17.12.1948
Neðri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (288)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. það, sem nú liggur fyrir, er mjög umfangsmikið og skiptist að efni til í tvo höfuðþætti. Fyrri þátturinn er um það, að ríkisstj. skuli halda áfram að tryggja og ábyrgjast verð fyrir landbúnaðar- og sjávarafurðir, og síðari hlutinn er um það, hvernig fjár skuli aflað til þess að standa við þær skuldbindingar, sem af því leiðir.

Ég ætla ekki að ræða mikið þær brtt. er fram hafa komið, þar sem flutningsmenn hafa fallizt á, að þær verði ekki teknar til afgreiðslu fyrr en við 3. umr., og þá gefst tækifæri til þess að ræða þær sérstaklega.

Þrátt fyrir það að skoðanir mínar séu áður kunnar hv. þdm., þá ætla ég samt að gera ofur litla grein fyrir þeim í þetta skipti, og það er þá fljótt yfir sögu að fara. — Ég hef alltaf verið á móti ríkisábyrgð afurða, og það byggist á því, að ég er sannfærður um, að ríkisstj. getur ekki staðið undir slíku, þetta þýðir ekki annað en meðgjöf. En frá mínu sjónarmiði er það augljóst mál, að ríkisstj. er ekki fær um að ábyrgjast verðlagið, en ráða engu um framleiðsluna. Á því getur aldrei orðið annar endir en sá, að ríkið hlýtur fyrr eða síðar að taka allan rekstur í sínar hendur. Hér er gengið beint spor að ríkisrekstri framleiðslutækjanna. Þess vegna er mér ekki aðeins ógeðfellt að styðja þessa stefnu, heldur er ég blátt áfram á móti henni. Ég vakti athygli á því strax, um leið og ríkisstj. ákvað á sínum tíma að ábyrgjast landbúnaðinum ákveðið verð fyrir landbúnaðarafurðir, að sú ráðstöfun væri frá mínu sjónarmiði algert glapræði. Því var haldið fram þá,að þetta væri aðeins bráðabirgðaráðstöfun, en það hefur bara endurtekið sig ár frá ári. En það er sýnilegt, að svona getur það ekki verið til frambúðar, og það er jafnsýnilegt, að það er ekki hægt að leysa þessi vandræði til bráðabirgða. Það var hægara að komast í þennan vanda en að sleppa úr honum. Síðan hefur alltaf verið ábyrgð á landbúnaðarafurðum, en í kjölfar þessa kom svo ábyrgð á afurðum sjávarútvegsins, og þá var líka sagt, að hér væri aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða og þetta gæti ekki verið til frambúðar, en vegna þess að útgerðin ætti það á hættu að stöðvast, þá þætti ekki annað ráðlegra en að gripa til þessa sama bragðs — en aðeins til bráðabirgða. Því er haldið fram, að útgerðin muni stöðvast, ef ríkið hlaupi ekki undir bagga. En ég vil spyrja hv. þdm., hvaða líkur séu fyrir því, að þetta verði á annan veg næsta ár. Það er hægt að segja, að það leiði til óútreiknanlegra vandræða fyrir land og þjóð, ef útgerðin stöðvast, það er mér ljóst sem öllum öðrum, en ef ríkisstj. er ekki fær um að standa undir þeim afleiðingum, sem leiðir af því, að hún tekur að sér að ábyrgjast lágmarksverð sjávarafurða, þá hlýtur að koma að því, að stöðvun á sér stað. Við skulum segja, að ríkið hafi verið fært um að standa við skuldbindingar sínar s.l. ár, hafi klórað sig fram úr því núna, en liggur þá ekki við stöðvun næsta ár? Ef menn þora að horfast í augu við þá staðreynd, þá er það, sem mest hefur komið útgerðinni niður í djúpið, í fyrsta lagi aflatregðan og í öðru lagi geysilegur tilkostnaður og ekkert annað. Ég veit, að við mikla örðugleika er að etja, en það kemur að því, að lífið sker úr því, að þetta er hlutur, sem ekki er hægt að komast undan, ekki lengi. Ég hef haft tækifæri til þess að athuga kostnaðarliði, sem leggjast á útgerðina, og þeir hafa þyngzt stórkostlega. En þessa kostnaðarliði verður að berja niður. Ég veit, að það verður ekki sársaukalaust, einhver verður að missa spón úr sínum aski. En þetta er eina leiðin, að útgerðin borgi ekki hærri útgjöld, en hún aflar fyrir á venjulegum tímum. Meðan ríkið heldur áfram að ábyrgjast það, sem á vantar, þá dregur enginn úr sínum kröfum. Ég man eftir því, er ég sá fyrst og kynntist aðgerð skipa. Þá var engin ríkisábyrgð til. Þá sóttist iðnaðurinn eftir skipunum. Svo snerist þetta við. Skipaeigendur urðu nú að fara biðjandi til verkstæðanna og oft að fara bónleiðis til búðar, en að öðrum kosti greiða mjög hátt fyrir viðgerðina. Nú vil ég segja það, að ég þykist vita, að þetta mál verði afgreitt hér, með því að það þykir ekki vera hægt að komast undan þessari ábyrgð nú, og enn fremur að þetta sé einungis bráðabirgðaráðstöfun. En ég geri ráð fyrir því, að þó að ég sé stuðningsmaður ríkisstj. og hafi stutt hana að málum, þá geri hún ekki þær kröfur, að ég framselji sannfæringu mína, en þrátt fyrir það mun ég verða stuðningsmáður hennar meðan happavænlegt er fyrir ríkið.

Þá kem ég að öðrum kaflanum, um það, hvernig ríkisstj. ætlar að afla tekna til þess að standa undir þeim skuldbindingum, sem af þessari ráðstöfun leiðir. Hingað til hefur það verið gert með almennum tekjum ríkissjóðs, en nú er það ekki lengur hægt. Það sýnir það, að ekki verður við það unað. En þá koma til tvær leiðir. Önnur leiðin er sú að leggja nú enn á nýjar álögur til þess að standast þennan kostnað, sem áætlaður er í þessu frv., um 70 millj. kr., þ.e.a.s. nýjar álögur að því leyti, sem núverandi tekjustofnar ríkisins ekki teljast færir um að standa undir. Hin leiðin er sú að láta ríkissjóð standa undir þessu með þeim almennu tekjum, sem hann hefur nú, en fella niður önnur útgjöld sem því svarar, en það þýðir niðurskurð á útgjöldum fjárlaganna til annarra framkvæmda. Nú ber mér þarna einnig á máli við hæstv. ríkisstj. og þá að sjálfsögðu við meiri hl. Alþ. En ég hef hvað eftir annað fengið tækifæri til að láta opinberlega í ljós, að ég teldi álögur á landsfólkið vera orðnar miklu hærri en skynsamlegt geti talizt, enda þótt tollar og skattar hafi innheimzt nokkurn veginn hingað til.

Mér er það ljóst, að það er ekki hægt að fella niður svo að segja neitt af útgjöldum ríkissjóðs, þeim sem verið hafa á fjárlögum og eru nú í því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir Alþ., nema því fylgi allmikill sársauki. Flest af því eru æskilegir og margt af því nauðsynlegir hlutir. Ég held, að Íslendingar séu of fljótir að gleyma því, að þjóðin hefur allt frá landnámstíð þurft að draga fram lífið með því að neita sér um æskilega hluti, og það hefur vist aldrei komið fyrir þessa þjóð, að hún hafi getað veitt sér allt, sem henni hefur þótt æskilegt. Þar af leiðandi virðist svo sem þjóðin nú þurfi ekki að kippa sér svo mikið upp við það, þótt hún enn verði að neita sér um einhverja æskilega hluti, ef hægt er með því að bjarga því, sem nauðsynlegast er að bjarga, atvinnurekstrinum í landinu. Slíkir hlutir geta verið æskilegir frá menningarlegu sjónarmiði og fleiri sjónarmiðum, og get ég nefnt í því sambandi þau mörgu stórhýsi, sem við höfum verið að byggja, sem flest eru til menningarauka, þ. á m. skólar. En ég get ekki séð betur, en að við getum alveg eins vel kennt börnum og unglingum í sömu húsakynnum næsta ár eins og þetta ár, og þannig er hægt að nefna margt fleira, sem við getum neitað okkur um í bili, ef við viljum gera það og ef við viðurkennum, að við höfum ekki efni á að láta allt eftir okkur, sem okkur finnst æskilegt. Ég mundi þess vegna miklu heldur hafa óskað eftir því, að Alþ. gengi inn á þá braut að skera niður útgjöld á fjárl., heldur en leggja nýjar álögur á þjóðina. Ég velt, að það er ákaflega óvinsælt að fella það niður af fjárl., sem áður hefur verið á fjárl., af því að flest af því — ef ekki allt — er veitt eftir óskum eða kröfum fólksins, og óttinn við að styggja fólkið hefur náttúrlega afar mikið að segja. Menn halda kannske, að fólkið styggist ekki eins við það, þótt lagðar séu á nýjar álögur, eins og ef því er neitað um alls konar styrki og fríðindi, sem verið hafa og eru á fjárl. Vegna hinnar hörðu flokkabaráttu þingsins má segja, að ein hætta sé fyrir flokk að koma fram með skynsamlegar till., sem koma illa við fólkið, því að þá reyni ef til vill einn flokkur að sæta lagi og reyna að fá fólkið til þess að trúa því, að einmitt sá flokkur, sem vill eitthvað spara, sé því fjandsamlegur. En fari svo, að ríkissjóður komist í greiðsluvandræði eða greiðsluþrot, þá verður ekki notuð þessi leið, sem hér á að fara, heldur sú að skera niður fjárveitingar, sem sumar eru æskilegar og sumar afar þarflegar.

Ég tók fram í upphafi, að ég ætlaði ekki að fara í gegnum einstök atriði í þessu frv. Ég mun að sjálfsögðu, þótt ég sé ekki samþykkur hæstv. ríkisstj., hvorki um það, sem í fyrri hluta frv. felst, þ.e. að taka á sig þær miklu ábyrgðir, né heldur um hitt, sem í síðari hlutanum er, hvernig afla skuli fjár til þess að standa við þær skuldbindingar, fylgja og greiða atkv. með þeim brtt., sem koma fram við einstakar gr. þess, ef telja má þær til bóta, því að sjálfsagt tel ég það snerta mig eins og alla hv. þm., að frv. verði sem bezt úr garði gert.En ef nú þetta illa á að ske, að tekin sé sú mér svo mjög óviðfelldna stefna, sem felst bæði í fyrri og síðari hluta þessa frv. og ég nokkuð hef lýst, þá held ég, að ég mundi fella mig bezt við að frv. yrði sem allra mest óbreytt. Eins og ég tók fram áðan, tel ég ekki tímabært að fara að ræða um þær brtt., sem fram hafa komið, af því að þær hafa verið teknar aftur til 3. umr.