20.10.1948
Sameinað þing: 5. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (2882)

Marshallaðstoðin

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. ríkisstj. þóttist boða þjóðinni mikil gleðitíðindi í skýrslu þeirri er hún flutti í gær um svokallaða efnahagssamvinnu Evrópuþjóðanna, hún hefði með samningum við Bandaríki Norður-Ameríku tryggt afkomu Íslendinga, skapað þeim möguleika til að selja afurðir sínar, afla stórfjár til áframhaldandi nýsköpunar í atvinnulífi þjóðarinnar, og enn fremur hefði hún gert fjögurra ára áætlun um þá nýsköpun í samræmi við hina nýju möguleika til fjáröflunar — áætlun, sem í öðru orðinu var þó nefnd hinu hógværa nafni: óskalisti —, og ætti þannig allur grundvöllurinn að vera úr sögunni fyrir bölsýnissóninum, sem lengst hefur kveðið við og hæst hjá Framsfl.

Ég mun nú taka ofur lítið fyrir þrjú aðalatriði í þeim boðskap — þeirri skýrslu, sem ríkisstj. flutti hér á Alþ. í gær, og veita ef til vill nokkrar upplýsingar til viðbótar um atriði, sem stj. lét hjá líða að minnast á. Er þá fyrst að víkja að hinni svokölluðu efnahagssamvinnu Evrópuþjóðanna.

Hæstv. utanrrh. lýsti yfir því, að ekki þyrfti nú framar að kvíða neinu um afkomu Íslendinga, verzlun okkar væri svo háttað, að einungis 15% hennar væru við lönd „austan járntjaldsins“, en 85% við þau lönd, sem þátt tækju í þessari efnahagssamvinnu; það hefði verið svo, og á ræðu hans skildist, að þannig hlyti það að verða framvegis; með aðild okkar að efnahagssamvinnunni væri afkoman tryggð og öryggi skapað í afurðasölumálunum. Lega landsins, sagði hann, væri slík, að viðskiptalega heyrðum við vestrinu til, afkoma okkar væri því trygg, ef við tækjum ekki upp á því að færa landið til í Atlantshafinu. Mér virtist eins og hann gengi út frá því sem gefnu, að ný og fullkomin skip okkar væru ófær um að sigla nokkuð lengra, en rétt til næstu strandanna, þó að við sigldum til dæmis með fiskinn til Grikkland fyrir stríð; þó að forfeður okkar færu á sínum smáu skipum til Kænugarðs, þá þyrftum við ekki að hafa fyrir því nú, allt væri tryggt með efnahagssamvinnunni — lega landsins skipaði okkur í vestur og ekkert meira um það.

Þetta er þá hið fyrsta, sem rannsaka þarf. Er þetta öruggt, að þótt við höfum selt 85% framleiðslu okkar til þessara landa, þá muni svo verða hér eftir sem hingað til?

Ég hefði gengið út frá því, að ávinningur okkar Íslendinga við aðild að þessari efnahagssamvinnu hlyti fyrst og fremst að verða sá, að okkur væru tryggðir markaðir í Evrópu áfram. Ég hef lagt það svo niður fyrir mér, að okkur Íslendingum væri lífsnauðsyn að afla okkur markaða alls staðar þar, sem hægt væri að selja afurðir okkar, og án tillits til þess, hvaða stjórnarfar ríkti í viðkomandi löndum; við þetta þyrftum við að miða allar okkar áætlanir, rannsaka, hvar slíkra viðskiptasambanda væri helzt að leita, og selja til þeirra landa, sem vildu kaupa.

Nú er það svo, að þau lönd, sem fyrst og fremst taka þátt í þessari efnahagssamvinnu, hafa verið og eru — eins og t. d. England, Noregur, Holland og Frakkland — miklar fiskveiðiþjóðir, sem hafa jafnvel sótt alla leið hingað á Íslandsmið. Það er því augljóst, að ef hæstv. ríkisstj. ætlaði að tryggja afkomuöryggi Íslendinga með efnahagssamvinnu víð þessi lönd, þá hlaut hún að leggja á það höfuðáherzlu, að Íslendingum væri tryggt, að þeir fengju að beita sér að fiskveiðum, þar sem það er sá atvinnuvegur, sem afkoma þeirra hvílir á, og að þeim væru tryggðir markaðir í þessum löndum.

Hefur hæstv. ríkisstj. þá gert þetta? Hefur hún reynt að leggja þennan grundvöll, sem afkomuöryggi okkar í slíkri efnahagssamvinnu hlýtur fyrst og fremst að hvíla á? Hæstv. ríkisstj. láðist í gær að skýra frá nokkrum afrekum af sinni hendi í þá átt. Henni láðist að skýra Alþ. frá þeim skýrslum, sem liggja fyrir efnahagsnefnd samvinnustofnunar hinna 16 Evrópuþjóða, og árangrinum af samningum um að breyta svo til, að Ísland fái trygga markaði í þessum löndum. — Það er nauðsynlegt, að allar þær skýrslur komi fram, en til bráðabyrgða skal ég bæta svolítið úr því, sem hæstv. ráðherrum láðist í gær, og lofa hv. þm. að heyra, hvernig útlitið er með afurðasöluna samkvæmt áliti efnahagssamvinnustofnunar Evrópuþjóðanna.

Ég hef hér skýrslu frá hæstv. ríkisstj., sem gefin er út af The Committee of European Economic Cooperation, eða þeirri nefnd, sem annast efnahagssamvinnu Norðurálfuríkjanna. Skýrslan er frá 1947, og er þar fjallað um ýmsa þætti framleiðslunnar í þessum löndum, svo sem landbúnað, fiskveiðar o. s. frv. og ástand og horfur í þeim efnum. Um fisksölumál er fjallað í 35. gr. á bls. 19, og skal ég lesa það fyrst á enskunni, svo að ekki fari milli mála. Þar segir svo:

„The quantities available for export will increase in 1950–51 by 600,000 tons or 55 per cent. over the 1934–38 average. Stated import requlrements in 1950–51 in participating countries amount to about 750,000 tons (or little above the pre-war average), leaving nearly 1,200,000 tons over the stated needs of participating countries.“

Þetta þýðir nokkurn veginn, að það magn, sem til er til útflutnings, mun vaxa 1950–51 um 600 þús. tonn, eða um 45% fram yfir meðaltalið 1934–38. Innflutningsþörfin í þátttökuríkjunum 1950–51 er talin 750 þús. tonn (eða nokkru hærra en meðaltalið fyrir stríð), svo að þannig verður 1 millj. og 200 þús. tonn umfram það, sem þátttökuríkin telja sig þurfa. — Í næstu grein er sagt, að sum löndin eigi þegar við mikla útflutningsörðugleika að stríða, m. a. vegna markaðserfiðleika í Vestur-Þýzkalandi, og samkv. skýrslunni nemur framleiðslan sem sagt umfram þörf 1 millj. og 200 þús. tonnum. Niðurstaðan er því sú, hvað fiskinn snertir, að það er yfirvofandi kreppa nú þegar, og lagzt hefur verið undir höfuð að skipa málum svo, að þær þjóðir — eins og við Íslendingar, sem mest eiga undir fiskframleiðslu sinni, fengju að stunda hana, en hinar þjóðirnar einbeittu sér að öðru, en aðeins með því móti hefði útflutningur okkar verið tryggður.

Hefur annars hæstv. ríkisstj. snúið sér að því að fá þessu framgengt? Frá henni hefur ekki heyrzt eitt orð um það — hún steinþegir og vanrækir það verkefni, sem fyrst og fremst lá fyrir henni. Mér finnst það slæm frammistaða hjá hæstv. ráðh. er þeir leggja skýrslu sína fram og lofa þjóðinni afkomuöryggi með fögrum orðum, en ganga algerlega fram hjá þeim vandamálum, sem eru grundvallareðlis, þegar um afkomuöryggi okkar er að tefla.

Hafa þá þessar þjóðir sýnt þá tilhliðrunarsemi og það bróðurþel gagnvart minnstu þjóðinni, að þær dragi úr sínum fiskveiðum, svo að aðalatvinnuvegi okkar sé ekki stefnt í voða? Því fer fjarri. Það er þvert á móti vitað mál, að þær búa sig undir að auka fiskframleiðslu sína sem mest. Það er fróðlegt að athuga, hvað Fiskeribladet norska hefur t.d. að segja um þessi mál. Í blaðinu frá 9. sept. 1948 er grein, sem hefur fyrirsögnina: „Tyskerne vil fordoble sine Fiskerier neste ár.“ Segir þar m. a. svo: „Aftenpostens korrespondent í London telegraferer: En sak af stor betydning for Norge kommer opp når den ekonomiske politikk í Vest-Tyskland skal behandles í Underhuset í neste sesjon. En sterk fraksjon av Labour-Partiet vil kreve at den politikk, som nár ut på á rive ned fabrikker í Tyskland og forby tyskerne å. fabrikere en rekke produkter í konkurranse med vestmakterne, blir opgitt. — - Når det gjelder fiskeriene, gjer den opfatning seg gjeldende, at Tyskland må fá full frihet og likestilling med andre Nordsjö-land. Man fár et tydelig vink om dette hvor det pé redaksjonell plass framholdes at det er meningslest á tvinge tyskerne til å importere fisk og sild fra Norge og Island, mens tyske fiskefartejer ligger uvirksomme í de tyske nordsjehavnene, og tyske sjefolk og fiskere forgjeves seker etter arbeid. ——– Etter de undersekelser som bladets korrespondent har foretatt, er det grund til tro at en utvidelse av de tyske havfiskerier meget snart vil komme opp til overveielse. — Amerikanerne har fra begyndelsen vært í mot forbud av noen art. — Som felge av Marshall-hjelpen er det imidlertid å vente at den amerikanske innflytelse på den ekonomiske utvikling í Vest-Europa, særlig í Tyskland, snarere vil oke enn avta.“

Ég þarf ekki að þýða þetta. Allir munu skilja, hver er mergur málsins, sá að í London séu mjög sterk öfl í verkamannaflokknum, sem standi með Bandaríkjamönnum að því, að unnið verði að eflingu þýzka fiskveiðiflotans, það séu hagsmunir Bandaríkjanna, og áhrifa þeirra í því efni muni gæta enn meir vegna Marshallaðstoðarinnar.

Í öðru blaði hins sama dagblaðs, frá 2. sept. 1948, er sagt frá því, að samvinna sé hafin milli Englendinga og Þjóðverja um fiskveiðar — á þessa lund: „Etter hva Fiskeribladet erfarer, har flere britiske trålerredere í den senere tid leiet båtene sine ut til tyske rederier. Båtene blir drevet med tysk mannskap, og fisken gár til tysk konsum. — - Vi må í Norge være klar over at tyskerne, etter opmuntring fra vestmakterne, kommer til á gjenreise fiskerflaten pá langt kortere tid enn vi har regnet med.“

Það sést glöggt af þessu, að Norðmenn óttast, að verið sé að kippa grundvellinum undan fiskverzlun Noregs og Bretar og Bandaríkjamenn hafa samvinnu um að auka fiskframleiðslu Þjóðverja, og þeir búa sig undir af fullum krafti að auka flotann. Og ef það væri reynt af ráðherrunum að segja sannleikann í stað gyllinganna, þá mundi koma í ljós, að þarna er ekki um samvinnu að tala, heldur vægðarlausa samkeppni, þar sem hinir stóru munu knosa þá smáu. — Það er leitt að hæstv. ráðh. skuli láta undir höfuð leggjast að skýra frá þessum hlutum og segja þjóð sinni sannleikann um þá. — E. t. v. afsakar ríkisstj. sig með því, að henni hafi verið ókunnugt um þetta. En það er sjálfsagt ekki rétt, því að t. d. hefur birzt í sjálfu málgagni forsætisráðherrans í byrjun febr. s. l. skýrsla, sem ljóst er af, hvað okkar muni bíða. Skýrslan er samin af sérfræðingum Marshalláætlunarinnar; fjallar hún um framtíð Íslands og atvinnuhorfur, og sjálft kemst Alþýðublaðið svo að orði í grein um hana 16. janúar: „Í kaflanum um Ísland í skýrslunni segir, að búizt sé við, að um 1950 verði framboð á fiski orðið meira en eftirspurnin, og gerir því skýrslan ekki ráð fyrir að framlag Íslands hafi mikla þýðingu eftir þann tíma.“ M. ö. o. — við Íslendingar gátum fengið að framleiða fisk handa Þjóðverjum meðan þeir syltu og meðan þeir væru að koma sér upp flota, en þegar því væri lokið, þá væri ekki meira við framlag Íslendinga að gera — eða eins og þarna stendur eftir 1950. Þetta er það, sem stj. hefði mátt vita, að beið okkar. Það er hægt að nota okkur fyrstu árin, meðan matvælaskorturinn er sem mestur, síðan er hægt að sparka í okkur. „Der Mohr hat seine Dienst getan, der Mohr kan gehen.“ Þrællinn hefur gert skyldu sína og getur farið. En þessi hlið málsins er ekki rædd. Hæstv. ríkisstj. lýsir yfir afkomuöryggi 1952, og þótt svo kunni að fara, að þá verði allt sokkið, gerir það ekkert til! Það er eins og það eina, sem víð þurfum, séu dollarar, um annað er ekki rætt. Hæstv. ríkisstj. hét okkur afkomuöryggi, en henni láðist að ræða nánar grundvöllinn fyrir því. Henni láðist að geta um þá markaði, sem hún hefði tryggt okkur, enda hefur henni ekkert orðið ágengt í þeim efnum, en áætlunin liggur fyrir.

Allar fiskveiðiþjóðir hugsa um að auka fiskframleiðslu sína, og það veit hver maður, að þær þjóðir, sem búa austan við hið margumtalaða járntjald, hafa engan frið fyrir fiskveiðiþjóðum Evrópu, svo áfjáðar eru þær að selja þeim fisk. Norðmenn, Englendingar, Hollendingar, Danir og Svíar eru að gera samninga við þessar þjóðir, þar sem áherzla er lögð á fisk. Án efa er Ísland látið út undan, það er þessum þjóðum í hag, að Ísland sofi. Alþingi er ekki látið vita um þetta, og því er leynt fyrir þjóðinni. En það er of seint að uppgötva það 1951, að við höfum vanrækt að gera það, sem okkur bar að gera. Þrátt fyrir samvinnu þjóðanna á Parísarfundinum skulum við ekki vera þau börn að halda, að stórþjóðirnar hugsi ekki um sinn hag eða láti hið svo kallaða járntjald hindra sig frá samningum. Forustumenn þessara þjóða í fjármálum og viðskiptamálum eru það vel að sér, að þeir vita, að þar eru öruggir markaðir. Það er leitt að vita, að hæstv. ríkisstj. skuli í stað góðrar, raunverulegrar áætlunar hafa hægt og bitandi undirbúið gjaldþrot á sviði verzlunarmálanna 1952. Þá mun verða lítið eftir af áætlun hæstv. ríkisstj. og koma í ljós, að við höfum látið þessar þjóðir plata okkur. Þegar við þá stöndum uppi markaðslausir, stoðar það lítið, þótt hæstv. ráðh. komi og segi: Við héldum, að þær væru heiðarlegar og hægt að taka mark á þeim. Það er lítil huggun. Það, sem þarf að gera nú, er að afla markaða, og það gerir stj. ekki. Þvert á móti hefur hún verið að eyðileggja þá markaði, sem nýsköpunarstj. vann. Árin 1946 og 1947 voru gerðir samningar við Sovétríkin og Tékkóslóvakíu, sem voru það stórir, að ætla mátti, að þangað væri hægt að selja 1/3 eða allt upp í 40% af framleiðslunni. Möguleikarnir voru fyrir hendi, en hæstv. ríkisstj. hefur í blindni, svo að ekki sé meira sagt, eyðilagt þessa byrjun. Samningar hæstv. ríkisstj. hafa ekki flutt neitt afkomuöryggi, og stj. hefur ekki getað sýnt fram á það. Verzlunarpólitík hæstv. ríkisstj. er órjúfanlega tengd Bandaríkjunum og leiðir til þess, að við eyðileggjum áframhald nýsköpunarinnar. Þetta vildi ég hafa sagt viðvíkjandi þeim þætti, sem hæstv. utanrrh. ræddi fyrst.

Þá skal ég taka fyrir Marshallsamninginn eða samning hæstv. ríkisstj. við Bandaríkin, sem sérstaklega er gerður að umræðuefni hér. Ég geri þó ráð fyrir því, að hann komi hér til umr. síðar og að um hann verði þá rækilegri umr.

Það er þá fyrst til að taka, að það er skrýtið, hvernig ákvörðunin um þennan samning var tekin. Við vorum komnir saman hér á Alþingi í marzlok 1947, og lögð var á það áherzla að flýta þinginu. Rétt á eftir, eða 3. apríl, samþ. þing Bandaríkjanna l. um aðstoðina, og virðist íslenzka stj. þá hafa verið búin að ákveða að semja, en viljað senda þingið heim áður. Þann 8. apríl heldur hæstv. utanrrh. ræðu á fundi í Varðarfélaginu um Marshallaðstoðina, og sama kvöld halda hæstv. menntmrh. og Hermann Jónasson ræður um aðstoðina á fundi í félagi framsóknarmanna í Reykjavík. Í Tímanum er því lýst yfir, að ákveðið hafi verið að gera Marshallsamninginn, og því er enn fremur lýst yfir, að ekkert sé við hann að athuga. Þann 3. apríl eru l. samþ. af þingi Bandaríkjanna, og þar sem sendiherra okkar í Bandaríkjunum fer aldrei hænufet þaðan, nema þá eins og nú til að sitja fund sameinuðu þjóðanna í París, þá skyldi maður ætla, að hann hefði þegar í stað símað hæstv. ríkisstj. um innihald l. Til einhvers höfum við utanríkisþjónustuna. En 8. apríl, er hæstv. utanrrh. talar í Reykjavík, veit hann ekki, hvernig l. eru, og segir því ekki frá hlutum, sem eru aðalatriðið og hann fyrst síðar rekur sig á. Þegar áður nefndar ræður voru haldnar, höfðu þeir haft fyrir sér eitthvað frv., en ekki kynnt sér l. Þeir vissu ekki um ákvæði laganna um fjárfestinguna, um jafnrétti Bandaríkjanna til fjárfestingar. Ef utanríkisþjónustan væri í lagi, hefði þetta strax verið símað heim, og hæstv. ríkisstj. hefði getað kynnt sér málavexti. Í stað þess er hlaupið í flokksfélögin og sagt, að sjálfsagt sé að gera samninginn, áður en vitað er um innihald hans. Svo upplýsir Þjóðviljinn þetta atriði, og þá áttar hæstv. ríkisstj. sig. Þetta er sláandi dæmi um það, hvernig milliríkjasamningar eru gerðir, án þess að vitað sé, um hvað er verið að semja. Slíkt er auðvitað óþolandi og bendir til þess, að hæstv. ríkisstj. sé ekki sjálfri sér ráðandi. Þetta vildi ég segja um undirbúning málsins.

Þá er meðferðin á sjálfri samningagerðinni lagabrot. Málið hefði átt að leggja fyrir utanrmn: og ræðast þar, ekki bara „principielt“, heldur nákvæmlega lið fyrir lið, svo að nm. gætu rannsakað það, án tillits til fyrir fram skoðana.

Samningurinn er einnig brot á stjskr., þar sem hann leggur kvaðir á land og þjóð, án þess að samþykki Alþingis væri fengið. Stjórnarfarsleg meðferð málsins, að gera samninginn án þess að kalla Alþingi saman, stríðir einnig á móti anda laganna. enda hefur engin önnur Norðurálfuþjóð farið svo að, svo að mér sé kunnugt. Það er ekki nægilegt, að hæstv. ríkisstj. láti sína þm. vita um málið og fylgjast með því. Það er ekki gefið, að hæstv. ríkisstj. láti þm. vita um allt, sem komið getur fram á Alþingi, og þó að hæstv. ráðh. séu gáfaðir og fróðir, vita þeir ekki allt. Út frá sjónarmiði lítillar þjóðar er það óhyggilegt að ganga að samningum eins og þessum með slíku offorsi.

Ég skal nú fara nokkrum orðum um samninginn sjálfan. Með ákvæðunum í II. kafla, 1. gr. c-lið, er verið að skuldbinda Íslendinga til að taka tillit til annarrar þjóðar við samningu fjárlaganna, en um fjárlögin á Alþingi eitt að fjalla. Með þessum ákvæðum fá Bandaríkin áhrif á fjárlög og gengi á Íslandi, svo að maður nú ekki tali um þá praktísku aðstöðu, sem Bandaríkin hafa til að hafa áhrif á gengið með svörtum markaði á Keflavíkurflugvelli undir umsjón hæstv. ríkisstj. Þessi ákvæði eru stórhættuleg.

Þá eru það ákvæðin varðandi rannsókn á auðlindum landsins. Auðhringar Bandaríkjanna eru nú alls staðar í veröldinni að reyna að ná undir sig náttúruauðæfum og orkulindum. Hér eru gífurlegar orkulindir ónotaðar og því fyllsta ástæða til að vera hræddur við slík ákvæði.

Bandaríkjunum er einnig veittur réttur til þess að hafa hér eftirlitsnefnd til þess að hafa eftirlit með efnahag okkar. Enn hefur að vísu engin nefnd verið send hingað, heldur annast sendiráðið þetta, en ýmsar stofnanir verða nú fyrir daglegum heimsóknum, skýrslur eru heimtaðar og hnýstst í allt. Þannig er verið að leggja fjármál Íslands fyrir auðmenn Ameríku eins og opna bók. Við erum skyldugir að gefa upplýsingar, og þessar upplýsingar fara síðan til hringanna og gefa þeim aðstöðu til þess að grípa inn í, þar sem þeir óska.

Þá er með 10. gr. verið að taka dómsvaldið úr höndum Íslendinga, þar sem gert er ráð fyrir, að málum, sem upp kunna að koma, verði áfrýjað til alþjóðadómstólsins. Með þessu er réttaröryggi íslenzkra borgara rýrt og verið að selja þá undir erlent dómsvald.

Eins og ég sagði áður, geri ég ráð fyrir því, að tækifæri gefist til að ræða þetta mál rækilegar síðar, en ég vil þó enn taka fyrir tvö þrjú þýðingarmestu atriðin.

Á síðasta Alþingi var samþ. heimild fyrir ríkisstj. til að taka 2 millj. kr. lán. Þegar þessi l. voru fyrst til umr. í Ed., gerði fulltrúi sósíalista í fjhn., hv. 4. landsk., fyrirspurn um það, hvort lánsheimildin mundi aðeins gilda fyrir lán með venjulegum skilyrðum um vexti og afborganir, og hæstv. fjmrh. lýsti því þá yfir, að hann líti svo á. Þegar málið var til meðferðar í fjhn. var um það rætt, hvort ekki væri rétt að bóka þetta, en form. n., hv. þm. Str., lýsti því yfir, að það væri óþarfi, l. heimiluðu aðeins venjulegar lántökur. Nú er hv. þm. Str. fjarverandi, hann er í París á fundi Sameinuðu þjóðanna, en þetta var endurtekið af hæstv. fjmrh. við 2. umr. í Ed.

Þegar málið kom til Nd., kom ég með sömu fyrirspurn og hv. 4. landsk. hafði komið fram með í Ed. og fékk þann skilning staðfestan, að heimildin gilti aðeins um venjulegt lán. Í fjhn. var þetta bókað, og í nál. fjhn. á þskj. 643 segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndin leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Einar Olgeirsson tekur fram, að hann fylgi frv., þar sem fjmrh. hafi lýst því yfir, að samkvæmt því, ef að lögum verði, sé einvörðungu hægt að taka lán með venjulegum skilyrðum um vexti og afborganir, en eigi annars háttar skilyrðum.“ Við 2. umr. í Nd. lýsti hæstv. fjmrh. því enn yfir, að ekki kæmi til mála annað en venjulegt form, og form. fjhn. Nd., hv. þm. V-Ísf., hann er líka fjarverandi, hafði sömu skoðun á málinu og hv. þm. Str. Það liggur því beint fyrir, og er samþ. bókun fjhn. Nd., að samkv. þessari lánsheimild var ekki hægt að taka lán nema með venjulegum skilyrðum.

En hvað skeður svo? Hvað gerði hæstv. ríkisstj. til þess að ná í lán? Þegar málið kom fyrir utanrmn., spurðist ég fyrir um það, hvað hæstv. ríkisstj. hefði gert í málinu, og fékk þau svör, að ekki hefði getað orðið samkomulag um lán með venjulegum skilyrðum. Ég veit nú ekki, hvað fast það hefur verið sótt af hálfu hæstv. ríkisstj., það hef ég ekki haft tækifæri til að ganga úr skugga um. Hitt veit ég, að amerískir fésýslumenn hafa boðið hingað lánsfé með venjulegum skilyrðum. Þeir hafa t. d. boðið Ísafjarðarkaupstað lán, sem skiptir nokkrum milljónum. Það er því hægt að fá venjulegt lánsfé.

Á fundi utanrmn. spurðist ég fyrir um það, hvort reynt hefði verið að fá lán hjá alþjóðabankanum og gjaldeyrissjóðnum, en Íslendingar eiga þar 2 millj. dollara í hlutafé og því ekki ómögulegt, að hægt væri að fá lán þar. Fulltrúi okkar fyrir þessar stofnanir er hv. þm. V-Ísf., hann varð að ganga af fundi, og ég fékk aldrei upplýsingar um, hvað reynt hefði verið í þessum efnum. Síðar sá ég í blöðunum, að Tékkóslóvakía hafði fengið 12 millj. kr. lán hjá alþjóðabankanum. Þar sem bankinn er undir amerískum áhrifum, hefði það ekki átt að vera erfiðara fyrir Ísland að fá þar lán. Mér er nær að halda, að litlar tilraunir hafi verið gerðar til þess að fá lán hjá þessari stofnun. Hæstv. ríkisstj. getur upplýst, hvaða tilraunir hafa verið gerðar í þá átt. Ég spurði, hvort tilraun hefði verið gerð um að fá lán á þessum grundvelli, því að vissulega var þar um gjaldeyri að ræða, sem að minnsta kosti er jafndýrmætur dollurum, en ég fékk ekki neinar upplýsingar um það. Ég er ákaflega hræddur um, að hæstv. ríkisstj. hafi fyrst og fremst viljað taka þetta lán samkv. Marshallsamningnum. Ríkisstj. hefur í raun og veru látið undir höfuð leggjast að reyna að fá lán með eðlilegum hætti fyrir Íslendinga. Stefna ríkisstj. er ákaflega undarleg, bæði hvað snertir að ganga inn á þessa samninga um okkar afurðir og einnig að ganga inn á 3% vexti af láninu. Mér kom það ákaflega undarlega fyrir, þegar tilkynnt var, að búið væri að ákveða þessi 3% og ganga þannig að utanríkisviðskiptum á grundvelli Marshallsamningsins. Öllum, sem eitthvað fylgjast með fjármálum eftir stríð, er kunnugt um, að það stóð upp undir hellt ár, þegar Englendingar og Bandaríkjamenn sömdu um milljarðalánið, að komast að samkomulagi um, hvað vextirnir ættu að vera háir. Englendingum þótti hart að gengið að þurfa að greiða 23/8 %, eins og Bandaríkjamenn fóru fram á, að þeir greiddu, þeir vildu komast að samkomulagi um 2%. En nú, þegar Bandaríkin setja fram sínar kröfur við íslenzku ríkisstj., er ekki verið að hika, það er undir eins gengið að því að taka lán með 3% vöxtum. Mér þótti þetta undarleg ráðstöfun hjá hæstv. ríkisstj., því að ég trúði því varla, að aðrar þjóðir, sem taka slík lán, mundu svo fljótt ganga inn á slíkar kröfur Bandaríkjanna. Skýringin kom líka fljótt. Íslendingar eru fyrsta þjóðin, sem tekur slíkt lán, og þeir eru látnir skrifa undir samninginn um lán með 3% vöxtum. Ísland, landið, sem sízt þurfti að taka lán, gengur þarna á undan. Það þurfti sízt allra þjóða að sækja nokkra hjálp til Bandaríkjanna. Ísland átti þarna að vera sem nokkurs konar prufuklútur fyrir Bandaríkjastj. til þess að vita, hvað langt væri hægt að komast í því að færa upp vexti í alþjóðaviðskiptum og tryggja Bandaríkjastj. hærri vexti af lánum, sem hún veitir Evrópuþjóðunum, heldur en hún gat knúið fram, þegar Englendingar áttu bágast og þurftu á hennar hjálp að halda. Íslenzka ríkisstj. var þess vegna látin skrifa undir samninginn, og hún var ekki lengi að hika, hún var ekki að hafa fyrir að leggja málið fyrir utanrmn. eða hv. Alþ. Nei, það átti að skáka í því skjóli, að vextir í Landsbankanum hafa verið svo háir sem öll íslenzka þjóðin þekkir, en hún treysti því, að þjóðin fylgdist ekki eins vel með alþjóðafjármálum og að þjóðin héldi þess vegna, að þessir 3% vextir væru afbragð í samningi ríkisstj. og þarna hefði hæstv. ríkisstj. tekizt svo afskaplega vel að semja við þetta erlenda ríki, þegar Landsbankinn okkar væri svona dýr.

Hvað skeður svo, þegar Bandaríkin fara að ræða við aðrar þjóðir og aðrar ríkisstj. um þessi mál, þjóðir, sem hafa ólíkt meiri hugmynd um alþjóðafjármál, en við hér á Íslandi? Aðrar þjóðir og ríkisstj., sem halda í við Bandaríkjastj., fara öðruvísi að. Þá reka Bandaríkin sig á, að það muni ekki vera hægt að fá 3% vexti af sínu fé, sem þeir veita af sinni miklu samúð til nauðstaddra þjóða Evrópu. Það er svo tilkynnt, að Bandaríkin hafi lækkað vextina niður í 2½%, þegar það þótti sýnilegt, að ekki væri hægt að fá aðrar þjóðir til þess að ganga inn á þá samninga, sem íslenzka ríkisstj. lét sig ekki muna um að ganga inn á og skrifa undir. Ég held, að það hafi verið alveg óhætt fyrir hæstv. ríkisstj. að leggja málið fyrir Alþ. og fá það rætt þar, áður en hún undirskrifaði slíka samninga. Þessi lántaka, sem þarna hefur átt sér stað, brýtur alveg í bága við þá heimild, sem Alþ. hefur gefið ríkisstj. Ríkisstj. hefur látið nota sig á mjög leiðinlegan hátt, í trausti þess, að íslenzkur almenningur fylgist ekki svo vel með í fjármálum, að hann sjái ekki, hvers konar hlutverk íslenzka ríkisstj. er látin leika þarna.

Það var rætt hér um efni í gær, sem mér kom undarlega fyrir, þegar farið er að athuga málið til hlítar, að ríkisstj. virðist vera komin í vandræði. í tilkynningu ríkisstj. um þessa aðstoð Bandaríkjanna eins og hún birtist í Morgunblaðinu 15. okt. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Efnahagssamvinnustofnunin veitir Íslandi 3.500.000 dollara gegn því, að samsvarandi upphæð í íslenzkum kr. verði greidd inn á sérstakan reikning í Landsbanka Íslands, er notist til greiðslu á fiskinum. — Þessi upphæð dregst frá 11 millj. dollara framlagi því, sem Íslandi hefur verið úthlutað fyrir tímabilið 1. júlí 1948 til jafnlengdar 1949.“ Sem sé í tilkynningu ríkisstj. segir blátt áfram, að þessi fjárhæð sé aðeins veitt gegn samsvarandi framlagi, sem lagt sé inn á sérstakan reikning í Landsbanka Íslands. Hvaða ákvæði samnings ríkisstj. við Bandaríki Norður-Ameríku er um þann sérstaka reikning? Það er 4. gr. Það er ekki gert ráð fyrir þessum sérstaka reikningi í sambandi við nokkurn skapaðan hlut annan. Morgunblaðið segir beinlínis í leiðaranum 16. okt., með leyfi hæstv. forseta: ,,Það sem gerzt hefur, er þess vegna það, að Íslendingum hefur verið úthlutað hluta af þeim dollurum, sem þeir samkvæmt Marshallsamvinnunni áttu kost á að fá að láni eða sem skilyrta gjöf upp í andvirði nauðsynjavöru, sem þeir selja á vegum efnahagssamvinnustofnunarinnar til Vestur-Evrópu.“ Með öðrum orðum, þarna er beinlínis gengið frá því formi og þeirri kröfu, sem okkur er sett frá Bandaríkjunum, að það sé tekið á þennan hátt af því fé, sem við getum fengið að láni, og þess vegna verðum við að ganga með okkar viðskipti í gegnum sérstakan reikning í þessu sambandi. Þegar ríkisstj. er búin að gera svona samning, kemst hún auðvitað í vanda, og hún fer að verða hrædd um fordæmingu þjóðarinnar, þá er breytt um tón. Og 19. okt. segir svo í Morgunblaðinu, með leyfi hæstv. forseta: „Það sanna í málinu er hins vegar það; að ekkert af þessu er rétt. Efnahagssamvinnustofnunin kaupir þennan fisk hreinlega af Íslendingum, borgar þeim hann í dollurum og sendir hann síðan Evrópuþjóðunum, sem taka þátt í Marshalláætluninni. Andvirði hinnar seldu vöru er hins vegar dregið frá þeirri heildarupphæð, sem Íslendingum hefur verið ætluð af Marshallfé fram til miðs næsta árs.“ Með öðrum orðum, blað hæstv. utanrrh. er orðið tvísaga á þremur dögum. Það er komið svo, að ríkisstj. veit ekki sitt rjúkandi ráð, hvernig hún á að snúa sér út úr þessu, og það er satt að segja dálítið skiljanlegt, að hún verður þarna tvísaga, vegna þess að hún hefur komið sér í mjög óþægilega aðstöðu, sem sýnir um leið, í hvert öngþveiti hún er búin að koma okkar afurðasölumálum og fjármálum nú sem stendur.

Hæstv. utanrrh. lýsti því yfir í gær, að Íslendingar hefðu getað fengið 11 millj. kr. í ár hjá Bandaríkjunum annaðhvort sem lán eða sem skilyrta gjöf, en frá sjónarmiði hæstv. ríkisstj., sem hefur gert þessa samninga, er allt annað heppilegra. Hæstv. viðskmrh. lýsti yfir í gær, að það væri t. d. hægt að nota þetta fé til kaupa á framleiðslutækjum og öðru slíku í Bandaríkjunum. En Íslendingar hefðu getað selt sinn fisk til hinna og þessara þjóða, þar sem þeir hefðu getað haft markaði, en hefðu svo getað fengið þetta lán eða þá skilyrta gjöf. En hvað hefur gerzt? Ríkisstj. er búin með þessu ráðslagi sínu að koma afurðasölumálum okkar í það öngþveiti, að í staðinn fyrir að geta hagnýtt sér þetta, sem hæstv. viðskmrh. lýsti svo fagurlega í gær, að við gætum fengið þetta sem lán eða sem skilyrta gjöf, þá mun íslenzka ríkisstj. verða að fara til stj. Bandaríkjanna og hvísla að henni: Heyrið nú, elsku vinir, hjálpið mér nú, því að nú er ég í vandræðum. Ég get ekki selt nokkurn hlut af því, sem ég á eftir. Látið nú heita sem þið kaupið af okkur, við skulum í staðinn ekki ganga eftir því láni, sem okkur var ætlað. — Þetta viðurkenndi hæstv. utanrrh. í raun og veru, þegar hann sagði, að þetta dragist frá því láni, sem Íslendingar gætu fengið í Bandaríkjunum.

Það er verið að tala öll ósköp um, hvað hægt sé að byggja upp í landinu, og útmála það, að það sé vegna Marshallsamningsins. En það, sem er að gerast og ríkisstj. segir sjálf, að sé að gerast, er það, að það fé, sem hægt hefði verið að fá sem lán eða sem skilyrta gjöf, er nú verið að nota til þess að selja okkar afurðir fyrir, og mun ég koma betur inn á, hvaða þýðingu þessar aðfarir ríkisstj. hafa fyrir okkur. Þessar aðfarir ríkisstj. þýða í raun og veru það, að við erum á góðum vegi með að komast á nokkurs konar fátækraframfæri hjá Bandaríkjum Norður-Ameríku hvað afurðasölu snertir og þetta tækifæri til lántöku verður að engu í höndum ríkisstj. vegna þess, að hún sér enga möguleika til þess að selja okkar afurðir. Bandaríkjastj. er að fá yfirráð yfir okkar afurðasölu, og í einni af þeim greinum Marshalllaganna, sem ríkisstj. skrifaði undir, en hún kærir sig ekki um að segja frá, er beinlínis ákvæði um það, að Marshalllöndin verði að hlíta sérstökum fyrirskipunum í þessu efni. Vil ég aðeins minna á það, og ég vona, að þessi lög eigi eftir að koma fram fyrir sjónir íslenzku þjóðarinnar, það veitir ekki af, til þess að hv. þm. hafi hugmynd um, að hverju er verið að ganga að í 117. gr., b-lið, er fjárhagsstjóra, sem Bandaríkjastj. hefur skipað, falið vald til þess að setja viðskiptabann á þau lönd af Marshalllöndunum, sem ekki beygja sig undir framkvæmd ákvæða samningsins, þannig að ef Bandaríkin banna útflutning á sérstökum hlutum úr einstökum löndum, þá er viðkomandi Marshallland skyldugt til að hlýða þeirri skipan. Það er verið að gera utanríkisverzlunina háða Bandaríkjunum með þessu móti, og það er verið að selja yfirráð okkar Íslendinga yfir okkar afurðum og möguleikana til þess að tryggja markaði í Evrópu í hendur Bandaríkjunum.

Í grein, sem birtist í Morgunblaðinu 8. júlí í sumar, rétt eftir að þessi samningur var samþ., er skýrt frá því, með hvaða hætti þessi samningur er gerður, og er greinin ekki ólík því, að hæstv. utanrrh. hafi skrifað hana. Þar er gerð stutt grein fyrir því, að Ísland hefur samþ. þennan samning. Þar kemur það sama fram eins og komið hefur fram hér við umr., að grundvallarskilyrðið fyrir því, að hægt sé að fá þessa aðstoð, sé í raun og veru það, að við látum af hendi yfirráð yfir okkar afurðasölu og samningurinn sé gerður fyrst og fremst á þeim grundvelli, að við getum selt okkar afurðir. En ef þetta hefði verið hreinskilnislega sagt strax, þá hefði verið hægt að ræða þetta á allt öðrum grundvelli, ef ríkisstj. hefði haft manndáð í sér til þess að koma fram fyrir sína þjóð og segja hreinskilnislega: Bandaríkin hafa sett okkur stólinn fyrir dyrnar, þau ætla að banna okkur að gera okkar afurðasölusamninga sjálfir, og okkur er nauðugur einn kostur að ganga að þeim skilyrðum, sem þau setja. En íslenzka ríkisstj. gengur að þessum kröfum Bandaríkjanna í trausti þess, að þau launi ef til vill með því að skaffa okkur markaði í eitt til tvö ár, og þegar svo Marshallaðstoðinni er lokið, verðum við að ganga inn á ný skilyrði, hvernig sem þau svo verða, en ríkisstj. reynir eftir megni að leyna þjóðina þessu, og það, sem í raun og veru er verst er, að hún er að spila úr höndum þjóðarinnar möguleikunum, sem þjóðin hefur fyrir vestan og austan járntjaldið, og það er þegar að koma í ljós, að valdið, sem Bandaríkin hafa þannig fengið yfir okkur með þessum aðgerðum ríkisstj., gerir það að verkum, að ríkisstj. er að missa út úr höndum sér markaðsmöguleika, sem við höfum, og einnig þær vonir, sem ríkisstj. hefur verið að gera sér í sambandi við aðstoð frá Bandaríkjunum til uppbyggingar í landinu, og þannig mun verða haldið áfram, meðan þeir, sem landinu ráða, sjá ekki neitt annað úrræði en að vera auðsveipir við Bandaríkin og gera það, sem þau fyrirskipa, ef til vill í trausti þess, að þau launi kannske með því að útvega okkur markaði í eitt eða tvö ár, þó að þau svo síðan reki okkur út á kaldan klaka, þegar Marshallaðstoðinni er lokið, nema því aðeins að við göngum inn á ný skilyrði, sem hún kann að setja okkur.

Ríkisstj. reynir svo eins og hún getur til þess að blekkja þjóðina með fagurgala sínum. Það liðu að minnsta kosti ekki nema nokkrir dagar frá því, að þetta var samþ., og þangað til málgagn hæstv. utanrrh., Morgunblaðið, fór að skrifa um, að nauðsynlegt væri að koma á samvinnu milli Bandaríkjanna og Íslands um virkjun Þjórsár og framleiðslu í því sambandi til útflutnings til Evrópu, og einmitt með Marshallsamningnum opnuðust slíkir möguleikar við auðvald Bandaríkjanna, og í blaði hv. þm. S-Þ., Landvörn, hefur verið minnzt á, að einn af þeim frambjóðendum, sem Sjálfstfl. hefur ákveðið í kjördæmi við næstu kosningar, hafi komið með þá hugmynd, að Bandaríkin og Íslendingar kæmu upp stóriðju í sambandi við virkjun Þjórsár. Það virðist vera að færast nú þegar nýtt líf og áhugi innan Sjálfstfl. um verulega fjárhagslega samvinnu við Bandaríkin og beinlínis stóriðju í sambandi við hana, sem vitanlega þýddi það, að auðvald Bandaríkjanna réði yfir þessu öllu. Fjárfestingarákvæðin eru tvímælalaust hættulegustu ákvæði Marshallsamningsins, þar eð þau veita bandaríska auðvaldinu rétt til fjárfestingar á Íslandi. Eru þannig þrátt fyrir l., eins og þau eru nú á Íslandi, alltaf möguleikar til meiri og minni fjárfestingar með leppmennsku íslenzkra þegna, sem er í því fólgin að eiga eitthvert hlutafé í fyrirtæki, sem áskilið er samkvæmt íslenzkum l., og ameríska auðvaldið mun varla þurfa lengi að leita að mönnum, sem vilja láta nota sig þannig. Með öðrum orðum, það er möguleiki fyrir Bandaríkin, jafnvel án þess að brjóta opinberlega í bága við íslenzk lög, að byrja þarna leppmennsku og færa sig upp á skaftið og skírskota til ákvæða þeirra í Marshallsamningnum, sem ríkisstj. hefur samþ., meðan þau eru að smeygja inn litla fingrinum, og koma sér þannig lengra og lengra áfram, þangað til þeir geta gleypt okkar efnahagslíf. Það er auðséð, að vissir menn innan Sjálfstfl. hafa augastað á slíkri samvinnu, að geta komið hér upp sem leppar bandarískri stóriðju, sem þjóðin svo ekki ræður við. Hér hef ég þó ekki gert ráð fyrir raunveruleikanum í sambandi við þetta, heldur aðeins rætt um samþykktir og lög. En hver er raunveruleikinn, þegar Bandaríkin eru annars vegar? Við höfum þegar reynsluna. Við höfum gert Keflavíkursamning, og hvernig er ástandið þar? Öll íslenzk lög, sem hægt er að brjóta, hafa verið þverbrotin. Reynsluna höfum við af hæstv. ríkisstj., þegar hún á að sjá um framkvæmdir íslenzkra laga og samþykkta við Bandaríkin. Það er ekki staðið við lagaákvæði, jafnvel þó að um fjárhagslegan gróða sé að ræða. Þótt hægt hefði verið að fá milljónir dollara í skattatekjur, þá er því sleppt. Þetta er reynslan, þegar Bandaríkin eru annars vegar. Sjálfur Marshallsamningurinn er nógu slæmur út af fyrir sig, en þegar við höfum fyrir okkur framkvæmd Keflavíkursamningsins, þá vitum við, á hverju við megum eiga von. Í hvert skipti sem Íslendingur kemur og segir: „Nú er þessi samningur brotinn, og nú færa Ameríkanar sig upp á skaftið og brjóta íslenzk lög,“ — þá er sagt: „Þið eruð óvinir Bandaríkjanna og eruð að reyna að spilla vináttu Íslendinga og Bandaríkjanna, og við tökum ekki tillit til þess.“ Ef Íslendingar brjóta lög, þá varðar það tugthúsi, en ef það eru Bandaríkjamenn, þá er ekkert sagt við þá. Þess vegna sé ég það eftir reynslunni, að með þessum Marhallsamningi og þeim framkvæmdum, sem vænta má af honum, er verið að fórna efnahagslegum yfirráðum okkar Íslendinga yfir okkar eigin landi og opna voldugu auðmagni leið inn í okkar land og gefa því möguleika til að ná tökum á verzlunar- og atvinnulífi okkar. Þá verða það ekki lengur Íslendingar, sem ráða í landinu. Nú þegar hefur ríkisstj. gert okkar svo háða Bandaríkjunum, að jafnvel sala á síldar- og fiskafurðum okkar verður að fara fram með samþykki Bandaríkjastjórnar. Með þessu er verið að stofna sjálfstæði Íslands í hættu. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur, og ég vona, að það verði hægt að fá þingmenn til að athuga þessi mál, ekki eftir því, hvar þeir skipa sér í flokk, heldur til að athuga, hvað þarf að gera viðvíkjandi framtíðinni.

Svo komu hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskmrh. að því í ræðum sínum, að það væri ekki nóg fyrir okkur Íslendinga að hafa þennan samning og taka lán, eins og þegar er búið að gera. Við verðum líka að búa okkur undir að þiggja gjafir af Bandaríkjunum. Ég man svo langt, að þegar fyrst var talað um það af ríkisstj., að við Íslendingar tækjum þátt í Marshallaðstoðinni, þá tilkynnti hún, að við mundum koma til með að verða veitendur með þessum samningi. Þá var sagt: „Það eru öll hin stríðshrjáðu ríki í Evrópu, sem eiga við neyð að búa, sem verið er að hjálpa með góðum viðskiptum. Við munum vera með. Við Íslendingar þurfum enga hjálp.“ Þetta var fyrsta yfirlýsingin. Undir þessu yfirskini átti að fá okkur með í samninginn. Þetta var í samræmi við þann stórhug, sem þá var ríkjandi með þjóðinni, og þá bjartsýni, sem enn þá einkenndi hana, og í samræmi við það traust á sjálfri sér, sem hún þá hafði vegna nýsköpunar atvinnuveganna. Síðan hefur ríkisstj. verið að reyna að fá okkur til þess að hugsa smærra. Næst er imprað á því í Vísi 11. ág. 1947, að við Íslendingar ættum máske að athuga að taka lán í Bandaríkjunum. Það var nú ekki verið að taka undir það. Alþýðublaðið og Landvörn skrifuðu bæði á þá leið, að ekki kæmi til mála að taka útlent lán. Ríkisstj. vissi, að það þýddi ekki enn þá að tala um það við þjóðina að taka lán. Hún vissi, að það þurfti að beygja hana betur, áður en hægt yrði að segja henni að taka lán. Þjóðin mundi eftir því, hvað það þýddi fyrir hana fyrir stríðið að taka lán, og þess vegna þurfti að endurreisa aumingjaskapinn dálítið aftur, áður en þýddi að bjóða henni það. Svo var farið að tala um að taka lán, en þá var því hins vegar lýst yfir, að öðruvísi aðstoð kæmi ekki til greina. Hér á Alþingi 14. okt., fyrir réttu ári síðan, sagði hæstv. utanrrh. — ég held í útvarpsumræðum — þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Því miður er efnahagur margra Evrópuríkja svo slæmur eftir eyðileggingar styrjaldarinnar, að þeim er um megn að standa sjálfar straum af endurreisnarstarfinu. Þess vegna er það von þeirra, að Bandaríkin veiti þeim fjárhagslegan tilstyrk.

Ísland er hins vegar ekki í hópi þeirra þjóða, sem hafa beðið um slíka aðstoð, og við skulum vona, að við berum gæfu til að haga svo málum okkar, að við þurfum ekki á henni að halda.“

Þetta voru orð hæstv. utanrrh. fyrir rúmu ári síðan. Það var annað hljóð í hæstv. ráðh. hér í gær. Það þurfti 5 ára styrjöld, ægilegustu og grimmilegustu styrjöld, sem háð hefur verið, með allri þeirri skelfilegustu eyðileggingu, sem mannkynið hefur þekkt, til þess að koma Evrópu þannig á kné, að hún þyrfti að knékrjúpa fyrir Bandaríkjunum um fjárhagslega aðstoð, en ekki nema eins árs stjórn hæstv. utanrrh. og forsrh. til þess að koma Íslandi í þá aðstöðu, miðað við álit hæstv. utanrrh. í fyrra. Svona hefur ríkisstj. notað völdin til þess að ganga frá málum okkar Íslendinga á þessu eina ári. Við erum rændir stórhug og bjartsýni, þangað til við erum komnir í það ástand, að við förum að biðja og betla hjá þessu volduga ríki. Fyrst þarf að stjórna landinu svo illa, að bölsýni gripi um sig, og þá er hægt að bjóða þjóðinni upp á þessa hluti og koma okkur í það ástand, sem skáldin okkar 1908 voru að tala um, að okkur bæri að forðast, — að verða próventuþjóð Dana. Þorsteinn Erlingsson kvað þá: „Skarta þá skal á skörinni próventuþjóðin.“ Hæstv. ráðh. er að fá íslenzku þjóðina til þess að sætta sig við að verða próventuþjóð bandaríska auðvaldsins.

Hæstv. utanrrh. var að tala um, að við værum svo snauð, landið okkar væri svo snautt, að við þyrftum ekki að skammast okkar fyrir að betla. Aldrei höfum við Íslendingar verið eins stoltir og ríkir eins og nú. Meira að segja forfeður okkar, sem mest voru rúnir, — hér var svo að segja ekkert til af veraldlegum verðmætum að heita mátti, sem ekki var hægt að ræna burt, — þeir voru svo stoltir, að þeir fóru ekki að betla eða selja landið til framandi þjóða. Það er þessi ríkisstj., sem nú situr, sem smám saman er að fá okkur til að minnka, þannig, að við förum að una slíku hlutskipti. Það var einkum tvennt, sem hæstv. ráðherrar komu með í gær, sem átti að ginna Íslendinga með. Annað var það að lýsa með fögrum orðum gæzku bandarískra auðmanna. Allt væri gert í góðum tilgangi og okkur væri óhætt að treysta á það, að ekkert lægi bak við annað, en einskær mannkærleikur. Hins vegar voru svo fyrirætlanirnar um það, hvað við Íslendingar gætum haft upp úr að þiggja gjafirnar. Hæstv. viðskmrh. veifaði framan í þjóðina fallegum „óskalista“. Hann var svo orðheppinn að tala um „óskalista“. Það var orðið, sem Marshall notaði um þá skýrslu, sem þær 16 Evrópuþjóðir samþykktu í París í júlí 1947 að senda til Bandaríkjanna, þar sem farið er fram á þá aðstoð, sem þær álitu sér nauðsynlegt að fá. Marshall sagði, að þetta væri bara óskalisti, og svo var tekið til að strika út ýmislegt, sem Evrópuþjóðirnar óskuðu helzt að fá. Þetta orð getur því minnt okkur á óskir Evrópuþjóðanna til Bandaríkjanna, því að megnið af þeim var skorið niður. Mér datt í hug, þegar hæstv. viðskmrh. var að hvítþvo bandaríska auðvaldið í augum okkar Íslendinga, til þess að búa okkur undir að þiggja gjafir þeirra, erindi:

„Svona eru helguð bæði borðin

betls og nautna, öllum megin.

Mammon vor er alhreinn orðinn

kristindóms í kirkju — þveginn.

Í sambandi við allt tal hér í gær um hjálparvilja Bandaríkjastjórnar, þá var ýmsum staðreyndum sleppt. Hæstv. ráðh. sagði, að Marshallaðstoðin byggðist öll á þeim gífurlega hjálparvilja, sem Marshall hefði átt frumkvæði að. Er hæstv. utanrrh. búinn að gleyma því, að það voru til tvær stofnanir áður, sem framkvæmdu þennan hjálparvilja í verki og miklu betur, en Marshallaðstoðin? Annað voru láns- og leigulögin. Hvað var það fyrsta, sem Bandaríkjastjórn gerði eftir stríðið? Það var að afnema þessi lög. Samkvæmt þeim var hægt að láta í té hjálp við Evrópuþjóðirnar án pólitískra skuldbindinga, en þær voru þá hungraðar og hjálparþurfi. Þessi stofnun starfaði á grundvelli mannúðar. Það var líka til önnur stofnun, UNNRA, sem Íslendingar voru þátttakendur í. Þessi stofnun var rekin af Sameinuðu þjóðunum og byggðist á mannúð og mannkærleika, og til þess að hjálpa þessum hungruðu og þjáðu þjóðum var nauðsynlegt að halda UNNRA áfram. Allar þjóðir, að einni undanskilinni, vildu það. Það voru Bandaríkin, sem ekki vildu það. Hæstv. utanrrh. getur athugað umsögn þess manns, sem mest hafði með framkvæmd matvælahjálparinnar hjá UNNRA að gera, um, hvað það þýddi, þegar matvælagjafir UNNRA voru lagðar niður og hætt var við að hjálpa hinum sveltandi Evrópuþjóðum. Af hverju, var UNNRA lagt niður? Af því að Bandaríkjastjórn vildi koma á skipulagi, þar sem hún gæti sett pólitísk og fjárhagsleg skilyrði fyrir því, hvernig sú hjálp væri veitt þjóðunum. Þeir skyldu enga aðstoð né hjálp fá, heldur svelta áfram, sem ekki gengju inn á skilyrði Bandaríkjanna. Þetta eru staðreyndir, ... sem hæstv. utanrrh. gleymdi, þegar hann var að tala um hjálparvilja Bandaríkjastjórnar. Þá sagði hæstv. ráðherra, að þær þjóðir, sem þarna hefðu sameinazt, hefðu gert það af því, að þær væru frjálsar gerða sinna. Ég skal nú reyna að lýsa því ofurlítið fyrir hæstv. utanrrh., hvernig á því muni standa, að þær hafa gengið að þessu. Bretland, Holland, Belgía og Frakkland eru hin gömlu og ríku nýlenduveldi Evrópu. Það eru þau ríki, sem eiga stóra hluta af Afríku og Asíu. Yfirstéttir þessara þjóða hafa í nokkur hundruð ár ráðið yfir ríkustu nýlendum jarðarinnar. Eftir styrjöldina var ástandið heima fyrir hjá þessum þjóðum þannig, að þær sultu og voru þess vegna nauðbeygðar til að semja við þá, sem gátu gefið þeim mat. Þær áttu gífurlegar auðlindir og þessar ríku Vestur-Evrópu þjóðir hafa í raun og veru afhent Bandaríkjunum yfirráð yfir nýlendum sínum að miklu leyti, sums staðar að öllu leyti. Að öðru leyti vildu þær fá aðstoð Bandaríkjanna til þess að geta haldið niðri þeim nýlendum, sem farnar voru að berjast fyrir frelsi sínu. Bandaríkin ráða nú yfir öllum úraniumútflutningi Kongó og Belgíu. Þeir hafa neyðzt til að gera slíka samninga við auðhringa Bandaríkjanna, svo að segja afhent þau fyrir ,,baunadisk“. Það er sannarlega ekki af frjálsum vilja, að þessar þjóðir hafa neyðzt til að ganga inn á þessa hluti. Það er sumpart fyrir slæmar ástæður heima fyrir og sumpart af því að þær óttast að tapa nýlendum sínum, að þær sömdu við Bandaríkjastjórn. Við skulum ekki halda, að þessir hlutir gerist af því, að það sé að myndast bræðralag og Bandaríkin séu af mannkærleika að hjálpa. Við þurfum ekki annað að gera en að tala við hinn almenna Englending og heyra hljóðið til Bandaríkjanna. Það er hatur fyrir það, hvernig þeir nota sér neyðarástand Englendinga. Þetta er stórkostleg fjárhagsleg og pólitísk árás á Vestur-Evrópuþjóðirnar til þess að ræna þær raunverulegum völdum yfir nýlendum þeirra. Þetta er stríð Bandaríkjaauðvaldsins móti vestur-evrópska auðvaldinu. Þetta er mergurinn málsins, ef við athugum þessi mál án þess að láta blekkjast af einhverjum gyllingum.

Nú skulum við athuga þá reynslu, sem fengizt hefur á framkvæmd þessa samnings. Hæstv. viðskmrh. sagði, að þátttökuríki Marshallaðstoðarinnar hefðu forgangsrétt að vörukaupum í Bandaríkjunum og þau létu hverju landi í té þær vörur, sem þau óskuðu eftir. Mér liggur við að spyrja hæstv. ráðh., hvort þeir trúi þessu sjálfir, hvort þeir haldi það, að þátttökuríkin geti fengið þær vörur hjá Bandaríkjastjórn, sem þau sjálf óska eftir, og að Bandaríkin séu að hugsa um að láta þessum löndum þær í té. Ég skal nú nefna dæmi og taka vöru sem öll þátttökuríkin lögðu mest upp úr. Það var beðið um brotastál frá Bandaríkjunum. Því var neitað með öllu. Það var beðið um hrástál og hálfunnið. Það var skorið niður í 1/5. Það var beðið um stál fyrir Evrópu til þess að vinna úr í eigin verksmiðjum, en því var neitað, ýmist alveg eða að 4/5 hlutum. Hvað gat Evrópa þá fengið? Jú, hún gat fengið meira af fullunnum stálvörum, en hún bað um. Verksmiðjur Bandaríkjanna máttu vinna af fullum krafti fyrir markaði í Evrópu. Stálverksmiðjur Evrópu áttu ekki að geta keppt við framleiðslu Bandaríkjanna. Það var beðið um stálframleiðslutæki fyrir 400 millj. dollara. Það var skorið niður í 192 millj., og þykir ganga einkennilega hægt að fá það afgreitt. Hvernig var það með skipasmíðar, sem Englendingar lögðu langmest upp úr? Ríkisstj. hefur kannske sögu að segja af sinni eigin reynslu? Jú, við Englendinga hefur það orðið þannig, að vegna þess, hve mikið var skorið niður af því, sem Englendingar fóru fram á að fá af stáli, hefur enska stjórnin orðið að skera niður við skipasmíðastöðvar í Englandi um að minnsta kosti 20%. Þeir gátu ekki fullnægt pöntunum fyrr en seinna, vegna þess að þeir fengu ekki nægilegt stál frá Bandaríkjunum. Af hverju? Af því að Bandaríkin liggja nú uppi með mikinn skipaflota, en Englendingar eru að byggja fyrir sig og aðra mjög mikinn flota. En Bandaríkin segja: Það er hægt að kaupa og leigja skip frá okkur. Englendingar gerðu það tilboð, að þeir keyptu 300 skip og leigðu 300 skip. Og í Marshalllögunum er ákveðið, að flytja skuli þessar hjálparvörur að helmingi með amerískum skipum. Þessar fátæku þjóðir máttu ekki einu sinni nota sín eigin skip, nema Bandaríkin fengju að flytja helming af öllu saman. Var þetta af manngæzku og hjálparvilja Bandaríkjanna? Nei, það var verið að gera tilraun til að móta allan iðnað og framkvæmdir þessara þátttökuþjóða út frá hagsmunum Bandaríkjanna, að tryggja það, að bandarískur skipafloti hefði nóg, en Englendingar yrðu að draga úr og Norðmenn yrðu að draga úr, og það var verið að hindra stálverksmiðjur Evrópu, til þess að Ameríka gæti sent meira af fullunnum stálvörum til Evrópu. Svona má taka hvert einasta atriði að heita má fyrir, nema þær vörur, sem Ameríka átti ekki of mikið af. Hvernig var með áburðinn og landbúnaðarvélarnar? Þjóðirnar lögðu einna mest upp úr þeim vörum, vegna þess að það þýddi matvælaframleiðslu. Parísarráðstefnan bað um landbúnaðarvélar fyrir 1.200 milljónir dollara, og áætlunin er skorin niður í 637 milljónir dollara. Af hverju lýstu Bandaríkin yfir, að þau vildu ekki auka sinn áburðarútflutning? Af því að Bandaríkin eru að tempra framleiðslu landbúnaðarafurða í Evrópu, halda henni á ákveðnu stigi, að hún verði ekki svo mikil, að markaður fyrir amerískt korn spillist þess vegna. Með því að skera svona niður útflutning á landbúnaðarvélum og áburði frá Bandaríkjunum er verið að halda landbúnaði Evrópu í heljargreipum, til þess að Evrópulöndin verði markaðssvæði fyrir kornútflutning frá Ameríku. Svona er langt frá því, að verið sé að hjálpa þjóðunum. Og ég skal geta þess um leið, að auðvitað hafa þau stóru fyrirtæki Bandaríkjanna, sem framleiða þessar landbúnaðarvélar, mjög mikinn áhuga á að flytja þær út. En það er stjórn Bandaríkjanna, sem stendur á móti og er að hugsa um markað einnar stærstu útflutningsvöru bænda, sem er hveiti og annað korn. Hún hugsar sem svo: Það kemur okkur í koll sem of mikil framleiðsla hjá Evrópuþjóðum. Þannig er hægt að halda áfram að rekja.

Ég skal nú minnast nokkuð á ,,óskalistann“ og reynsluna nú fyrstu fjóra mánuðina eftir að lögin voru samin í Bandaríkjunum í apríl. Maður rekur sig fljótt á, að svo slæm sem áætlunin er og svo lítið tillit sem hún tekur til raunverulegra þarfa Evrópu, þá er framkvæmdin enn þá lakari. Fyrstu fjóra mánuðina er ekki enn þá búið að flytja út nema 18% af þeirri upphæð, sem leyfð var. En berum nú saman hina ýmsu liði. Það er búið að flytja út 51% af hestakjötinu, sem Ameríkumenn eiga að flytja út, en ekki nema 8% af því stáli, sem talað var um, og þó var búið að skera það niður. Á þessum fjórum mánuðum er búið að flytja 20% af því tóbaki, sem Evrópuþjóðirnar neyddust til að taka og fæstir óskuðu eftir, en ekki nema 2,7% af iðnaðarvélum, sem lofað var, og var þó orðinn stór niðurskurður frá því, sem óskað var. Það er búið að flytja á þessum fjórum mánuðum fyrir 18 milljónir dollara þurrmjólk og lélegan ost, en ekki fyrir nema 1½ milljón dollara landbúnaðarvélar, eða ekki nema 1,7% af þeim landbúnaðarvélum, sem lofað var. Þannig er sama, hvar við drepum niður. Ef við færum að gefa Alþingi skýrslu um, hvernig þetta hefur verið framkvæmt, yrði það skýrsla um það, hvernig Bandaríkjastjórn og auðhringarnir fyrirskipa Evrópuþjóðunum í sína eigin þágu, hvernig þær eigi að haga sínum atvinnumálum. Það má hins vegar vera, að Íslendingar gætu komizt að betri kjörum, en ýmsar aðrar þjóðir, af því að við framleiðum ekki korn til að keppa við þá vestra.

Þá talaði hæstv. viðskmrh. um það, að sú staðhæfing, að Bandaríkin vildu neyða sínum afgangsvörum upp á þátttökuríkin, væri uppspuni frá rótum. Mér þykir hart, — þó að hæstv. ráðh. beri ekki mikla virðingu fyrir alþm., — að hann skuli bera þetta á borð fyrir þá. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann hafi lesið lögin frá Congress Bandaríkjanna í vor. Í 112. gr., b-lið, segir hvernig skuli fara með það, sem Bandaríkjamenn kalla: surplus agricultural commodity. Eru tveir undirliðir, og sá síðari byrjar svona: „The Administrator shall authorize the proeurement of any such surplus agricultural commodity only within the Unated States.“ Og þessi efnahagsstjórn á að leyfa að útvega slíkar landbúnaðarafurðir, sem of mikið er til af, eingöngu innan Bandarikjanna, þegar ákveðnum skilyrðum er fullnægt. Það er gert ráð fyrir því af hálfu Bandaríkjanna sjálfra og er í Marshalllögunum, að þegar um afgang væri að ræða þar í landi, þá skuli þátttökuríkin ekki fá að kaupa slíkar vörur hvort hjá öðru, heldur kaupa í Bandaríkjunum. Bandaríkin hafa því gert sérstakar ráðstafanir til að tryggja markað fyrir offramleiðslu sína. Ég veit ekki, hvort hæstv. viðskmrh. hefur þekkt þessa gr., sem ég vitnaði í. Mér þykir það satt að segja frekar ólíklegt. Hann hefði varla tekið þá svona til máls. En hæstv. utanrrh. sagði, að það væri ástæðulaust að rekja lagabálkinn hér. Ég er á annarri skoðun. Ég held það sé full ástæða til að þýða hann fyrir hæstv. ríkisstj. sjálfa í fyrsta lagi, og í öðru lagi fyrir Alþingi. Ég held við ættum að fá þennan kafla hér þýddan allan saman, þannig að við gætum athugað, hvernig hann væri, og þyrfti ekki að koma í ljós hvað eftir annað, að ráðh. hafa ekki hugmynd um, hvernig þarna er komið. Frá sjónarmiði Bandaríkjanna skilur maður þessa niðurstöðu vel. Þeir óttast offramleiðslu á korni í haust og hafa þess vegna gert mjög skarpar ráðstafanir til þess að reyna að hindra aukna kornframleiðslu í Evrópu. Sama náttúran, sem hefur orðið okkur hér erfið með síldina, hefur verið mild við bændur vestra. Þar eru því uppi kröfur um að tryggja hagsmuni bænda á kostnað annarra þjóða.

Nei, öll fögru orðin, sem hæstv. ráðh. hafa haft í frammi, eru hjóm. Það kemur í ljós, að þessi Marshalláætlun er vægðarlaus „business“, eins og Ameríkumenn kalla það. Hæstv. ráðh. kvað Ameríkumenn skilja það, að ekki mætti verða atvinnuleysi hjá Marshalllöndunum. Ég held þvert á móti, að það sé skilningur á því, að það megi ekki vera nema tiltölulega lítið atvinnuleysi í Bandaríkjunum, en það megi vera í Evrópu. Það virðist vera áætlun um að flytja út atvinnuleysi frá Bandaríkjunum. Þess vegna er verksmiðjunum í Ítalíu neitað um stál til framleiðslu á bílum, en Ítalir skikkaðir til að flytja inn vörubíla. Ítölum er og neitað um hveiti til að framleiða maccarónur, en neyddir til að kaupa þær tilbúnar frá Bandaríkjunum. Frönskum flugvélaverksmiðjum er neitað um efni, en Frakkar eru neyddir til að kaupa flugvélar hjá Bandaríkjunum. Á hverju einasta hagsmunasviði þessara þjóða er sá hlutur nú að gerast, að stórfyrirtæki eru ýmist að loka vegna samkeppni frá Bandaríkjunum eða að Bandaríkin eru að kaupa þau upp. Og ef stofnuð eru ný fyrirtæki, eins og ný frétt um gúmmíverksmiðjur á Englandi hermdi, þá tryggja Bandaríkin sér helmings þátttöku. Gúmmískorturinn styrkti aðstöðu Englands gagnvart Bandaríkjunum fyrr meir, en nú er Bandaríkjaauðvaldið búið að brjóta England niður á þessu sviði. Svona eru ýmsar ráðstafanir Bandaríkjanna vægðarlausar til að tryggja réttindi og aðstöðu og vald á kostnað Evrópuþjóðanna.

Svo luku hæstv. ráðh. sínu máli með því að segja, að þegar allt væri athugað, væri rétt af okkur Íslendingum að ganga inn á að þiggja gjafir frá Bandaríkjunum, og væri okkur þar ekki vandara um en þeim þjóðum, sem illa hefðu farið út úr stríðinu. Ríkisstj. tilkynnti, að hún mundi leggja frv. seinna fyrir þingið, sem gerði henni mögulegt að taka á móti þessum gjöfum og skilyrðum fyrir þeim. Ég hef sýnt fram á, með hvers konar hugarfari slíkar gjafir eru gefnar og hvernig er reynsla annarra landa. Við þurfum ekki langt að leita um afleiðingar af því að taka á móti þessum gjöfum. Fyrstu skipin á vegum Marshallhjálparinnar voru varla komin til hafna í Evrópu fyrr en Bandaríkjastjórn tilkynnti þessum Evrópuþjóðum, að það næsta sé að gera hernaðarbandalag við Bandaríkin. Og það má mikið vera, ef atvinnuleysisherinn, sem Bandaríkin ætla að skapa á Ítalíu og víðar, fær ekki seinna það hlutverk að verða málalið hjá Bandaríkjunum, sem gætu þá sparað sína drengi. Hvað mundi koma næst á Íslandi, þegar við þiggjum slíkar gjafir með því hugarfari, sem ríkisstj. vill skapa hjá þjóðinni? Ég er hræddur um, að það komi dálítið ákveðnari kröfur um herstöðvar og enn þá hatrammari framkvæmdir Ameríkumönnum í vil en þegar er orðið. Einn af samflokksmönnum hæstv. forsrh. lýsti í fyrra sínum vilja og hans, nefnilega andstöðu sinni gegn því að segja upp flugvallarsamningnum. Og við getum gert okkur í hugarlund, hvert verður svar þeirra manna í framtíðinni, sem nú búa íslenzku þjóðina undir að þiggja gjafir. Ætli maður heyri þá ekki talað um móðgun og óvináttu við Bandaríkin, þessa góðu þjóð, sem gefur góðar gjafir, ef við ætlum að dirfast að segja upp svona samningi eða yfirleitt viðhafa einarðlegri framkvæmdir en við höfum hingað til gert gagnvart Ameríkumönnum? Nei, það á að beita okkur diplómatískum brögðum, þangað til við sættum okkur við ekki aðeins að segja ekki samningnum upp, heldur líka förum að ganga inn á enn þá meiri samninga.

Hæstv. viðskmrh. lauk sinni ræðu um framtíðaráætlunina með því, að þetta væri allt miðað við það að geta staðið á eigin fótum 1952. Ég er hræddur um, að raunveruleikinn verði sá, ef haldið er áfram eins og nú er byrjað, að allt sé miðað við, að Ísland eigi að krjúpa á knjám árið 1952 og biðja um fleiri dollara, af því að markaðir séu eyðilagðir, og muni þá Íslendingar bjóða upp á meiri fríðindi í landinu til þess að mega verða áframhaldandi vináttu Ameríkumanna aðnjótandi.

Sósíalistaflokkurinn hefur frá upphafi tekið afstöðu móti þessum samningi. Og við munum gera það, sem við getum til þess að reyna að fá Alþingi til þess að staðfesta hann ekki, ef hann verður lagður fyrir það, segja honum sem fyrst upp, ef hann verður samþ. Við álítum, að við getum verzlað bæði austan og vestan járntjaldsins, eins og hæstv. utanrrh. orðaði það, tryggt okkar hagmuni bezt með því að standa sjálfstæðir og binda okkur ekki neinum aðila. Sé hins vegar slíkur samningur gerður, eins og stj. hefur nú gert, verður auðvitað að reyna að sjá til þess að nota hann á þann hátt; sem þó er skástur fyrir þjóðina.

Ég vil nú gera að umtalsefni þá yfirlýsingu stj. að ætla að byggja á þessum samningi áætlun til ársins 1954. Íslendingum munu hafa verið áætlaðar 38 milljónir dollara á öllum tímanum. Hæstv. viðskmrh. leiðréttir, ef þetta er ekki rétt. Á þessu fyrsta ári Marshalláætlunarinnar koma 2–3 millj. dollara. Þessi upphæð sem heild ætti eftir þessari lýsingu ráðh. að vera grundvöllurinn. Og nú stöndum við frammi fyrir því að sjá í reyndinni, hvernig varið er fyrsta hlutanum af þessum 11 milljónum dollara, sem ríkisstj. ætlar sér að fá. Frá hennar sjónarmiði eru þessar 11 milljónir dollara undirstaðan í þessu efni. Hvernig hefur hún farið með þetta fé? Hún hefur selt til Bandaríkjanna síldarmjöl, síldarolíu og hraðfrystan fisk fyrir samtals 5,5 milljónir dollara af þessum 11 milljónum á vegum þessarar stofnunar. Eru þannig þessar 5,5 milljónir teknar af þessum 11 milljónum, í staðinn fyrir að selja þessar vörur á öðrum frjálsum mörkuðum og að nota þessar 5,5 millj. dollara til uppbyggingar fyrir Ísland. Ég veit ekki, hvort hv. þm. skilja þetta. Ef við hefðum selt áðurnefndar vörur til ýmissa landa Evrópu, hefðum við einnig getað notað þessar 5,5 millj. dollara fyrir afurðir okkar til að byggja upp okkar atvinnulíf. M. ö. o., ríkisstj. er sjálf að gylla fyrir okkur hvað við vinnum með því að fá þetta fé, en samtímis er hún byrjuð að éta út þennan „óskalista“ sinn. (Forsrh.: Hún tekur þá lítið sem gjöf.) Hún sleppir að selja á markaði, sem hún gat selt á, og sleppir að taka að láni 5,5 milljónir dollara, sem hún er að gylla fyrir okkur sem möguleika fyrir framtíðar nýsköpur. Hvað þýðir það, þegar svona er ástatt á fyrsta árinu? Markaðsástandið fer versnandi. Fiskveiðar þátttökuþjóða annarra fara vaxandi. Við getum verið orðnir óþarfir á því sviði 1951. Ríkisstj. mun þá þurfa að biðja Bandaríkin á hverju ári að kaupa upp birgðirnar af okkar afurðum upp í það, sem heitir skilyrtar gjafir, og það þýðir, að meira eða minna af óskalistanum verður étið upp í daglegar þarfir landsmanna. Þetta, sem ríkisstj. básúnar út sem öruggan grundvöll fyrir Íslendinga, er hún sjálf að eyðileggja með því að eyðileggja fyrir Íslandi markaði, sem það gat fengið, þannig að við stöndum uppi og betlum til Bandaríkjanna um að taka vörur upp í skilyrtar gjafir eða lán. Ég álít, að við Íslendingar getum haldið áfram að byggja upp okkar atvinnulíf án þessara ráðstafana. Við getum unnið fyrir þeim vörum, sem við þurfum á að halda, og þeim framleiðslutækjum, sem við þurfum að kaupa, með því að auka okkar útflutningsframleiðslu og hagnýta þá markaði, sem opnast, og eigum við ekki að láta pólitíska þröngsýni og stórbokkaskap hindra okkur. Ríkisstj. er að loka þessum möguleika. Og samtímis er hún að gera okkur enn háðari Bandaríkjunum. Ennfremur er hún að rífa grundvöllinn undan þeirri byggingu, sem hún þykist sjálf vera að byggja frammi fyrir þjóðinni með svokallaðri fjögurra ára áætlun.

Eftirtektarvert er það, að þegar hæstv. viðskmrh. var að telja upp, hvar við ættum að kaupa hin og þessi framleiðslutæki, talaði hann mest um Bandaríkin og Vestur-Evrópu. Það var eins og það væri útilokað að verzla á stærsta markaði okkar á undanförnum árum, eins og t. d. Tékkóslóvakíu.. Ég hef áður bent ríkisstj. á, að eitt af því, sem Tékkóslóvakar eru sérstaklega færir um, er að útbúa vélar eins og sementsverksmiðjur. Lönd, sem þannig eru tæknilega vel undirbúin, geta keppt við Bandaríkin hvað snertir framleiðslu vélasamstæðna, sem aðeins eru steyptar einu sinni, þó að þau geti ekki keppt við stóriðju Vesturheims hvað snertir fjöldaframleiðslu véla, og var því fullkomin ástæða fyrir okkur að gera ráð fyrir að kaupa okkur slíkar vélar á mörkuðum, sem við erum nýbúnir að vinna. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir af sinni ræðu.) Ég á að vísu nokkuð eftir, en skal stytta mál mitt, svo að ræðunni verði lokið á svo sem 5 mínútum, heldur en fundi verði frestað og ræðan þannig slitin sundur. — Ég tek eftir því, að af hálfu hæstv. ríkisstj. er ekki gert ráð fyrir að hagnýta þá markaði, sem við höfum unnið. Hraðfrysta fiskinn var hægt að selja í Tékkóslóvakiu fyrir ábyrgðarverð, en aðeins fyrir helming ábyrgðarverðsins í Bandaríkjunum, — þótt þeir kannske borgi eitthvað meira fyrir hann núna, þegar þeir fá hann raunverulega sem gjöf, — en verksmiðjurnar eru álíka dýrar í Tékkóslóvakíu og Bandaríkjunum, þannig að ef við verzluðum við Tékkóslóvakíu, þýddi það raunverulega, að við fengjum ábyrgðarverð í dollurum fyrir fiskinn. Þetta verðum við að gera okkur ljóst, og við megum aldrei láta það henda okkur að láta pólitíska þröngsýni hvika okkur frá því að tryggja sem bezt okkar eigin hagsmuni. Ég vildi einnig benda hæstv. ráðh. á niðurstöður efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, en formaður þeirrar nefndar er Gunnar Myrdal, fyrrv. verzlunar- og viðskiptamálaráðherra Svía, sem er álitinn einhver fróðasti maður um efnahagsmál Evrópu. En í áliti þessar nefndar er lögð áherzla á, að það beri að auka viðskiptin milli Austur- og Vestur-Evrópu, ef efnahagur Vestur-Evrópu eigi að vera blómlegur í framtíðinni. Ég minni hæstv. ríkisstj. á að kynna sér þetta rækilega, áður en hún rígbindur sig við Bandaríkin með Marshallaðstoðinni og eyðileggur um leið þann velmegunargrundvöll, sem hún þykist vera að skapa með sinni verzlunarpólitík.

Ég mun ekki að þessu sinni ræða þá stefnu, sem ég tel, að við Íslendingar eigum að taka í verzlunarmálunum. Ég geymi það til síðari tíma, og e. t. v. leggur hæstv. ríkisstj. 4 ára áætlun sína fyrir þingið á sérstöku plaggi, og gefst þá tækifæri til að ræða þetta nánar. En út frá þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. gáfu hér í gær, þá vildi ég óska þess, að hv. þm. stingi við fótum og rannsaki málin til hlítar og geri sér ljósa þá ábyrgð, sem þeir bera gagnvart þjóðinni, því að þær ákvarðanir, sem við tökum núna, munu að líkindum skera úr um afkomuöryggi okkar næstu áratugi, og láti ekki afstöðu sína mótast af pólitískri þröngsýni. Við verðum að gera okkur ljósa ábyrgðina, sem á okkur hvílir um að tryggja atvinnuöryggi þjóðarinnar í framtíðinni. Mér virðist hæstv. ríkisstj. ekkert hafa gert til þess. Allt hennar starf er hjóm og út í bláinn og það er okkar hlutverk að bæta hér úr. Og hæstv. ríkisstj. hefur eytt of löngum tíma í ekki neitt. Því má það ekki seinna vera, að Alþingi láti til sin taka, ef það vill forða þjóðinni frá því öngþveiti — mér liggur við að segja algerðu gjaldþroti, sem blasir við, ef fylgt er stefnu hæstv. ríkisstj.