21.10.1948
Sameinað þing: 6. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (2885)

Marshallaðstoðin

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Undanfarna daga hafa farið fram hér merkilegar umræður um merkilegt mál. Í þeim umr. hefur glögglega komið fram sá munur, sem skiptir ekki aðeins stórþjóðum heimsins í tvær andstæðar fylkingar, heldur skiptir og okkar litla þjóðfélagi í tvennt. Hér er barizt um það, hvort gilda skuli á Íslandi austræn kúgun eða vestrænt frelsi.

Þetta mál er þriðja stórmálið, sem komið hefur fyrir Alþingi á síðari árum og snertir þjóðina í heild. Fyrst var lýðveldisstofnunin 1944. Í öðru lagi tilboð um varnir landsins, sem kom sérstaklega til greina 1946. Í þriðja lagi er Marshallsamstarfið, sem varðar atvinnusjálfstæði Íslands og framtíð þjóðarinnar um ófyrirsjáanlegan tíma. Þetta eru mikilvægustu málin, sem Alþ. hefur haft til meðferðar síðan stríðið hófst.

Eftir að hæstv. viðskmrh. flutti ræðu sína í fyrradag, mættust tveir merkir menn hér í bænum og tóku tal saman um ræðuna. Annar þeirra sagði: „Nú er allt glatað, fjárhagslegt sjálfstæði og framtíð þjóðarinnar. Íslandi verður ekki bjargað úr þessu, nema ef brátt byrjar heimsstríð. Þá koma Rússar hingað og setja á stofn deild í Sovét“. Hinn maðurinn sagði: „Hér er á ferðinni hagnýt framkvæmd á hinum djörfu skáldadraumum Einars Benediktssonar um síðustu aldamót. Hann vildi flytja inn fjármagn í stríðum straumum til að ummynda náttúrugæði landsins“. — Þessi tvö ólíku sjónarmið sýna glögglega viðhorf þjóðarinnar. Nokkrir menn líta svo á að framtíð Íslendinga. atvinnusjálfstæði og stjórnarfarslegt öryggi byggist á því, að Ísland verði deild af Sovét. En meiri hluti íslenzku þjóðarinnar vil sízt af öllu drukkna í hafi bolsévísmans, en kýs sér samstarf við vestrænu lýðræðisþjóðirnar í Evrópu og Ameríku. Hér er um að ræða kapphlaup kommúnista við borgarastefnuna. Fyrir Íslendinga er höfuðatriði að átta sig á þessum straumum og dæma réttilega um styrk og veikleika andstæðinganna til að geta sigrað þá.

Það verður að segjast eins og það er, að kommúnistar hafa sett sinn svip á landspólitíkina síðan 1942, þótt þeir séu í miklum minni hluta. Þeim hefur orðið mikið ágengt, og þeir hafa unnið mikla sigra, sem rétt er, að andstæðingar þeirra geri sér grein fyrir og viðurkenni. En ef litið er á allar aðstæður og spurt, hvers vegna kommúnistar hafi oft og tíðum sigrað borgarana, þá er ljóst, að sigrar þeirra spretta af föstu skipulagi, hörðum aga og mjög verulegum fjárstuðningi erlendis frá. Það er talið, að kommúnistar í lýðræðislöndum fái gjafir erlendis frá til að mæta um 95% af útgjöldum sínum. Hugsjón þeirra er hin sama og Sverris konungs, og það er auðveldara að vinna henni fylgi, en flestum öðrum hugsjónum. Hugsjón Sverris er sú, að sá, sem fellir lendan mann, hertoga eða höld, erfir þann dauða. Þessi hugsjón er ávísun á eignir, líf og metorð annarra. Hins vegar kom það seinna fram og er sorglegasti þátturinn í sögu Noregs, að þegar frá leið valdadögum Sverris konungs, hrundi Noregur í rústir eins og spilaborg. Blóðtakan reyndist of mikil. Þegar búið var að höggva niður máttarviði þjóðfélagsins, hrundi hásætið einnig. Landið komst undir Danakonung, og þjóðin var kúguð og þrautpínd í margar aldir. Sú hugsjón, að taka með ofbeldi eignir annarra, á meira og minna fylgi að fagna í öllum löndum, en þó helzt þar, sem menn éta hungurbrauð. Þar, sem þjóðir búa við frelsi og velgengni er, hverfur kommúnisminn eins og dögg fyrir sólu.

Borgaraflokkarnir íslenzku hafa beðið marga ósigra í skiptum sínum við kommúnista á undanförnum árum, en upp á síðkastið hafa þeir þó haldið velli, og liggja til þess þrenn rök. Í fyrsta lagi þau, að þeir hafa betri málstað og mikill meiri hluti þjóðarinnar stendur að baki þeim, og í öðru lagi þau, að borgararnir hafa borið gæfu til nokkurrar samvinnu. Kommúnistar unnu sinn fyrsta stórsigur 1942, er þjóðstjórnin var rofin og þeim tókst að sundra borgaraflokkunum. Þá héldu leiðtogar borgaraflokkanna, að þeir gætu átt samleið með kommúnistum og gert við þá bandalag um þingstjórnarmálefni. Þetta sama sumar fengu kommúnistar stórkostlegt tækifæri til að auka dýrtíðina með skefjalausum skæruhernaði. Það þarf ekki annað en minna á eitt dæmi. Kommúnistar veittu þáverandi stjórn stuðning, en engu að síður létu þeir skip, sem kom með efni til hitaveitunnar, bíða svo lengi uppskipunar, að tilviljun ein réð því, að það sigldi ekki aftur vestur um haf óafgreitt. Önnur dæmi um skefjalausan ofsa í verklýðsmálum voru daglegt brauð þá um sumarið. Þetta hefði átt aðsýna borgurunum áþreifanlega, hvílíkt djúp var staðfest milli þeirra og kommúnista, en þeir aðgættu ekki hættuna. Hefur mikil ógæfa hlotizt af sundrung og auðtryggni borgaraflokkanna. Á þennan hátt myndaðist hin ægilega dýrtíð í landinu, og nú er svo komið, að margar nauðsynjar eru þrisvar til fjórum sinnum dýrari hér, en í nágrannalöndunum, og hefur það komið fram á sorglegan hátt að undanförnu.

Næsti stórsigur kommúnista var þjóðnýting útvegsins, sem hófst undir stjórn Áka Jakobssonar 1945 og hefur varað við síðan. Ég þarf ekki að lýsa því, hvílíkur ósigur þetta er fyrir borgaraflokkana, þegar svo er komið, að sá atvinnuvegur, sem skapar útflutningsverðmætin, getur ekki staðizt nema með tugmilljónastyrk úr ríkissjóði, sem ríkið borgar með fiskinum á erlendum markaði. Hér er um að ræða þjóðnýtingu af verstu tegund, þar sem tapið eitt er þjóðnýtt, en ef hagnaður er af sölunni, fær ríkið ekkert af honum.

Skömmu eftir að þessi upplausn var komin í algleyming, tókst kommúnistum að hafa úrslitaáhrif á það, hvernig innstæðum þjóðarinnar frá stríðsárunum yrði varið. Og þótt nokkrum hluta af þessum innstæðum væri vel varið, hurfu þær fljótt og með óskiljanlegum hætti. Eftir nokkur missiri var þjóðin komin í stórkostleg gjaldeyrisvandræði, og nú er svo komið, að búðir landsmanna standa að mestu leyti tómar. Segja verður verzlunarfólki upp vinnu, og vöntun er á fjölmörgum af hinum allra nauðsynlegustu vörum, sem aldrei gengu þó til þurrðar á erfiðleikaárunum fyrir 1939. Það vantar jafnauðfengnar, ódýrar og nauðsynlegar vörur eins og tölur. Í sumum kaupstöðum úti um land eru negldar fjalir fyrir búðarglugga vegna glerskorts. Það þarf ekki annað en athuga þessa undarlegu fátækt og bera hana saman við hinn undarlega auð stríðsáranna, sem nú er horfinn, til að sjá, að hér er ekki allt með felldu. En kommúnistar hafa ekki villt á sér heimildir. Með þessari óhemjulegu eyðslu hafa þeir aðeins unnið það, sem var yfirlýst stefna kommúnistaflokksins. Þeir hafa stofnað til pólitískra verkfalla, bæði fyrr og í tíð núverandi stjórnar, og náð góðum árangri á sinn mælikvarða. Kommúnistar leika nú í Frakklandi sama leik, er þeir hleypa vatni ofan í námurnar og eyðilegga atvinnulíf þjóðarinnar og ótalin verðmæti. Á þessum velgengnisárum tókst kommúnistum að koma þeirri trú inn hjá fjölda manna, að ekki væri hægt að stjórna án þeirra, hvorki ríkinu né bæjarfélögum. Mitt í þessari sigurvímu þeirra kom það fyrir Alþ. 1946 að skera úr, hvort Ísland ætti að vera vel varið eða varnarlaust. Kommúnistar tóku þá afstöðu, að landið skyldi vera varnarlaust, svo að það gæti átt von á sömu forlögum og Eystrasaltslöndin. Ekki er hægt að áfellast íslenzka kommúnista fyrir þetta. Þeir voru sjálfum sér samkvæmir, þeir eru fimmta herdeild í þjónustu erlendra valdhafa. En borgarana verður að áfellast, sem ekki gerðu sér ljóst, hvert stefndi. Þessi sigur kommúnista 1946 gerir það að verkum, að allar nágrannaþjóðir eru nú hræddar við Ísland, sem er opið og varnarlaust, hræddar um, að landið verði tekið og notað sem virki gegn þeim. Norska skáldið Överland sagði, að þegar búið væri að taka Ísland, sem er varnarlaust, væri Noregi, Danmörku, Englandi og Bandaríkjunum hætta búin. Ef einræðisstórveldi tekur landið, getur farið svo, að sá atburður ráði úrslitum um það, hvort austræn kúgun eða vestrænt frelsi verður ofan á í heiminum. Sumir menn á Norðurlöndum eiga raunar skilið að vera hræddir. Ýmsir valdamenn í þessum löndum beittu áhrifum sínum 1948 í þá átt að letja þess, að við hefðum tryggar landvarnir, sem stóðu þá til boða. Þá bjuggust þessir norrænu leiðtogar ekki við bráðri hættu úr austri, en nú eru þeir farnir að sjá yfirvofandi og aðsteðjandi hættu. Nú óska þessir sömu menn, að Ísland hefði tryggar varnir gegn innrás í heimsófriði. Það er óhjákvæmilegt að skilja baráttuaðferðir og ráðagerðir kommúnista. Takmark þeirra hér, eins og í öðrum löndum, er að koma á Sovét í stjórnmálum og andlegum efnum og vera algerlega hlýðnir og háðir móðurlandinu. Þetta kemur nú gleggst í ljós í Júgóslavíu. Móðurlandið á að sitja fyrir öllu. Því er rétt að meta andstöðu kommúnista gegn því máli, sem hér er til umræðu, og gefa gaum ákafa þeirra. Hann ber þess ljóst vitni, að þeir líta svo á, að nú sé mikið í húfi, hér sé á ferðinni gífurleg sókn gegn stefnu þeirra. Hin langa ræða hv. 2. þm. Reykv. í gær var áreiðanlega ekki haldin að ófyrirsynju af kommúnista hálfu.

En þrátt fyrir mörg og alvarleg mistök borgaraflokkanna hér á landi hafa kommúnistar ekki unnið alla sigrana og munu væntanlega ekki gera það í framtíðinni. Þegar herferð fimmtu herdeildarinnar hófst, skall bylgjan á Jóni heitnum Baldvinssyni. Hann sagði: „Íslendingar beygja sig aldrei fyrir Moskva, nema hervald beygi þjóðina varnarvana“. Skömmu síðar andaðist Jón Baldvinsson. Nokkur hluti flokksmanna hans vantreysti síðustu ráðleggingum hans og gekk í fimmtu herdeildina. Hinir voru þó fleiri, sem vildu standa á þjóðlegum grundvelli, en létu þó sveigja sig, margir sárnauðugir, inn í samstjórn með Moskvamönnum. Hafa þessi stefnuhvörf lamað Alþfl. svo, að hann hefur ekki sambærilega aðstöðu við bræðraflokka sína á Norðurlöndum, sem aldrei hafa látið ginna sig til samstarfs við bolsévika. En litlu síðar markaði ég sömu stefnu í Framsfl., og þegar samherjar mínir í flokknum 1942 og síðar lögðu áherzlu á að byggja flatsæng með kommúnistum, beitti ég mér eindregið gegn þessari óheillastefnu, með sömu rökum og Jón Baldvinsson. En samherjar mínir létu ginnast og um nokkurra ára skeið stóðu yfir samningaumleitanir við kommúnista, en þeirri tilraun lyktaði á þann veg, að framsóknarmenn náðu ekki samningum. Kommúnistar höfðu aldrei ætlað sér annað en að hafa hina samningafúsu framsóknarmenn að leikfangi. Eftir langa biðilsraun, frá 1942 til 1946, fór svo, að þessir gömlu samstarfsmenn mínir sannfærðust um, að þeim hefði yfirsézt, en að ég hefði haft á réttu að standa. Þeir komu þrekaðir og sigraðir frá kommúnistunum og gengu til samstarfs við borgaraflokkana og mynduðu stjórn með sjálfstæðismönnum, en um þetta atriði hafði staðið deila milli mín og þeirra. Mér var fullljóst, að sjálfstæðismenn voru ekki gallalausir, enda hafði ég um það langa reynslu. En við Jón Baldvinsson vissum, að það, sem aðskilur borgaralegu flokkana, eru smámunir borið saman við það, sem aðskilur kommúnistaflokkinn frá öllum öðrum mönnum. Framsóknarmenn deildu á mig fyrir, að ég skyldi taka hreina afstöðu gegn kommúnistum, en ég get vel unað þeim málalokum. Held ég, að nú sé óhætt að vona, að hinir afvegaleiddu framsóknarmenn séu frelsaðir um alla framtíð frá fyrri villu og frá að verða leiksoppar manna, sem vinna eftir fyrirskipun stjórnarvaldanna austan járntjaldsins.

Í Sjálfstfl. varð vart við eindregna mótstöðu gegn samvinnu við kommúnista frá 5 mönnum haustið 1944, og í þeirra hópi var elzti þm., sem nú á sæti á Alþ., hv. þm. Borgf. (PO). Það er eftirtektarvert, að einmitt þeir þrír þm., sem lengsta reynslu hafa að baki, létu aldrei blekkja sig í þessu efni. Mjög mundi nú vera annar svipur á Alþýðu-, Frams- og Sjálfstfl., ef þeir hefðu fylgt fordæmi okkar Jóns Baldvinssonar og Péturs Ottesens, en ekki dregið lokur frá hurðum til framdráttar hættulegum glæframönnum.

Haustið 1944 gerði Sjálfstfl. þá tilraun, sem Framsfl. hafði svo mjög óskað eftir, að mynduð yrði stjórn með kommúnistum. Þegar ég bar fram vantraust á þessa nýju stjórn, var trúin á kommúnista svo mikil hjá framsóknarmönnum, að þeir sátu hjá við atkvgr. um vantraustið af ótta við, að þeir styggðu kommúnista. Þeir voru ekki alveg vonlausir um samstarf við kommúnista og vildu þess vegna ekki eiga á hættu að særa leiðtogana. Að mér frátöldum greiddu allir þm. atkv. með bolsévikum í ríkisstj. eða sátu hjá. Gat Ólafur Thors ekki kosið á betri móttökur í valdasessinum. Velvild Framsóknar var eftirtektarverð, þar sem flokkurinn hlífði Ólafi Thors við vantrausti. En ekki leið nema stutt stund þangað til leiðtogar Sjálfstfl. fundu, að þeim hafði líka yfirsézt. Þegar þeir héldu fund um nauðsynleg málefni í sinu eigin húsi, réðust kommúnistar inn í húsið og létu ófriðlega. Ef leiðtogar sjálfstæðismanna hefðu ekki tekið þessu ofbeldi með mikilli stillingu og beðið flokksmenn sína að gæta hófs og ráðast ekki í að hrinda þeim ofbeldismönnum út með valdi, mundi ekki hafa orðið sneitt hjá stóróhöppum. Það var því vegna stillingar leiðtoga sjálfstæðismanna, að ekki varð af meiðingum og manntjóni. Þegar svo þessum fundi var lokið, veittu kommúnistar leiðtogum sjálfstæðismanna eins konar fyrirsát, og lá við borð, að kommúnistar sviptu þá lífi á Austurvelli tvo æðstu valdamenn þjóðarinnar. Þessi atburður er sérstaklega táknrænn um það, að ekki er hægt fyrir lýðræðisflokkana að vinna með kommúnistum eða hafa við þá nokkur mök um félagsframkvæmdir. Ef sjálfstæðismenn hefðu ekki borið gæfu til þess að sigra í flugvallarmálinu, en um það stóð baráttan við kommúnista, þá stæðu ekki þessar umr. yfir hér nú. Þá stæðu Íslendingar nú utan við vestræn mannfélög.

Það hafa orðið margir árekstrar milli leiðtoga kommúnista og borgaraflokkanna hér á Alþingi. Einn hinn eftirminnilegasti var þegar kommúnistar kröfðust þess á útmánuðum 1945, að Ísland segði tveimur stórveldum stríð á hendur. Rússar heimtuðu þetta. Stríðsyfirlýsing Íslendinga átti að verða inngangseyrir að Bandalagi hinna sameinuðu þjóða. Sá orðmargi ræðumaður, sem talaði í gær, hv. 2. þm. Reykv. (EOl), hélt þá langar og þunnar ræður um það, hve óhjákvæmilegt væri og sjálfsagt, að íslenzka þjóðin færi í stríð við Þýzkaland og Japan. Hv. þm. lýsti því með mörgum orðum, hvílík fullsæla og hamingja fylgdi því að vera í Bandalagi hinna sameinuðu þjóða og hvílík eyðilegging og útskúfun það væri að vera utan við bandalagið. Ekki má gleyma því, að 1918 var sett í stjórnarlög landsins, að Íslendingar vildu engin vopn hafa. Ef fylgt hefði verið ráðum kommúnista og þessum stórveldum sagt stríð á hendur, þegar þau voru að gefast upp, mundi slíkt framferði frá hálfu hlutlausrar og vopnlausrar þjóðar hafa sett varanlegan smánarblett á íslenzku þjóðina um allar ókomnar aldir. Sýnir þetta dæmi, að það má aldrei trúa kommúnistum né fylgja ráðum þeirra.

Rússar vissu, að ekki mundi vera hægt að knýja fram sem skilyrði fyrir þátttöku í félagi hinna Sameinuðu þjóða, að þær hefðu allar verið í stríði við Þýzkaland og Japan. Létu þeir þar við sitja, því að í þeirra augum var ákvæðið um neitunarvaldið meginatriðið, enda hafa þeir leikið sér bæði ósæmilega og gálauslega að þeirri jarðsprengju síðan byrjað var á samstarfi Sameinuðu þjóðanna. Neitunarvaldið og krafan um stríðsyfirlýsingu hlutlausrar og vopnlausrar þjóðar sýndi, hvers konar áhrif bolsévikastórveldi mundi hafa á sambúð þjóðanna.

Ofsi kommúnista hér á landi náði hámarki, þegar flokkurinn beitti sér, eftir fyrirlagi frá útlöndum, fyrir því, að Ísland yrði algerlega varnarlaust og neitaði að þiggja vernd Bandaríkjanna. En þegar þetta var fengið, kröfðust kommúnistar og nálega helmingur þm. þess, að Bandaríkin yrðu svo að segja landræk á Íslandi í sambandi við flugsamgöngur við Þýzkaland. Þessir menn lögðu til, að Bandaríkjunum, sem höfðu verndað Ísland í stríðinu, yrði bannað að hafa afnot af þeim flugvelli, sem þeir höfðu byggt í Keflavík, og að þeim yrði sýnd svívirðing og reynt að gera þeim allt sem erfiðast, svo að öllu sambandi yrði slitið við þau. Kommúnistar heimtuðu, að það yrði ekki samið um leigu flugvallarins nema til eins ár í senn og ef slíkur sáttmáli hefði verið gerður, geta menn gert sér ljóst, hvernig umræður hefðu farið fram á Alþingi hvert ár. Menn muna enn þær ofstækisfullu fullyrðingar um svik og undirferli, sem kommúnistar létu sér þá sæma að viðhafa um stjórn Bandaríkjanna haustið 1945. Við áttum að gleyma, hvað við eigum að þakka Bandaríkjunum og leiðtoga þeirra, Roosevelt forseta. Honum eigum við allra þjóðhöfðingja mest að þakka, að við erum nú sjálfstæð þjóð. Það var hann, sem fyrstur viðurkenndi sjálfstæði okkar, en aðrar þjóðir fylgdu fordæmi hans. Til samanburðar er fróðlegt að athuga, hvernig Norðmönnum gekk 1905 að fá sjálfstæði sitt viðurkennt af stórveldunum. Eftir allt það, sem Bandaríkin höfðu gert fyrir okkur styrjaldarárin, áttum við, að dómi kommúnista, að segja við þau: Við vanþökkum ykkur allt, sem þið hafið gert fyrir okkur. Við ætlum að rífast grimmilega á hverju ári um það, hvort þið fáið að hafa afnot um stundarsakir af því mikla mannvirki, sem þið skiljið eftir hjá okkur. — Ef tekizt hefði að fella mig í Suður-Þingeyjarsýslu 1946, þá hefði það mál, sem um var deilt, verið fellt með jöfnum atkvæðum. Með till. um heimild til Bandaríkjanna til að fá Keflavíkurflugvöllinn til afnota í eitt ár voru 10 kommúnistar, 12 framsóknarmenn og 3 kratar. Hins vegar voru 20 sjálfstæðismenn og 6 kratar. Ég naut þeirrar ánægju að vera oddamaður.

Nú hafa verið raktir sigrar kommúnista. En borgararnir hafa líka unnið sigra. Sá var fyrstur, þegar borgarstjóranum í Rvík, sem nú er hæstv. dómsmrh., tókst að fá borgaralegan meiri hluta í bæjarstjórn gegn kommúnistum. Hafði hann ritað eina góða grein í Morgunblaðið gegn kommúnistum hvern dag í 10 vikur. Eftir þetta hófst undanhald í liði kommúnista.

Næsti sigur var unninn þegar sá maður, sem Jón Baldvinsson gerði að sínum pólitíska erfingja, myndaði þá stj., sem nú situr. Sá maður, sem kommúnistum mun nú vera minnst um gefið, hefur borið gæfu til þess að sameina borgaraflokkana um nýja þjóðstjórn. Héðan af verður aldrei rætt um það, að ekki sé hægt að mynda ríkisstj. án kommúnista á Íslandi og að ekki sé hægt að vinna dagleg störf án þess, að þeir stjórni verkalýðsfélögunum, því að eins og kunnugt er hafa borgaraflokkarnir einnig unnið sigra um yfirstjórn verkalýðsfélaganna. Nú er liðinn sá tími, þegar kommúnistar þóttust hafa hálft landið á valdi sínu og hafa vald til að banna bandarískum flugvélum að koma hér við á leiðinni til Þýzkalands. En í staðinn fyrir þá einangrun þjóðarinnar, sem kommúnistar keppa að, erum við nú að samstarfi við 16 vestrænar þjóðir til að bægja ófriði og hungri frá Vestur-Evrópu. En fyrir kommúnista er hungrið og erfiðleikarnir bezta vopnið. Þegar almenningur er hungraður er auðvelt að benda á, að það sé hægasta leiðin að taka af þeim, sem eitthvað hafa, án tillits til afleiðinga. En þegar þjóðirnar hafa sæmilega afkomu, kemur annað viðhorf. Þá unna menn friði og frelsi og langar ekki til þess að ráðast á aðra menn eða þjóðir. Þess vegna er samhjálparkerfi þjóðanna, sem kennt er við Marshall, stærsta vörn gegn hungri og ófriði. Rússar óska eftir hungri hjá öðrum þjóðum til þess að geta aukið áhrif sín. Frjálsar þjóðir þurfa frið og öryggi til að geta blómgazt. Þátttaka Íslands í samstarfi Marshallríkjanna á að geta bætt atvinnuaðstöðu landsmanna á ókomnum tímum og tryggt frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar. Auk margra annarra kosta mun Marshallféð verða til þess að tengja íslenzka kommúnistaflokkinn við Vesturlönd og stjórnarhætti þeirra. Vil ég nefna eitt dæmi því til sönnunar, og það snertir hv. 2. þm. Reykv. — Fyrsta kvíslin úr Marshallelfunni hefur staðnæmzt í Örfirisey, hinni nýju síldarverksmiðju og tilheyrandi síldarskipi. Það skip og þær vélar hefðu alls ekki komið til landsins nema fyrir samtök hinna 16 þjóða. Þetta er öllum ljóst og einnig hv. 2. þm. Reykv. En þegar Marshallgullið kom til landsins, var hv. 2. þm. Reykv. ekki nógu vel á verði, því að auðvitað varð hann að reyna að rísa á móti því, að Marshallpeningarnir væru notaðir á þennan hátt. Það þurfti að skipa stjórn þessarar verksmiðju, en ef ég hef skilið þau boðorð, sem hv. 2. þm. Reykv. á að fara eftir og hlýða, þá á hann hvorki að ganga í of náið bandalag við íslenzkt né amerískt auðvald, en stærsta auðvaldsfyrirtæki Íslands, Kveldúlfur, er annar aðaleigandi í þessu fyrirtæki, en hinn eigandinn er í raun og veru Marshall sjálfur, því að þaðan eru peningarnir komnir. Og í þessari stjórn er hv. 2. þm. Reykv. Hann situr nú við hliðina á traustum íhaldsmönnum frá Kveldúlfi og fulltrúum Marshall hins vegar og þiggur kaup fyrir vandann og vegsemdina. Ég ætla ekki að dæma hv. 2. þm. Reykv. fyrir þetta, en ég vil benda honum á, að þessi framkoma hans er meir en nóg til þess að skera úr um það, að hans langa ræða í gær var gagnslaus. Það eru fleiri menn með holdi og blóði í kommúnistaflokknum, en hv. 2. þm. Reykv., og það er alveg víst, hvað sem hann og flokkur hans reynir að halda fram, að þá munu samherjar hans sækja fram í þéttum fylkingum til að fá lifibrauð og atvinnu við Marshallfyrirtæki. — Það var í einhverri orrustu, að Friðrik Prússakonungur var að taka hæð og gerði áhlaup móti fallbyssuskothríð Austurríkismanna. Þetta var erfið sókn, en að lokum tók konungur hæðina. En í Marshallorrustunni verður erfitt fyrir kommúnista að sigra, af því að annar aðalleiðtogi flokks þeirra er fallinn í valinn og verður þeim til tafar í sókninni upp á hæðir hlunnindanna. Þar liggur líka hinn kæni prestur, sem er fulltrúi kommúnista í bæjarstjórn, því að hann barðist fyrir að fá þessa ágætu Marshallverksmiðju í Örfirisey.

En það er bezt að taka skýrt fram, að Bandaríkin mundu varla leggja fé sitt í svona framkvæmdir, ef þeim kæmi það ekki sjálfum vel. Bandaríkin vita það, að ef Evrópa er hungruð, þá er hún lítt fær um að verja frelsið. Og þegar öll Evrópa er svipt frelsi og mannréttindum, kemur hættan að dyrum Vestmanna. Þess vegna þurfum við ekki að áfellast samstarfið í Örfirisey. Það er auðséð, að kommúnistaflokkurinn telur sér ekki fært að sækja á móti þessum eldi. Hann telur sér ekki fært að standa við það, sem blað flokksins heldur fram í dag, að við getum gert þessar miklu framkvæmdir einir og án lántaka. Ég vil aðeins benda á það, sem réttilega er tekið fram í kommúnistablaðinu nýlega, að þegar við getum ekki vegna fátæktar fullgert nokkurra kílómetra veg, sem er bráðnauðsynlegur fyrir heilbrigði fólksins í Rvík, þá verður lítið úr öllum hinum glæsilegu framkvæmdum, sem viðskmrh. lýsti í ræðu sinni, ef ekki kemur til skjalanna aðfengið fjármagn.

Ég vil að lokum benda á þrjá þætti í sögu okkar: Við höfum fengið pólitískt frelsi að forminu til, og það er gott, það sem það nær. Við erum varnarlausir og höfum neitað að þiggja hjálp til að koma upp vörnum. Og í þriðja lagi er atvinnulíf þjóðarinnar ákaflega óstöðugt, fyrst og fremst vegna dýrtíðar. Það þarf að eflast og þroskast, og þeirri þróun á það að geta náð fyrir Marshallsamstarfið. Að því er snertir varnarleysi landsins, hlýtur sá þáttur að verða tekinn til meðferðar að nýju. Er aðstaða annarra þjóða í landvarnarmálum orðin allt önnur, en áður var. Vil ég í þeim efnum benda á þróunina í Danmörku og Noregi, sem eru næstu lönd við okkur. Bændur og verkamenn og svo kallaðir frjálslyndir menn vildu hafa litlar hervarnir. En nú er svo komið, að þessir sömu flokkar eru samhuga í því að leggja á stórkostlega skatta í báðum þessum löndum vegna hervarna. Hvers vegna? Vegna þess, að báðar þessar þjóðir hafa reynt, hvað það er að láta einræðisríki hersetja sig. Ég held, að það sé ekki til svo fávís maður utan Íslands, að hann afsaki afstöðu okkar. Kommúnistar mega eiga það, að varnarleysi landsins er skynsamlegt frá þeirra sjónarmiði og út frá þeirra stefnu, en með borgaraflokkana gegnir öðru máli.

Ég vil skjóta því til hæstv. viðskmrh., að hann líti ekki á óskalista sinn sem óbreytanlega stjórnarskrá, heldur sem frumdrög að starfsskrá, þar sem ýmislegt þarf að athuga og umbæta. Mér virðist, að þeir, sem gerðu þessa skrá, hafi ekki lesið það, sem sérfræðingar nýbyggingarráðs hafa gefið út í miklu álitsskjali, að það mætti búast við, að fiskimið okkar tæmdust eftir fimm ár. Og þeir leggja til, að þessi mikla aukning flotans sé gerð til að geta verið með, meðan einhver fiskur er til á miðunum. Það getur því farið svo, að við verðum innan skamms að lifa á einhverju öðru en rányrkju á sjónum og breytum þess vegna óskalistanum í samræmi við það.

Ég vil sérstaklega minna hv. þingheim og hæstv. ráðh. á eitt mál í þessu sambandi, en það er rafmagnsmálið. Hæstv. ráðh. talaði um stórkostlega aukningu Sogs- og Laxárstöðvanna. Það situr ekki á mér sem Reykvíkingi og þm. S-Þ. að mæla á móti stækkun þessara stöðva. En ég vil minna á, að þriðjungur Íslendinga hefur ekkert rafmagn fengið enn, og þó að þessar stöðvar verði stækkaðar, fer ekki nema lítið brot af því til sveitanna. Það er ekki hægt að ganga fram hjá þeirri staðreynd, að það liðu mörg ár frá því, að Sogið og Laxá voru virkjuð, þannig, að aðeins einn sveitabær fékk rafmagn frá hvorri stöð. Það voru þeir bæir, sem höfðu leigt landið til stöðvanna. Af hverju var ekki dreift raforku út um allar næstu byggðir? Af því, að það er svo miklum erfiðleikum bundið að leiða raforkuna til strjálbýlisins. Það er að vísu von til, að eitthvað verði hægt að gera í því efni á næstu árum, en frá hinni nýju virkjun við Andakílsá hygg ég, að ekki fái nema tveir bæir rafmagn. Allt fer til kauptúnanna, Akraness og Borgarness. Við megum ekki blekkja okkur með því, að verði haldið áfram á næstu árum að láta alla rafmagnsaukninguna fara til bæja og kauptúna, en strjálbýlið fær ekki neitt, þá fara byggðirnar í eyði. Ég hef hugsað mér að bera bráðlega fram þáltill., þar sem lögð sé áherzla á, að sveitabæir fái hráolíuvélar til að framleiða rafmagn á hverju heimili, sem ekki er sjáanlegt, að fái rafmagn á næstu árum. Ég vil treysta, að hæstv. viðskmrh. geri þá breyt. á óskalista sínum, að þrjú þúsund smástöðvar fyrir raforkuframleiðslu sveitabæja verði liður í innflutningi samkvæmt Marshallsamstarfinu.

Ef ekki hefði komið til greina fisksalan til Þýzkalands nú í sumar, segja kunnugir menn, að orðið hefðu stórkostlegir erfiðleikar að selja fiskinn úr nýsköpunartogurunum. Þegar ástand átvegsins er svo slæmt, er hættulegt að búa með fullkominni léttúð að sveitunum, heldur verður þvert á móti að haga þjóðarbúskapnum þannig, að byggðin aukist með ræktun og skiptingu jarða. Það hefur margsinnis sýnt sig, að engin þjóð getur leikið þann leik að lifa, eftir að sveitirnar hafa verið farnar í auðn. Tvö glæsilegustu menningarríki fornaldarinnar, Aþena og Róm, visnuðu, eftir að búið var að þurrka upp sveitirnar. Það er einn hlutur, aðeins einn, sem þarf að gera til þess að jafna metin. Sveitirnar verða að fá rafmagn til sinna þarfa. Ég endurtek ósk um þetta til hæstv. viðskmrh. að hafa þetta í huga, þegar hann fer að endurskoða hina ýmsu þætti í þessari framkvæmdagerð hæstv. stjórnar.