26.10.1948
Sameinað þing: 8. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2036 í B-deild Alþingistíðinda. (2896)

Marshallaðstoðin

Einar Olgeirsson [Frh.]:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni, að Evrópa skiptist í tvennt um Marshallaðstoðina. Hann gleymdi því í sambandi að koma inn á það, sem ég minntist á í fyrri ræðu minni, að Evrópa hefur verið ein heild um hjálp við þær þjóðir, sem verst hafa orðið úti í stríðinu. Hann gleymdi að geta þess, að gegn vilja allra Sameinuðu þjóðanna, vestrænna og austrænna, afnámu Bandaríkin UNNRA og móti vilja formanns UNNRA, í þeim tilgangi, að ekki yrði haldið áfram viðreisnarstarfseminni á mannúðar- og jafnréttisgrundvelli, heldur skapað skipulag, þar sem Bandaríkin kæmu sínum pólitísku áformum fram. Og það er Marshallhjálpin.

Þá kom hæstv. forsrh. inn á, að löndin skiptust pólitískt með og móti Marshallaðstoðinni, annars vegar væru kommúnistar á móti, en hins vegar væru allir aðrir flokkar með. Þetta er rangt. Það hefur að vísu tekizt fyrir Bandaríkin að fylkja mörgum borgaraflokkum með þessu kúgunarskipulagi sínu. En engu að síður er rétt að minna á, að þetta hefur ekki tekizt með alla. Ég vil, vegna þess að hæstv. forsrh. er mikill vinur Svía, minna hann á, að Branting senator, sonur gamla Brantings, lagðist mjög á móti Marshallaðstoðinni og varaði þjóð sína eindregið við að taka þátt í henni. Í Englandi hefur Beaverbrock lávarður blaðakóngur beitt blaðakosti sínum móti Marshallaðstoðinni, af því að hann álítur hana undirgefni undir amerísku auðmannastéttina.

Þá kom hæstv. forsrh. inn á, að það væri ekki allt auðmannastéttir í Bandaríkjunum, sem væru með Marshallaðstoðinni, heldur væru það vinstri öflin í Bandaríkjunum, verkamannastéttirnar, sem fylgdu henni fram. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh.: Hverjir eru það, sem hafa sett l. þar og stjórna framkvæmdum þar? Frá því að Roosevelt dó, hefur orðið sú breyting á stjórn Bandaríkjanna, að Wallace og aðrir slíkir ráðherrar hafa verið settir frá. Og hverjir hafa komið í staðinn? Forstjórar auðhringanna í Bandaríkjunum og bankastjórar í stærstu bönkunum, svo sem Harriman bankastjóri og Hoffmann, einn af voldugustu bílakóngum Ameríku. Hæstv. forsrh. veit vel, hvernig fór, þegar sósíalistaflokksstjórnin í Englandi tók milljarðalánið. Auðhringarnir amerísku hækkuðu vöruverðið. Hvað nam það miklu? Verðhækkunin, sem amerísku auðhringarnir framkvæmdu, svipti þessa peninga 1/3 af verðgildi þeirra. Þessi aðstoð hefur verið notuð af auðhringunum amerísku til að græða vægðarlaust á þessari þjóð, sem aðstoðina hefur fengið.

Þá talaði hæstv. forsrh. um, að kommúnistisku öflin vildu ekki viðreisn. Ég kann illa við svona barnaleg rök. Það er hægt að deila án þess að gripa til svona aumingjalegra raka. Ég býst við, að hæstv. forsrh. sé ekki svo ókunnugur því, sem gerist í Evrópu, að hann viti ekki, að þar, sem kommúnistar og sósíalistar ráða, hefur viðreisnin gengið svo ört, að ráðherrar ensku stj. hafa ekki getað annað en dáðst að því, t. d. uppbyggingunni í Póllandi sem var mjög illa leikið. Hún hefur gengið örar í þessum löndum, þar sem engin Ameríkuhjálp hefur komið til, og þó hafa þau lönd orðið miklu verr úti, en í Vestur-Evrópu. Það er kjánalegt að koma með þau rök, að alþýðustéttirnar vilji ekki viðreisn. Og að því er snertir hér heima, þá var hann að koma að því, að Sósfl. vildi enga viðreisn. Ég hélt, að það væri úrelt að koma með slíkar „röksemdir“. Allra sízt ættu þeir að koma með slíkt, sem börðust á móti því, að Sósfl. tækist að gera samkomulag við Sjálfstfl. um nýsköpun atvinnuveganna. Hæstv. forsrh. ætti sízt allra að minnast á slíkt, hann, sem barðist á móti því eins og hann gat í flokki sínum, að nýsköpunarstj. væri mynduð. Hann spillti fyrir því eftir megni, að sú mikla viðreisn, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, gæti tekizt.

Hæstv. forsrh. vill gefa í skyn, að allt atvinnulíf á Íslandi byggist á Marshallhjálpinni, en hann hefur haft jafnlítið við það sem aðrir ráðh. að sanna það. Honum hefur ekki tekizt að færa fram sannanir fyrir, að svo væri, en vitanlega eru þessar fullyrðingar endurteknar í blöðum stj. án þess að reyna að færa fram rök. Nei, við Íslendingar getum byggt upp atvinnulíf okkar án þessarar hjálpar. Við getum fengið lán til áframhalds viðreisnarinnar án þess að sækja það til Marshallaðstoðarinnar. En hæstv. stj. hefur unnið slælega að því, ef ekki sviksamlega, að útvega slík lán, og það er ekki hægt að fá hana til að upplýsa,, hvort hún hafi þar snúið sér til þess sjálfsagða aðila, alþjóðabankans, sem þjóðin á 2 millj. dollara í.

Hæstv. forsrh. hefur mjög gaman af að beita mikið tilvitnunum, og það er þá bezt, fyrst hann vill, að fara inn á það og svara í sömu mynt og vitna í ummæli erlendra blaða um Marshalláætlunina. Ég veit, að hæstv. forsrh. metur mikils reynslu Norðurlanda, og ætla ég því að lofa honum að heyra, hvað Danir segja um þetta mál og getur það þá verið honum til glöggvunar, þegar hann er að þylja upp trúarjátningu sína við Marshallaðstoðina.

Dönsk blöð lýsa því, hvernig Marshallúthlutunin hafi verið fyrsta árið. Þau segja, að Danir hafi fengið vörur fyrir 511 millj. kr., sem þeir hefðu vel getað komizt af án, en hafi fengið vörur, sem þeir þurftu til uppbyggingarinnar, fyrir 118 millj. kr.

Svíþjóð hefur fengið á einu ári vörur fyrir 28,4 millj. dollara, og þar af hafa þeir keypt bíla fyrir 6,9 millj. kr. Menn sjá af þessu, hver á að ráða skömmtuninni, þegar Svíar verða að flytja inn bíla fyrir stórfé. Aftur á móti hefur Svíum verið neitað um ýmsar vörur, sem þeir hafa lagt mikið upp úr að fá, t. d. skipastál, sem þeim var neitað um.

Berlingske Aftenavis segir svo um Marshalláætlunina, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Marshalláætluninni fylgir óaðskiljanlegur skuggi hennar: hættan á atvinnuleysi. Það kemur af hráefnaskortinum. Það er ekki gert ráð fyrir vissum hráefnum í Marshalláætluninni. USA getur veitt dollara, en ekki vissar hráefnategundir. Atvinnuleysið vofir sérstaklega yfir Belgíu. Belgísku iðjuhöldarnir segja, að það verði að gerast kraftaverk, ef Belgía eigi að komast hjá verulegu atvinnuleysi. Það er talað um 1 milljón atvinnuleysingja, og það í landi með 8 milljónir íbúa. Í Frakklandi er atvinnuleysið orðið tilfinnanlegt, og er það því eftirtektarverðara sem Frakkland varð fyrir skömmu að fá vinnuafl frá Ítalíu og Þýzkalandi.“

Þetta er lýsing í dönsku íhaldsblaði meira að segja, hvernig atvinnuleysi hlýtur að breiðast út í Belgíu og Frakklandi. Síðan er því lýst, hvernig Bandaríkin í krafti Marshallaðstoðarinnar skipa Frakklandi að loka sínum iðnaði. Bílasmiðjurnar í Ítalíu eru nú svo að segja stöðvaðar. Fyrir þremur mánuðum var lokað þremur bílasmiðjum í Vestur-Þýzkalandi. Það er engin tilviljun, að bílasmiðjunum er lokað einna fyrst. Hoffmann, framkvæmdastjóri Marshalláætlunarinnar, er sérstaklega fulltrúi fyrir bílaiðnaðinn í Bandaríkjunum. Bílaframleiðsla Ameríku er sú atvinnugrein, sem er viðkvæmust fyrir kreppum. Það er eðlilegt, að ef fjárráð manna minnka mikið, þá komi það einna fyrst fram á bílakaupunum. Það er eitt fyrsta kreppumerkið í auðvaldsskipulaginu, að menn treysta sér ekki til að kaupa bíla. Þess vegna gera Bandaríkjamenn þarna þær ráðstafanir, að bílasmiðjum sé lokað í Marshalllöndunum. Þannig á að fórna bílaframleiðslu Evrópu fyrir hinar miklu bílaverksmiðjur í Bandaríkjunum. Svo er verið að reyna að telja okkur trú um, að auðhringar Bandaríkjanna fari hér ekki eftir verzlunarlegum hagsmunum sínum.

Þá væri ekki úr vegi að lofa hæstv. forsrh. að heyra, hvað Tyrkir segja um Marshalláætlunina. Aðalblað tyrknesku stjórnarinnar „Cumhuriyet“ segir svo í marzlok, með leyfi hæstv. forseta: „Tóbaksframleiðsla okkar eins og allt atvinnulíf landsins færist óðfluga nær kreppu, sem erfitt er að sigrast á, af því að Bandaríkin veita tóbaksiðnaði okkar ægilegt högg með því að flytja ódýrt Virginíutóbak inn í Evrópu undir yfirskini Marshalláætlunarinnar og banna innflutning tyrknesks tóbaks til Þýzkalands, en þannig verður þessi ráðstöfun áfall fyrir allt atvinnulíf okkar.“ Þetta segir þetta tyrkneska stjórnarblað og minnir um leið á hið mikla starf, sem þetta vestræna lýðræðisríki hafi innt af hendi í baráttunni gegn kommúnismanum. Það er ekki nema rétt, þegar hæstv. stj. stingur höfðinu niður í sandinn, að hv. þm. fái að heyra, hvað stjórnarblöðin segja í þeim löndum, þar sem Marshallskipulagið er komið á.

Þá vil ég gefa hæstv. ráðh. svolítið sýnishorn af því, hvað Bandaríkjamenn segja sjálfir um þetta skipulag.

Bandaríska tímaritið „United States News and World Report“ birti 27. febr. grein, sem heitir: „Hvað fá Bandaríkin fyrir hjálp sína til útlanda“. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Framkvæmdastjóri áætlunarinnar verður að vera raunverulegur forstjóri heimsviðskiptanna. Hann fær aðstöðu til að segja t. d. Frakklandi, hvort eigi að endurbyggja járnbrautirnar þar í landi eða bæta þjóðvegina. Hann getur ákveðið, hvort auka skuli vélanotkun landbúnaðarins. Hann mun ákveða, hvort Ruhr eða Bretland ganga fyrir að fá kolanámuvélar. Og hann mun stöðva dollarastrauminn alveg, ef einhver lönd halda ekki skilyrði hans. Heimsviðskiptin munu verða fyrir áhrifum af ákvörðunum framkvæmdastjórans. Hann mun fá vald til að afráða, hvort timbur skuli keypt frá Finnlandi, Svíþjóð eða Kanada, hvort bandarískt eða kanadískt hveiti skuli hafa forréttindi við dollarakaup, hvort Brasilía eða Bandaríkin eigi að selja evrópskum vefnaðariðnaði bómull.“

Þetta eru orð þessa Bandaríkjablaðs. Þeir eru ekki myrkir í máli, Bandaríkjamenn sjálfir, þegar þeir ræða um þessi mál. — Ég vil í sambandi við það, sem ráðherrar okkar hafa sagt hérna, að Bandaríkjamenn séu lausir við eiginhagsmunasjónarmið, skora á ríkisstj. að segja Alþ. um það, hvort það sé skilyrði eða ekki af hálfu Bandaríkjanna, hvort Bandaríkin ráði, hvert vörur þær séu seldar, sem framleiddar eru með þeim vélum, sem þannig eru til orðnar, ef við t. d. byggðum áburðarverksmiðju fyrir gjafafé. Ég skora á hæstv. ríkisstj. að upplýsa svona mál fyrir þm. Ég hef gert það og vitnað í lög og ákvarðanir Bandaríkjaþings, en ríkisstj. treystir sér ekki einu sinni til að ræða málið.

Út af því, sem hv. 1. þm. Reykv. talaði um áburðarverksmiðju, að hún yrði að geta staðizt samkeppni, þá vil ég minna á þann hlut, að Bandaríkin áskilja sér samkvæmt Marshalláætluninni yfirráð yfir verzlun með þær afurðir, sem framleiddar eru með þessum tækjum. Bandaríkjastjórn áskilur sér og að ráða því, hvers konar rekstrarfyrirkomulag sé haft í viðkomandi landi, þegar verið er að stofna til rekstrar á grundvelli Marshallaðstoðarinnar. E. t. v. kemur það einstökum mönnum vel, að reynt sé að dylja þetta, hvort Bandaríkin geti skipt sér af þessu. En það er bezt, að þm. gangi ekki gruflandi að þeim hlutum.

Við höfum gengið út frá því í sambandi við áætlun um áburðarverksmiðju, sem komið yrði upp, að það væri ríkið, sem ræki hana. Vill hæstv. ríkisstj. upplýsa, hvort þeir samningar, sem hún hefur gert við Bandaríkin, séu þannig, að Bandaríkjafulltrúi geti sagt við Íslendinga: Við skulum styðja ykkur í að koma upp áburðarverksmiðju, ef það eru einstaklingar, sem eiga hana, en ekki, ef það er S. Í. S. eða önnur slík fyrirtæki? Ég skora á hæstv. ríkisstj. að gefa upplýsingar um þetta.

Ég vil skýra frá því, hvað Hoffmann segir 14. maí í vor: „If a plan came to us asking for dollars to modernize the steel industry and the British Government announced a nationalization scheme for that industry help might have to be denied“. Það er að segja: Ef komið væri til okkar með áætlun og við beðnir um dollara til þess að færa stáliðnaðinn í nýtízku horf, og ef brezka ríkisstjórnin tilkynnti um þjóðnýtingu á þeim iðnaði, gæti farið svo, að við yrðum að neita um hjálp. — Það er vitað, að Bevin lýsti því yfir fyrir nokkru, að Bretar mundu láta þjóðnýta iðnaðinn í Ruhr. En nú er brezka stjórnin raunverulega búin að afhenda stóriðnaðinn í Ruhr í hendur þýzku og amerísku auðvaldi. Með öðrum orðum, ameríska stjórnin neyddi brezku ríkisstj. til þess að hætta við þjóðnýtingu á stóriðju í Ruhr og hefur komið henni í hendur þýzkra og amerískra auðhringa. Og svo er verið að halda því fram, að þær stjórnir, sem ganga undir svona skilmála, séu sjálfstæðar stjórnir, — stjórnir, sem þora ekki að framkvæma sín efnahagslegu grógrömm vegna yfirdrottnunarstefnu hins ameríska auðvalds. Og svo er verið að breiða blæju bróðurþels og mannkærleika yfir allar þessar svívirðingar!

Svo segir forsrh., að það séu vinstri kraftarnir í Bandaríkjunum, verkalýðssamtökin, sem Bandaríkjaþing nýlega er búið að gera svívirðilegar ráðstafanir til að fjötra, sem ráði Marshalláætluninni. Hann vildi jafnvel gefa til kynna, að það væru sósíalistískir kraftar, sem kæmu þar til greina. Ég vil lofa hæstv. forsrh. að heyra það, sem bandaríska blaðið ,,U. S. Information Service“ segir um þetta mál 6. apríl í vor, en þar segir svo: „Encouragement of american private capital investment in Western Europe is in accordance with a principal and objective end of the american aid programme. The U. S. Government is pursuing a policy og encouraging private American capital to take the place — if not wholly, at least partially — of direct U. S. Government assistanee.“ Eða þýtt á íslenzku: Það er í samræmi við takmark hinnar amerísku hjálparstefnu að ýta undir amerískt einkaauðmagn í því að frysta fé sitt í Vestur-Evrópu. Stjórn Bandaríkjanna framkvæmir þá pólitík að reyna að fá amerískt einkaauðmagn til þess að koma, ef ekki að öllu leyti, þá að minnsta kosti að nokkru leyti í staðinn fyrir aðstoð Bandaríkjastjórnar. — Með öðrum orðum, það er margviðurkennt af opinberum málgögnum Bandaríkjastjórnar sjálfrar, að það sé einkafjármagnið ameríska, sem allra mest eigi að hafa með samninga að gera við hin einstöku ríki, og ameríska stjórnin ýti undir þetta. Hérna heima vitum við, hvernig það hefur verið undanfarið, að sú auðmannastétt, sem hér hefur risið upp, hefur haft mjög mikla andúð á fyrirtækjum ríkisins. Og við sjáum það í sambandi við fiskiðjuver ríkisins, hvernig ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að taka það úr eigu ríkisins og selja einstökum auðmönnum, því að þetta hefur reynzt gott, og arðvænlegt fyrirtæki. Þegar nú Marshallhjálp ríkisstj. kæmi þarna til aðstoðar, býst ég við, að þessi tilhneiging mundi aukast um allan helming. Ef svo þetta lag kæmist á hér á landi, með aðstoð Bandaríkjanna, að einstakir auðmenn kæmust yfir fyrirtæki í eigu ríkisins; og ef einhver stjórn á Íslandi væri eindregið á móti slíku og vildi ekki þola það - ég er ekki að drótta því að stjórn þessa hæstv. forsrh, að hún yrði óþæg í þessum efnum, en ef hér sæti slík stjórn, þá eru Bandaríkjamenn nú þegar víða búnir að steypa slíkum stjórnum. Í viðurkenndu blaði í Bandaríkjunum stendur: „We are already in the business of breaking and making foreign governments.“ Eða á íslenzku: Við erum nú þegar farnir að steypa erlendum stjórnum og mynda erlendar stjórnir. Bandaríkjamenn viðurkenna ósmeykir, að með Marshallaðstoðinni séu þeir að fyrirskipa viðkomandi þjóðum, hvers konar skipulag eigi að vera á atvinnurekstri þeirra, og vilji stjórnirnar ekki hlýða slíku, láta Bandaríkjamenn þessar stjórnir fara frá og setja nýjar í staðinn. — Hoffmann sagði, þegar hann 13. maí mætti fyrir fjárhagsnefnd öldungadeildarinnar: „Við erum eins og bankastjóri. Við getum sagt, að við viljum ekki láta okkar dollara, ef þér gerið ekki þetta og þetta.“

Nei, að vera að prédika yfir okkur, að það sé hugsjónaást af Bandaríkjunum að gera þetta! Ég veit ekki, hvort það er sjálfsblekking af ráðh. að gera þetta. En sú ósvífni að reyna að telja almenningi trú um, að þetta sé af hugsjónaást, hún er dæmalaus. Framkvæmdastjóri Marshalláætlunarinnar og allir, sem um þetta mál fjalla og skrifa, fara ekki í launkofa með það; hvað þeir ætla sér með þessari áætlun. Það, sem þeir framkvæma með henni, eru efnahagsleg yfirráð Bandaríkjanna yfir öllum Marshall-löndunum og sem afleiðing af þeim efnahagslegu yfirráðum raunveruleg pólitísk yfirráð yfir þessum löndum.

Svo lýkur hæstv. ríkisstj. yfirlýsingum sínum í sambandi við þetta mál með því að segja, að nú ætli hún að framkvæma það, sem hæstv. forsrh. kallar risaáætlun, á grundvelli þessarar Marshallaðstoðar, fjögurra ára áætlun. Það er gott, að ríkisstj. skuli hafa farið inn á þessa áætlun. Ég lagði til 1947, að sú breyting yrði gerð á fjárhagsráðslögunum, að þessu ráði yrði falið að semja fjögurra eða fimm ára áætlun. Sú tillaga var felld. Í maí 1947 var talið ófært að semja áætlun til lengri tíma, þegar Íslendingur kom fram með þessa till. En þegar erlendir erindrekar í París sýna vilja sinn til þess, að þetta sé gert, þá er öðru máli að gegna. Ef fyrirskipanir koma erlendis frá um að semja áætlun, þá er sjálfsagt að verða við þeim. Og nú er ríkisstj. búin að tilkynna, að hún hafi látið semja fjögurra ára risaáætlun, byggða á Marshallhjálpinni. En hæstv. ríkisstj. láðist bara að tilkynna hv. þm. um leið, að Marshallaðstoðin er ekki til neinna fjögurra ára. Upphaflega var í París gerður samningur til fjögurra ára, til þess að allar viðkomandi ríkisstj. gætu samið áætlanir fyrir sitt leyti til fjögurra ára. En hvernig var þessu breytt á Bandaríkjaþingi? Hæstv. ríkisstj. hefur ekki haft fyrir því að segja þm. frá því, að þessi breyting var þannig, að það var ákveðið að semja ekki áætlun til fjögurra ára og veita ekki fé til fjögurra ára, heldur til eins árs í senn. Það þýðir, að ekkert ríki gat ráðizt í framkvæmdir, sem náðu til meira en eins árs, vegna þess að þau voru ekki örugg með að fá styrkinn lengur en til eins árs. Ef t. d. kreppa kemur í Bandaríkjunum, getur verið, að þau skeri þessa hjálp niður. Bandaríkin hafa ekki skuldbundið sig til neinnar aðstoðar til fjögurra ára. Það er samið aðeins fyrir eitt ár í senn og þessi styrkur aðeins veittur fyrir eitt ár í senn, þannig að ríkisstj. íslenzka hefur ekki möguleika til þess að byggja neina fjögurra ára áætlun, heldur getur hún aðeins gert áætlun fyrir eitt ár í senn. Þetta er eitt af því, sem stj. hefur látið undir höfuð leggjast að segja þinginu frá, en það er að minnsta kosti rétt, að það komi fram.

Hvað þýðir þetta? Það þýðir, að ríkisstjórnin íslenzka verður á hverju ári innan þessarar fjögurra ára áætlunar að koma með bænarskrá til Bandaríkjanna, til þess að biðja þau um að láta svona og svona marga dollara til þessa og þessa. Ríkisstj. fær ekkert að vita, hvort hún fær þessa peninga, fyrr en seint og síðar meir frá Bandaríkjunum og þá fyrir eitt ár í senn. Með öðrum orðum, öll þessi risaáætlun til fjögurra ára byggist á því að betla út úr Bandaríkjunum styrk til eins og eins árs í hvert skipti. Þetta þýðir, að meiri hlutann af þeim vélum, sem þyrfti að fá, verður að panta með jafnvel 2–3 ára fyrirvara. Það þýðir, að ef við ætlum t. d. að koma upp áburðarverksmiðju, sem á að vera tilbúin 1951, þyrftum við að panta vélarnar á morgun. En hæstv. ríkisstj. fær ekki að vita hjá Bandaríkjastjórn fyrr en rétt fyrir árið 1951, hvort nokkur styrkur verður veittur til íslenzku stj. á því ári. Það er með öðrum orðum ómögulegt að byggja áætlun, þar sem panta þarf vélarnar mörgum árum fyrir fram, á þessari Marshallhjálp. Það er hreinasta blekking. Við getum, Íslendingar, pantað þessar vélar, ef við getum reiknað með því að eiga fé sjálfir fyrir þeim. Og ef þessi ríkisstj., sem nú situr, ræður pólitík Íslands 1951, og ef Bandaríkjastjórn þá veitir styrk fyrir það ár, mundi hún kannske þiggja þá fjárveitingu. En hitt er ekki til neins fyrir ríkisstj., að ætla nú að koma fyrir Alþingi og segja: Hér er ég með fjögurra ára risaáætlun og ætla að byggja þessa fjögurra ára risaáætlun á styrk frá Bandaríkjunum, sem ekki er ákveðinn nema fyrir eitt ár í senn. Af hverju leyfa hæstv. ráðh. sér að halda langar ræður hér í þinginu og tala um þessa risaáætlun og koma ekki að einfaldasta atriðinu, hvort hægt er að framkvæma þetta eða ekki?

Svo ætla ég að minnast á það, hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur Íslendinga tilfinningalega séð að eiga að koma á hverju ári skríðandi til Bandaríkjanna og biðja þau um fé til þess að framkvæma áætlanir okkar. Hér í gamla daga var samþykkt á Alþingi Íslendinga bænaskrá, sem þá var send til Kaupmannahafnar. Nú á að samþykkja á Alþingi Íslendinga bænaskrár, sem senda á til Washington. Og svo á að telja þjóðinni trú um, að hún sé enginn maður til þess að byggja upp atvinnulíf sitt sjálf, en verði að vera þæga og góða barnið á hverju ári, því að annars skeri Bandaríkjastjórn niður fjárveitingar til hennar á næsta ári. Bænaskráin á þannig að fara að verða efnahagslegur grundvöllur fyrir sjálfstæði Íslendinga. Og mennirnir, sem standa að því að koma þessu á, eru mennirnir, sem stóðu mest á móti því, að Íslendingar fengju sjálfir að hagnýta sér þá peninga, sem þeir unnu sér inn á stríðsárunum, til þess að byggja upp atvinnulíf sitt. Ef hæstv. forsrh. skyldi svara með því að segja, að Íslendingar séu svo fátækir, að þeir gætu ekki byggt upp fjögurra ára áætlun án þess að fá hjálp Bandaríkjanna, þá vil ég skjóta því að hæstv. forsrh., af því að ég er að tala mig dauðan, hvort við Íslendingar séum fátækari en við vorum 1934. Þá var til flokkur, sem hét Alþýðuflokkur og gekk til kosninga á fjögurra ára áætlun og vann mesta kosningasigur, sem hann hefur unnið, í trausti þess, að Ísland gæti framkvæmt fjögurra ára áætlunina, jafnfátækt og það var þá. Hæstv. forsrh. hefur því miður haft meira að gera með örlög þess flokks nú en hann hafði áður, og þess vegna býst ég við, að hæstv. forsrh., sem nú hefur eyðilagt það, sem eftir var í þeim flokki af einhverjum manndómi, og skemmt allan þann stórhug, sem var til í honum, t. d. í sambandi við fjögurra ára áætlunina, — ég býst við, að hæstv. forsrh. sé farið að líða þetta úr minni. Ég minnist bara á þetta vegna þess, að það var áreiðanlega hægt, ef skapaðar voru pólitískar forsendur til þess, að framkvæma fjögurra ára áætlun á Íslandi þá.

Í sambandi við þá efnahagsáætlun, sem viðskmrh. las upp, vildi ég minnast á það hérna, að það var dálítið einkennilegt með þessar framkvæmdir. Þær voru allar stílaðar eins og það ætti að fresta að byrja að vinna að þeim þangað til eftir 1950, en þá eiga kosningar að fara fram. Það er eins og ríkisstj. hafi hugsað sér, að það mætti ekki stíla áætlunina þannig, að sannprófa mætti nokkurn hlut áður en kosningar færu fram. Nei, það er auðséð og mun sýna sig, að hæstv. ríkisstj. hugsar þetta ekki sem neina risaáætlun í framkvæmd, heldur aðeins sem kosningapólitík. Ég tók t. d. eftir því, að hv. 1. þm. Reykv., sem hér talaði, minntist ekki á risaáætlun, heldur talaði hann bara um óskaseðil.

Fyrir Íslendingum er það alvara að halda áfram nýsköpun atvinnulífsins, eins og byrjað hefur verið á henni — að koma upp lýsisherzlu-verksmiðjunni, síldarniðursuðuverksmiðjunni, áburðarverksmiðjunni o. s. frv. — og þjóðin sættir sig ekki við annað, hvort sem Íslendingar bera gæfu til að ráða í raun og sannleika málum sínum eða þeir verða enn um sinn að þola yfir sér þá stjórn, er nú situr. Sú 4 ára áætlun, sem ríkisstj. veifar nú sem kosningaplaggi og kallar þó í öðru orðinu „óskaseðil“, skal verða framkvæmd, ef þjóðin fær að njóta sín og hafa áhrif á stjórn landsins og framvindu sinna mála og þarf ekki að burðast með ameríska leppstjórn. Hins vegar skil ég, að sú hæstv. ríkissj., er nú situr, treysti sér ekki til þess að stjórna sjálfstæðu Íslandi, — og kannske ekki að undra, þótt frá hennar sjónarmiði sé ekki mikið við það að athuga, þótt við þurfum í þessu efni að knékrjúpa öðrum þjóðum og verðum viðskiptalega háðir Bandaríkjunum.

Ég skal nú að síðustu víkja nokkuð að máli þess, er hér talaði fyrstur, hv. þm. S-Þ., sem er raunverulegur andlegur leiðtogi þeirra 7 þm. er allir töluðu hér í einum kór, enda talaði hann af hreinskilni og eins og sá, sem vissi, hvað hann vildi og hvert hann stefndi. Hann var eins og herforinginn — óhræddur við að láta hernaðaráætlunina í ljós.

Þessi hv. þm. S-Þ. taldi, að okkur sósíalistum væri ekki vel við hæstv. forsrh. Það er þó algerlega úr lausu lofti gripið. Hv. þm. veit vel, að alþingismenn kunna vel að meta leikni hins æfða stjórnmálamanns, og fáir munu eiga hana í svo ríkum mæli sem hæstv. forsrh., eins og bezt má marka af því, hvernig hann hefur leikið vinstri arm Alþfl. Þetta kom skýrt í ljós í þessum umræðum, er það sást, að hv. 4. þm. Reykv. var alveg á sama máli og hv. þm. S-Þ., eins og þeir væru bræddir saman í eina æðri ameríska heild — og er þess þó skemmst að minnast, er hv. 4. þm. Reykv. var kosinn á þing, að vinstri armur Alþfl. setti miðstjórninni úrslitakosti um sæti hans á listanum og lagði við sprengingu Alþfl., ef ekki yrði gengið að þeim, og sakir óvinsælda hæstv. forsrh. tókst uppreisnarmönnum að hafa mál sitt fram. Hefði mátt álíta, að með því hefði verið stigið fyrsta sporið til þess að senda hæstv. forsrh. út í hin yztu myrkur. En er það nú ekki dásamlegt dæmi um leikni hins æfða stjórnmálamanns, að þessi maður skuli nú vera forsrh. og hv. 4. þm. Reykv. ein hans aðalstoð, og að hv. 4. þm. Reykv. skuli nú fallast í faðma við hv. þm. S-Þ., enda þótt hann virtist ekki kunna við annað, vegna fyrri afstöðu sinnar, en að vera eitthvað ofur lítið á móti Ameríkönum? Og er það ekki dásamlegt dæmi um leikni hins æfða stjórnmálamanns, að hæstv. forsrh. hefur nú leikið Íslendinga þannig, að þjóðin gengur betlandi að knjám Bandaríkjanna um það að fá að byggja framtíð sína á bænarskrám og gjöfum? Það er sannarlega misskilningur hjá hv. þm. S-Þ., að við sósíalistar sjáum ekki, að það þarf hvorki meira né minna, en leikni hins æfðasta stjórnmálamanns, til þess að koma Fjallkonunni svo á kné. Hv. þm. S-Þ. gerði það að aðalatriði í ræðu sinni, að hann hefði talið við síðustu kosningar, að tryggja bæri varnir Íslands, með því að veita Bandaríkjunum herstöðvar á íslenzkri grund; væri því verki enn ekki lokið, en sú stund nálgaðist nú óðum, að það verk, sem hindrað var, er Bandaríkin fóru fram á þrennar herstöðvar til 99 ára hér á landi, yrði fullkomnað. Hv. þm. S-Þ. má eiga það, að hann hefur einurð til að gerast opinber talsmaður þess, sem margir þeirra þm., sem í hann hnýta, hafa ekki þorað að láta opinskátt í ljós. Og varðandi þetta mál kom hann réttilega að því, að það er nátengt Marshallmálunum, sem eru nú til umræðu. Það er ekki af engu, að hv. þm. S-Þ. hefur á undanförnum árum verið einn af aðalstjórnmálamönnum landsins; hann er svo raunsær, að hann veit, hvað er að gerast, og hann segir það opinskátt, hvað fyrir ríkisstj. vakir, en hún þorir ekki að minnast á. En þótt hæstv. ríkisstj. megi ekki mæla, þá talar þögn hennar því hærra. — Ef nú hefði verið október 1946, hefði hæstv. forsrh. risið upp og sagt: „Ef talað er um herstöðvar hér á Íslandi, þá er enginn til í þessum sölum, er taki slíkt í mál. Allir eru á móti því.“ — En nú, þegar hv. þm. S-Þ. afhjúpar herstöðvaeðli Marshallsamningsins, þá þegir hæstv. forsrh. Hann veit þó vel, samkvæmt opinberum yfirlýsingum frá Bandaríkjunum, að Marshalláætlunin er óhjákvæmilega tengd hernaðarfyrirætlunum þessa stórveldis. Það hefur ekki verið reynt að draga mikla fjöður yfir það. Ég skal t. d. lofa hv. alþm. að heyra það, sem New York Nation, sem er eindregið stuðningsblað Bandaríkjastjórnar, segir um þetta í vor:

„The degree to which politics and military plans today dominate economic aid is illustrated by the inclusion in the final E.P.P. bill of the military appropriations for Greece and China. This clumb of $ 425 m. links Truman Doctrine to Marshall Plan in an indissoluble whole. Guns, goods, dollars — all are lumped together along with the military-political purposes they represent.“ — Eða — í lauslegri þýðingu: „Það, hvernig stjórnmál og hernaðarfyrirætlanir ráða eða ákveða efnahagslega aðstoð í dag, sést bezt á innsetningu hernaðarfjárveitinganna til Grikklands og Kína í endanlegu lögin um viðreisnaráætlun Evrópu. Þessi fjárveiting, 425 millj. dollara, tengir Truman-kenninguna við Marshalláætlunina í órjúfanlega heild. Byssur, vörur, dollarar — öllu er slengt saman, ásamt þeim hernaðarlegu og stjórnmálalegu markmiðum, sem þetta táknar.“

Bandaríkin fara því síður, en svo dult með, að hverju stefnt er, og þetta veit hæstv. ríkisstj. mæta vel. Hún veit, að Bandaríkjastjórn hefur komið því svo fyrir, að fjárveitingar samkvæmt Marshalllögunum fara aðeins fram til eins árs í senn, til þess að hún geti sett sín skilyrði jafnóðum. í hvert skipti, sem hæstv. ríkisstj. kemur til Washington með nýjan betlilista, getur hún átt von á því, að hún verði að ganga að nýjum afarkostum. Svo kemur hæstv. ríkisstj. til með að segja við þjóðina einn góðan veðurdag: Nú getum við alls ekki byggt álburðarverksmiðju, ef við ætlum að fjandskapast við Bandaríkin og neita þeim um herstöðvar á Íslandi. Það er fjandskapur við Bandaríkin að neita þeim um herstöðvar. Ef það hefði verið fyrir ári liðnu, sem hv. þm. S-Þ. talaði hér á Alþingi eins og hann gerði nú, þá býst ég við, að hv. 4. þm. Reykv. hefði risið upp til andmæla. Hann steinþagði. Öll rök hans beindust að því að sanna, að Marshalllögin væru hin óeigingjarnasta hjálp. Ekki eitt orð til að vara við því, hvað á bak við lægi. — Þögnin um þessa alvarlegu hluti talar skýru máli. Hæstv. ríkisstj. skýtur sér undan að svara, er fyrirspurnum er beint til hennar, og leynir hinum þýðingarmestu gögnum fyrir hv. þm., og þessi þögn er sönnun þess, að það er verið að undirbúa að afhenda Bandaríkjunum — eftir að við höfum verið tengdir þeim efnahagslega opinberar herstöðvar í landinu; og þeir menn, sem vinna að því í dag, að gera okkur efnahagslega háða þessu stórveldi, eru líka að beygja Íslendinga undir það að ganga að kröfum um herstöðvar í landinu.

Þau gögn, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþ. í þessu máli, eru til skammar. Það er gersamlega óforsvaranlegt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki leggja hv. þm. upp í hendur Marshalllögin sjálf né heldur gögn Parísarráðstefnunnar. En það þorir hún ekki, og skýtur sér þar á ofan undan að ræða málin. Ég skil, að hæstv. ríkisstj., sem ekki treystir sér til að ræða málin, ætli sér að komast hjá því að leggja samninginn fyrir þingið; hún þorir ekki að gefa neinni þingnefnd kost á að rannsaka málið og hafa aðgang að skjölum, sem það varða. Ég álít allan þennan frágang Alþ. til vansa. Ég álít, að með þessum samsærisaðferðum sé verið að vinna að því markmiði, sem hv. þm. S-Þ. kvað upp úr um, að gera okkur háða bandarískri yfirdrottnun eins og við vorum áður háðir Danmörku, og tryggja Bandaríkjunum opinberar herstöðvar í landinu, sem hljóta að auka stórum á þá tortímingarhættu, sem vofir yfir okkar þjóð.