ganga frá sölu á frystum fiski fyrir 3½ millj. dollara. Ekki er enn ákveðið, hvort við fáum eftirstöðvarnar af úthlutuninni sem greiðslu á afurðum okkar, gjöf eða lán.

Fyrir 1. okt. var lokið við að semja áætlanir um innflutning, útflutning og greiðslujöfnuð fyrir árið 1949–50. Ástæðan fyrir því, að leggja þurfti svo snemma fram áætlun fyrir næsta tímabil, er sú, að efnahagssamvinnustofnunin í París þarf að gefa Bandaríkjastofnuninni sundurliðaða áætlun um dollaraþörf þátttökuríkjanna fyrir næsta fjárhagstímabil Bandaríkjanna, svo að þingið í Washington geti tekið ákvörðun um aðra fjárveitingu til Marshallhjálparinnar.

Samkvæmt þessum lauslegu bráðabirgðaáætlunum er búizt við, að dollarahallinn á tímabilinu 1949–50 nemi um 10 millj. dollara eða 65,5 millj. króna, en hins vegar er reiknað með 3,4 milljónum dollara tekjuafgangi af viðskiptum við önnur ríki, en Bandaríkin og Kanada. Heildarhallinn á greiðslujöfnuðinum er því talinn 6,6 millj. dollarar eða 42,09 millj. króna. Í sambandi við þessar niðurstöður er ástæða til að benda á, að á næsta ári er gert ráð fyrir eftirfarandi gjaldeyrisútgjöldum vegna sérstakra framkvæmda og innflutnings á framleiðslutækjum :

Togarar (10)

2.900.000

dollarar

Fiskimjölsverksmiðjur

150.000

Frystihús

950.000

Sementsverksmiðja

530.000

Herzluverksmiðja

350.000

Áburðarverksmiðja

1.325.000

Þurrkvíar (2)

300.000

Skip

2.600.000

Landbúnaðarvélar

1.600.000

Rafveitur

2.500 000

Samtals

13.205.000

dollarar

Þessi útgjöld eru helmingi hærra en hinn ætlaði halli á greiðslujöfnuðinum, og má það teljast gott, ef gjaldeyristekjurnar, aðallega af útflutningi, geta staðið undir að borga auk eðlilegs innflutnings helming af gjaldeyriskostnaði hinna fjárfreku framkvæmda.

Þá hefur einnig samkvæmt ósk efnahagssamvinnustofnunarinnar verið samin 4 ára áætlun um fyrirhugaðar framkvæmdir til þess að tryggja fjárhagslegt og atvinnulegt öryggi hér á landi. Var sérstök áherzla lögð á það af hálfu Bandaríkjamanna, að þátttökuríkin notuðu Marshallhjálpina til þess að byggja upp iðnað og atvinnugreinar, sem annað hvort öfluðu þeim dollaratekna eða drægju úr dollaraútgjöldum þeirra. Í 4 ára áætluninni átti sérstaklega að koma fram, hvernig þátttökuríkin gætu komizt hjá því að vera fjárhagslega háð Bandaríkjunum, er hjálparstarfseminni lýkur á miðju ári 1952.

Þessi fjögurra ára áætlun var send Parísarstofnuninni um 1. okt. s. l., eins og tilskilið var. Í henni er fyrst gerð grein fyrir verzlunarjöfnuði Íslands út á við s. l. þrjú ár, endurnýjun fiskveiðiflotans, og þeim þætti, sem sjávarútvegurinn hefur átt í útflutningsverzlun þjóðarinnar eftir að styrjöldinni lauk, og loks eru þar verðlagsmál og fjármál þjóðarinnar nokkuð skýrð. Síðan er gerð grein fyrir þeim framkvæmdum, sem ríkisstj. leggur áherzlu á, að unnar verði á þessu fjögurra ára tímabili til að tryggja efnahagslíf þjóðarinnar í framtíðinni og til að draga úr dollaraþörfinni, en þessar framkvæmdir eru:

1. Aukning fiskiflotans.

2. Aukning síldariðnaðarins.

3. Bygging lýsisverksmiðju.

4.Bygging fiskimjölsverksmiðju.

5. Aukning kaupskipaflotans.

6. Aukning hraðfrystihúsanna.

7. Bygging skipasmíðastöðvar og þurrkvíar.

8. Kaup á landbúnaðarvélum og aukning ullarverksmiðja.

9. Bygging raforkuvera.

10. Bygging áburðarverksmiðju.

11. Bygging sementsverksmiðju.

12. Bygging kornmyllu.

Um þessi atriði segir svo í áætluninni. (Ég vil biðja hv. alþingismenn að athuga, að áætlunin er samin fyrir menn, sem lítið þekkja til hér á landi, og ber sums staðar merki þess í orðalagi og uppbyggingu):

„Endurnýjun íslenzka fiskiflotans, sem var langt á eftir tímanum vegna styrjaldarinnar og langrar fjárhagskreppu fyrir styrjöldina, hófst þegar að lokinni síðari heimsstyrjöldinni árið 1945. Þá var fiskiflotinn aðeins 27.000 brúttósmál. Árið 1945 samdi ríkisstj. um kaup á 32 nýtízku togurum, 175 til 180 fet hver. Af þessum togurum hafa 27 þegar verið afhentir, og þegar við þá bætist mikill fjöldi smærri skipa, 50 til 70 feta að lengd, er fiskiflotinn nú orðinn 54.000 brúttó-smál. að stærð.

Ríkisstj. hefur ákveðið að kaupa 10 togara til viðbótar frá Bretlandi, og er þess vænzt, að smíði þeirra ljúki árið 1951–52. Heildarkostnaðarverð þessara togara er áætlað 6.2 millj. dollara og mun þurfa að greiðast sem hér segir:

1948–49

1.4

millj.

dollara

1949–50

2.4

-

1950–51

2.4

Áætlað er að panta tvo togara, sem afhendast 1951–52 til viðbótar og endurnýjunar. Útgjöld í erlendum gjaldeyri til bygginga og viðgerða smærri fiskiskipa, 50 til 70 fet, er áætlað, að nemi 500 þús. dollurum á ári í næstu 4 ár.

Á þessu ári er verið að auka afkastagetu síldarverksmiðja um rúmlega 30 af hundraði. Þessi aukning hefur reynzt fær vegna veitingar endurreisnarláns, að upphæð 2.3 millj. dollara, til kaupa á vélum í Bandaríkjunum fyrst og fremst.

Vegna þess, hve síldveiðar eru ótryggar, eru allar áætlanir um framleiðslu síldarlýsis mjög óvissar. Samt sem áður má með nokkrum rökum áætla árlega framleiðslu síldarlýsis 40–50 þús. tonn, þegar lokið hefur verið hinum nýju verksmiðjum. Árlega framleiðslu síldarmjöls má með sama hætti áætla 45–55 þús. tonn.

Öll síldarlýsisframleiðslan er flutt út, og sama er að segja um síldarmjölið, að undanskildum 7.000 smálestum, sem notaðar eru innanlands. Í ár hafa 7.000 tonn af síldarmjöli verið flutt til Bandaríkjanna fyrir rúmlega 1 millj. dollara, þannig að síldarmjöl nemur um 1/3 af heildarverðmæti útflutnings Íslendinga til Bandaríkjanna á árinu. Kaup á síldarlýsi og mjöli fyrir endurreisnarfé (off-shore purchases) hafa numið 1.9 millj. dollurum, svo að augljóst er, að síldariðnaðurinn er sú atvinnugrein á Íslandi, sem gefur einna mestar dollaratekjur. Mestur hluti útflutningsins fer samt sem áður til þátttökuríkjanna, þar sem feitmetisskortur er mikill. Þróun síldariðnaðarins er þess vegna til hagsbóta þátttökuríkjunum. Hvað snertir Ísland, er vart hægt að ofmeta þýðingu síldariðnaðarins fyrir efnahagsafkomu þess. Í stuttu máli má segja, að það, hvort Ísland nái greiðslujöfnuði við önnur lönd, sé undir því komið, hvernig árar með síldveiðar og síldariðnað.

Á næstu árum mun þróun síldariðnaðarins fyrst og fremst verða takmörkuð við að endurnýja og bæta vinnsluaðferðir í þeim verksmiðjum, sem þegar eru fyrir hendi. Þó verða ef til vill reistar nýjar verksmiðjur, enda þótt áætlanir um það séu ekki fyrir hendi nú.

Með hinni auknu afkastagetu íslenzkra síldarverksmiðja má áætla, að árleg framleiðsla síldarlýsis nemi um 50.000 tonnum, nema síldveiðar bregðist. Til þess að auka útflutningsverðmæti síldarlýsis er mjög þýðingarmikið að geta boðið það hreinsað og hert. Síldarolía hefur áður verið og mun sennilegast verða flutt aðallega til þátttökuríkjanna og mun þannig stuðla að því að minnka innflutning þeirra á feiti og feitiolíum frá dollaralöndum. Auk þess mun bygging lýsisherzluverksmiðja á Íslandi minnka innflutning þess á hertum olíum, en innflutningsverð þeirra hefur að mestu leyti þurft að greiðast í dollurum.

Af framangreindum ástæðum hefur ríkisstj. Íslands ákveðið að byggja lýsisherzluverksmiðju, sem afkastar 50 smál. á sólarhring. Áætlaður byggingarkostnaður er 1,2 millj. dollara. Um 0,8 millj. dollara mun þurfa að greiðast í erlendum gjaldeyri, 0,5 millj. dollara fyrir vélar og 0,3 millj. dollara fyrir ýmiss konar byggingarefni. Gert er ráð fyrir, að mestur hluti vélanna verði keyptur í Bandaríkjunum, en byggingarefnis mun verða aflað frá þátttökuríkjunum. Vegna rafmagnsskorts fram að árinu 1950–51 getur bygging verksmiðjunnar ekki hafizt fyrr en árið 1949, og mun verða lokið á árinu 1951. Skipting greiðsla er þannig (talið í þús. dollara):

USA Þáttt.ríkin

USA

Þáttt.ríkin

1949–50

200

150

1950–51

150

150

1951–52

150

Samtals

500

300

Árleg framleiðsla fiskimjöls hefur á undanförnum árum aukizt talsvert og er nú 5–6 þús. smál. Fjöldi verksmiðja er samt sem áður langt frá því að fullnægja. Miklu af fiskúrgangi er fleygt vegna vöntunar á verksmiðjum.

Áformað er að byggja á næstu 4 árum 13 fiskimjölsverksmiðjur, og er áætlaður heildarkostnaður þeirra 1,6 millj. dollara. Vélar og útbúnaður frá útlöndum er áætlað að kosti 600 þús. dollara og skiptist jafnt á árin. Vélar munu aðallega keyptar frá þátttökuríkjunum.

Fyrir eyland, sem rekur tiltölulega mjög mikla utanríkisverzlun, eins og Ísland, er mjög mikilvægt að eiga nógu mikinn kaupskipaflota til að flytja megnið af útfluttum og innfluttum varningi. Ísland hefur aldrei haft slíka aðstöðu. Árið 1947 jafngiltu farmgjaldagreiðslur í erlendum gjaldeyri 8,2 millj. dollara. Aðstaða Íslands að þessu leyti fer batnandi, þar sem samið var um kaup á nýjum skipum skömmu eftir styrjaldarlok, sumpart til að fylla í skörðin fyrir þau skip, sem fórust í stríðinu, og sumpart til aukningar kaupskipaflotans.

Í árslok 1947 var íslenzki kaupskipaflotinn 13.924 brúttó-smál. að stærð. Afhendingar nýrra skipa og greiðslur fyrir þau í sterlingspundum og dollurum er reiknað með að verði svo, talið í þús. dollara:

Fjöldi skipa

Brúttó-smál.

Greiðslur

doll.

stp.

1948

6

11.340

1070

2300

1949

2

5.810

460

1900

1950

2

5.800

3000

1951

(áætl.)

1

2.300

1000

1952

1

2.500

1100

Flest þessi skip hafa verið greidd úr sérstökum sjóði, sem lagður var til hliðar til nýbygginga.

Þegar framangreind áætlun hefur verið framkvæmd, er talið, að ekki þurfi erlend skip til að annast flutninga nema á olíu, kolum, og salti til landsins.

Á síðasta áratug hafa hraðfryst fiskflök komið í stað saltfisks sem ein af aðalútflutningsafurðum Íslendinga. Nú eru 72 hraðfrystihús á Íslandi, sem afkastað geta 700 tonnum af fiskflökum á sólarhring. Árleg framleiðsla er á milli 25–30 þús. tonn.

Enn þá eru nokkrir útgerðarstaðir án hraðfrystihúsa. Tvö ný hraðfrystihús eru nú í smíðum og verið er að endurnýja alveg fjögur, en sum þessara fjögurra eru einnig notuð við frystingu kjöts. Auk þess er áformað að byggja á næstu árum 5 ný hraðfrystihús. Árið 1952 munu heildarafköst hraðfrystihúsanna væntanlega verða 830 tonn af flökum á sólarhring.

Heildarkostnaður við þessar framkvæmdir er áætlaður að nema um 4 millj. doll., en af þeirri upphæð mun þurfa um 1750 þús. dollara til kaupa á vélum og útbúnaði frá útlöndum. Greiðslur fyrir þennan innflutning eru áætlaðar þannig (í þús. dollara):

Bandar.

Þáttt.r.

1948–49

80

460

1949–50

105

846

1950–51

35

124

1951–52

100

Hin öra aukning fiski- og kaupskipaflota Íslendinga hefur í för með sér auknar þarfir fyrir stærri og betur útbúnar skipasmíðastöðvar. Í nýreistri skipasmíðastöð í Reykjavík og fjölda smærri skipasmíðastöðva úti um land er nú hægt að gera við hina nýju gufutogara og smærri fiskiskip. Þetta hefur haft í för með sér talsverðan sparnað á erlendum gjaldeyri, sem fram að þessu hefur orðið að greiða erlendum skipasmíðastöðvum, einkum vegna togaraflotans. Skipasmíðastöðvar fyrir kaupskipaflotann eru þó alls ónógar, þar sem stærsta stöðin getur ekki tekið stærri skip en 1.000 brúttó-smál. Til að leysa þetta mál til bráðabirgða hafa að ósk Alþingis verið gerðar áætlanir um kostnað við byggingu tveggja þurrkvía í Reykjavík, annarrar 130 m og hinnar 87 m að lengd. Stærri þurrkvíin er ætluð fyrir skip allt að 8.000 tonn dw. Samkvæmt þessum áætlunum er heildarkostnaður áætlaður 4,3 millj. dollara, en af því þyrfti að greiða 1,5 millj. dollara í erlendum gjaldeyri. Undirbúningi er haldið áfram, og líklegt virðist, að byggingarframkvæmdir hefjist á árunum 1949–50. Áætlað er, að bygging þurrkvíanna taki 4 ár, og greiðslur fyrir innflutt efni skiptast þannig eftir löndum og árum (í þús. dollara):

Bandar.

Þáttt.r.

1949–50

300

1950–51

100

300

1951–52

400

1952–53

400

Höfuðþættir íslenzks landbúnaðar eru nautgripa- og sauðfjárrækt. Gras í högum eða verkað, þurrkað eða súrhey, er langþýðingarmesti jarðgróðurinn. Kornvörur eru enn sem komið er ræktaðar svo lítið, að ræktunar þeirra gætir ekki í efnahagsafkomu þjóðarinnar. Ísland er sjálfu sér nóg hvað framleiðslu kjöts og mjólkurafurða snertir, að undanteknu smjöri, en af því eru nú um 400 smálestir fluttar inn á ári hverju. Í áætlunum um landbúnað er gert ráð fyrir aukinni smjörframleiðslu, svo að Ísland þurfi ekki að flytja inn smjör. Þessu marki er vænzt að ná árið 1951—52.

Uppskera kartaflna og grænmetis er ekki nægjanleg í meðalárferði. Því, sem á vantar, að hún verði nægjanleg, mun leitazt við að ná árið 1952. Framleiðsla íslenzks landbúnaðar árið 1952, samanborið við 1948, er áætluð svo:

1948

1952

Mjólk

62.000

tonn

90.000

tonn

Smjör og rjómi

800

1.500

Skyr

3.500

-

5.000

-

Ostur

325

-

500

-

Kjöt (innanlandsneyzla)

9.000

-

9.000

-

Kjöt (til útflutnings)

1.000

-

2.500

-

Mör og tólg

500

-

600

-

Annar innmatur úr sauðfé

650

. —

800

Ull

750

850

-

Gærur og húðir (1400 til útfl.)

1.700

2.000

Kartöflur

10.000

17.000

Grænmeti

1.500

-

. 5.000

Egg

750

1.000

-

Til þess að ofangreind aukning framleiðslunnar geti orðið, mun vera nauðsynlegt að auka á næstu árum hið ræktaða land um 50%. Slík ræktunaráætlun hefur óhjákvæmilega í för með sér áframhaldandi innflutning landbúnaðarvéla og traktora í tiltölulega ríkum mæli. Hin hraða vélaþróun í íslenzkum landbúnaði á síðari árum hefur gert bændum kleift að auka framleiðsluna þrátt fyrir hinn öra flutning fólks frá sveitum til borga og bæja. Þar sem þessum flutningum fólksins heldur áfram, getur hinn fækkandi hópur, sem stundar landbúnað, aðeins fullnægt þeirri framleiðsluáætlun, sem getið var að framan, með aðstoð landbúnaðarvéla og tækja. Innflutningsþarfirnar næstu 4 ár eru áætlaðar þannig (í þús. dollara) :

1949/50

1950/51

1951/52

1952/53

USA

Þáttt.ríkin

USA

Þáttt.ríkin

USA

Þáttt.ríkin

USA

Þáttt.ríkin

Beltistrakt.

100

100

Hjólatrakt.

500

200

500

500

300

500

500

Landbún.v.

800

1100

1100

1800

Auk þess er gert ráð fyrir, að innfluttir verði á næstu fjórum árum um 375 jeppar á ári frá Bandaríkjunum til notkunar við íslenzkan landbúnað.

Talsverður hluti íslenzkrar ullarframleiðslu hefur verið fluttur út. Þetta er nú að breytast, og tvær stærstu ullarvinnsluverksmiðjurnar eru nú að auka framleiðslu sína mjög. Hluti ullarvinnsluvélanna er þegar kominn, en eftirtalinn innflutning þarf til að fullgera fyrirhugaða aukningu (í þús. dollara):

Bandar.

Þáttt.r.

1948–49

90

63

1949–50

20

240

Heildarrafmagnsframleiðsla raforkuvera á Íslandi er um 50.000 kw, en það samsvarar um 370 kw. á mann. Af þessu orkumagni eru um 60% vatnsorka. Raforka var árið 1947 140 millj. kw. hrs. (kílówattsstundir) eða 1.000 kw. hrs á mann. Um 80% þessarar orku fóru til heimilisþarfa, en aðeins um 20% til iðnaðar, aðallega til fiskiðnaðar.

Nú eru 50 rafveitur á Íslandi. Næstum allar þessar rafveitur og öll aðalorkuverin eiga bæjar- og sveitarfélög. Stærstu orkuverin eru við Sog, 17.000 kw. og 7.500 kw eimtúrbínustöð í Reykjavík, sem notuð er sem toppstöð. Reykjavík á bæði þessi orkuver, og þau sjá Reykjavík, nágrenni hennar og nokkrum bæjum og þorpum í suð-vesturhluta landsins fyrir raforku. Þriðja stærsta orkuverið er við Laxá, en það framleiðir 4300 kw. Árið 1946 var samþ. frv. á Alþingi, þar sem gert er ráð fyrir stórkostlegum rafveitum um landið á vegum ríkisins. Enn þá hefur ríkið ekki reist nein orkuver, en nokkrar rafmagnslínur, sem ríkið á, hafa verið lagðar.

Þrátt fyrir hina öru aukningu rafmagnsframleiðslu, sem orðið hefur á síðustu 10 árum, er allt of mikið álag á þau orkuver, sem fyrir hendi eru. Til að bæta úr auknum þörfum hafa verið gerðar áætlanir um nokkrar nýjar framkvæmdir. Þýðingarmest þeirra er aukning vatnsorkuversins við Sog um 32.000 kw og nýtt 8.000 kw orkuver við Laxá. Á næstu 4 árum er gert ráð fyrir aukningu rafmagnsframleiðslu á Íslandi um 57.5 þúsund kw. Heildarkostnaður samkvæmt áætluninni er um 20 millj. dollara, en af því greiðast 8.2 millj. dollara í erlendum gjaldeyri. Greiðslur fyrir efni og vélar eru áætlaðar svo (í þús. dollara)

1948–49

2000

dollarar

1949–50

2500

1950–51

2500

1951–52

800

1952–53

400

Enn þá hefur ekki verið hægt að ákveða, frá hvaða löndum vélar og efni, sem þarf til þessara framkvæmda, verða keypt. Leitazt mun verða við að fá mikinn hluta þeirra frá þátttökuríkjunum.

Auk þess er áætlað, að þurfi 4.3 millj. dollara til að kaupa efni til rafmagnslína í sambandi við fyrrgreindar framkvæmdir, aðallega frá þátttökuríkjunum.

Aukning raforkuveranna hefur afar mikla þýðingu fyrir þróun iðnaðarins á Íslandi. Framkvæmdir eins og áburðarverksmiðja, lýsisherzluverksmiðja og sementsverksmiðja, sem gert er ráð fyrir í 4 ára áætluninni, eru alveg háðar aukinni rafmagnsframleiðslu. Hægt er á ódýran hátt að framleiða þessa orku með því að virkja vatnsafl á Íslandi. Talið er, að hægt sé að fá 2.5 millj. kw orku með virkjun alls vatnsaflsins. Þessi orkulind veitir mikla athafnamöguleika auk þeirra, sem þegar eru taldir. Í því sambandi má minna á framleiðslu aluminium, enda þótt engin áform séu fyrir hendi í þá átt.

Vatnsaflið og hverirnir eru einu orkulindir úr náttúrunnar skauti á Íslandi. Á undanförnum árum hefur Íslendingum tekizt að minnka kolainnflutning um 30% með því að virkja þessar orkulindir. Áform eru á prjónunum um að stækka hitaveitu Reykjavíkur frá því, sem nú er. Sú hitaveita, sem nú er, sér um 75% af íbúum höfuðborgarinnar fyrir miðstöðvarupphitun. Áformað er, að stækkun hitaveitunnar nægi til að fullnægja allri upphitunarþörfinni. Aðrar framkvæmdir á þessu sviði eru í undirbúningi, en nánari áætlanir eru ekki fyrir hendi enn þá.

Vöntun á köfnunarefnisáburði hefur vafalaust verið á undanförnum árum sú ástæðan, sem einna mest hefur dregið úr framleiðslu íslenzkra bænda. Enda þótt eitthvað kunni á næstu árum að rætast úr þeim skorti, sem nú er á tilbúnum áburði í heiminum, hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að byggja áburðarverksmiðju, og liggja til þess eftirfarandi höfuðástæður.

1) Til að spara og afla erlends gjaldeyris. Áætlað er, að innanlandsþarfir nemi allt að 3.500 smál. af köfnunarefnisáburði árið 1952, og gætu því 4.000 smál. komið til útflutnings, miðað við 7.500 smál. verksmiðju.

2) Til að tryggja jarðrækt á Íslandi nægilegt magn af áburði, svo að hún haldi áfram að aukast, og minnka þannig innflutningsþarfir fyrir fóðurkorn, sem greiða verður í dollurum.

3) Til þess að nota afgangsraforku, en af henni mun hægt að fá nægilegt magn árið 1950–51.

4) Til þess að styrkja atvinnu- og efnahagsafkomu Íslendinga með því að auka fjölbreytni í framleiðslu þeirra.

Í þeim áætlunum, sem nú hafa verið gerðar um byggingu áburðarverksmiðju, er gert ráð fyrir 7.500 smál. framleiðslu af köfnunarefnisáburði á ári. Byggingarkostnaður er áætlaður 6,9 millj. dollara, en af þeirri upphæð munu 3,8 millj. dollara þurfa að greiðast í erlendum gjaldeyri. Talið er, að meginhluti véla til verksmiðjunnar muni keyptur frá Bandaríkjunum, enda þótt reynt muni af fremsta megni að fá sem mest af þeim frá þátttökuríkjunum.

Þess er vænzt, að byggingarframkvæmdir hefjist árið 1949 og taki 2–3 ár. Áætlað er, að greiðslur fyrir innfluttar vélar og útbúnað komi á eftirgreind tímabil og skiptist á milli dollaralanda og þátttökuríkja sem hér segir (í þús. dollara):

Bandar.

Þáttt.r.

1949–50

1150

175

1950–51

1100

375

1951–52

1000

Samtals

3250

550

Bygging sementsverksmiðju á Íslandi hefur verið fyrirhuguð um nokkurra ára skeið. Vegna skorts á innlendu byggingarefni eru flest hús á Íslandi byggð úr steinsteypu. Innflutningur Íslendinga á sementi árið 1946 var 73.000 smál. og 64.000 smál. árið 1947, að cif-verði 1.8 millj. dollara hvort ár.

Í marzmánuði 1948 samþykkti Alþingi lög, þar sem ríkisstj. var heimilað að reisa sementsverksmiðju og afla láns til framkvæmda. Sú verksmiðja, sem nú er áformað að reisa, mun framleiða 75.000 smál. á ári, en það er talið nægilegt til að fullnægja þörfum innanlands. Byggingarkostnaður slíkrar verksmiðju er áætlaður um 3 millj. dollara, en af þeirri upphæð þarf að greiða 1.5 millj. dollara í erlendum gjaldeyri. Ætlunin er að byggja sementsverksmiðjuna á árunum 1950–52, en hún mun verða knúin með raforku. Greiðslum fyrir innfluttar vélar og útbúnað mun verða að haga svo (í þús. dollara):

USA

Þáttt.ríkin

1949–50

300

300

1950–51

300

230

1951–52

300

70

Samtals

900

600

Athugað hefur verið, hvort unnt mundi að fá vélar frá þátttökuríkjum, en þær athuganir hafa leitt í ljós, að afgreiðslutími mundi þá verða mun lengri, en ef vélarnar væru keyptar í Bandaríkjunum. Þetta mun þó verða athugað nánar.

Frá styrjaldarbyrjun hafa allar kornvörur til Íslands verið fluttar inn frá Kanada og Bandaríkjunum, aðallega hveitimjöl og malað korn. Til þess að spara dollara hefur verið hafinn undirbúningur að byggingu kornmyllu, sem afkasti árlega 12.000 smál., en afköstin gætu með góðu móti orðið aukin í 20.000 tonn.

Heildarbyggingarkostnaður þessarar myllu er áætlaður um 1 millj. dollara, en af þeirri upphæð þyrftu um 700 þús. dollarar að greiðast í erlendum gjaldeyri. Vélar frá Bandaríkjunum munu væntanlega keyptar fyrir aðeins 50 þús. dollara, en aðrar vélar og byggingarefni mun verða keypt frá þátttökuríkjunum.

Áætlað er, að kornmyllan verði byggð á árunum 1950–52.

Þegar þessar framkvæmdir allar eru dregnar saman, verður heildarkostnaður eins og hér segir:

Það liggur í augum uppi, að þessi fjögurra ára áætlun, eins og hún er fram sett hér og eins og hún hefur verið send efnahagssamvinnustofnuninni í París, er nánast að kalla óskalisti og drög að áætlun, því að á þeim stutta tíma, sem var til ráðstöfunar við samningu hennar, var hvergi nærri hægt að gera tæmandi rannsókn á ýmsum atriðum, sem þó skiptu höfuðmáli.

Að samningu þessarar áætlunar og raunar allra þeirra, er gerðar hafa verið, hafa unnið þeir Þórhallur Ásgeirsson skrifstofustjóri, Davíð Ólafsson fiskimálastjóri, og frá fjárhagsráði þeir dr. Oddur Guðjónsson og Sigtryggur Klemenzson, en þeir hafa svo aftur haft samráð við þá aðila flesta á sviði atvinnulífsins og ríkisstofnanir, sem áætlunin snertir, og fengið upplýsingar frá þeim.

Nokkur atriði, sem í áætluninni eru talin, eru þegar komin til framkvæmda, um önnur hefur verið samið og framkvæmdir ákveðnar, en langflest þeirra eru á undirbúningsstigi og hafa verið það lengi, án þess að lengra yrði komizt af ýmsum ástæðum, gjaldeyrisskorti, féleysi o. fl.

Hér hefur komið upp í hendurnar á okkur, svo að segja, tækifæri, sem er alveg einstakt og kannske eini möguleikinn í fyrirsjáanlegri framtíð til að gera þessar hugmyndir að veruleika.

Ég viðurkenni að vísu, að hér er um stórkostlega fjárfestingu að ræða á okkar mælikvarða, þegar tillit er tekið til þess, að þar fyrir utan kemur svo hin venjulega fjárfesting, húsbyggingar, vegagerðir, brúarbyggingar, hafnargerðir o. s. frv. — og þegar þess er gætt, að framleiðslustarfsemin í landinu má ekki líða við það að missa vinnukraft yfir í þessar fjárfestingarframkvæmdir.

Ríkisstj. hefur þó viljað setja markið þetta hátt og mun leitast við að fella öll þessi atriði inn í áætlanir næstu fjögurra ára, eftir því sem möguleikar frekast leyfa og fé og vinnuafl verður fáanlegt til.

Mér er kunnugt um, bæði frá fundi viðskiptamálaráðherra Norðurlanda, sem haldinn var í Stokkhólmi fyrir rúmum mánuði, og af þeim fjögurra ára áætlunum þátttökuríkjanna, sem hingað hafa borizt, að þátttökuríkin hyggja á miklar fjárfestingar á svipaðan hátt til skjótrar uppbyggingar efnahagsstarfsemi sinnar á þessu tímabili og að allar meiri háttar framkvæmdir hjá þeim eru miðaðar við Marshallaðstoðina.

Það eru nú liðnir 3–4 mánuðir síðan Marshallsamningurinn var undirritaður. Á þessu tímabili hefur komið til framkvæmda:

1. Að Íslendingum hefur verið úthlutað 11 millj. dollara á fyrsta ári, til 30. júní n. k.

2. Lán að upphæð allt að 2,3 millj. dollara hefur verið tekið til að byggja upp síldariðnað við Faxaflóa, kaupa síldarvinnsluskip o. fl.

3. Sala á síldarlýsi og síldarmjöli til Evrópu, að upphæð 1,9 millj. dollara, hefur verið greidd í dollurum af þessu fé og þannig bætt úr yfirvofandi dollaraskorti í sumar.

4. Í gegnum þetta greiðslukerfi verður unnt að selja eftirstöðvar okkar af hraðfrystum fiski fyrir um 3,5 millj. dollara og vinna þannig tvennt í senn, losna við fiskinn fyrir gott verð og afla nauðsynlegra dollara:

Ef þannig verður fram haldið eins og byrjað er, má gera sér miklar vonir um, að þessi samningur hafi ómetanlega þýðingu fyrir Íslendinga næstu 4 ár, og raunar miklu lengur fyrir þau framleiðslutæki, sem við eignumst á þessu tímabili.

Mér þykir rétt að taka fram að lokum, að gefnu tilefni, að fulltrúar Bandaríkjanna, bæði í París og Washington, hafa jafnan haldið því fram, að við ættum fyrst og fremst að einbeita öllum okkar viðskiptum til Evrópulandanna þátttökuríkjanna — á þeirri stefnu byggist öll von um viðreisn þessara landa í efnahagsmálum, frá Ameríku kæmi ekki til greina að kaupa nema þær vörur, sem ekki væri unnt að komast af án með góðu móti og ekki væri hægt að kaupa í Evrópu. Allt tal um kaup á afgangsvörum frá Bandaríkjunum, sem verið sé að neyða upp á þátttökuríkin, er hreinn uppspuni.

Þegar reiknað er með öllum þeim framkv., sem 4 ára áætlunin gerir ráð fyrir, og raunar mörgum fleirum, er áætlað, að Íslendingar muni geta jafnað dollarahallann á árinu 1952–53 og þó búið við allgóð lífskjör. Þessi ályktun byggist á því í fyrsta lagi, að gert er ráð fyrir, að þátttökuríkin muni þá geta látið Íslendingum í té nauðsynjar, sem nú er aðeins hægt að fá frá Bandaríkjunum, og í öðru lagi, að Íslendingar geti aukið útflutning sinn úr 3,4 millj. dollara, sem hann er ætlaður 1948–49, í 6 millj. dollara árið 1952–53, og þá er megintilganginum náð, en hann er sá fyrst og fremst, að ná þessum dollarajöfnuði.