09.11.1948
Efri deild: 10. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég verð að taka undir það, sem hv. þm. Barð. sagði, og bæta því við, sem raunar öllum er vitanlegt, að þessar skattívilnanir eru til þess gerðar að gera það aðgengilegra fyrir fólk að kaupa þessi bréf, svo að ekki verði strax allt tekið í skatta. Brtt. sú, sem fram er komin, er að mínu áliti dálítið tvíræð. Ég álít það óheppilegt, ef þannig fer, að almenningi finnist, að ríkið hafi dregið að sér hendina í þessum efnum. Annars virðist mér, að hér sé að nokkru leyti verið að deila um keisarans skegg. Það vita allir, að vinningarnir eiga að vera undanþegnir opinberum gjöldum öðrum, en eignarskatti.

Af því að hér í hv. d. hafa komið fram deildar meiningar um þetta mál og af því að það er í fyrsta lagi sjálfsagt, að ekki sé deilt um framkvæmd þess, en menn líta misjöfnum augum á þetta atriði, og mér virðist hv. n., sem ég lái henni ekki, ekki hafa tekið þetta atriði sérstaklega til athugunar, þætti mér tilhlýðilegt, að hv. n. fengi þetta aftur til athugunar og hæstv. forseti vildi fresta umr. og taka málið út af dagskrá. En ég vil láta þau ummæli fylgja til hv. n., að ég væri mjög leiður yfir því, ef þetta frv. yrði afgr, þannig frá Alþ., að þjóðin yfirleitt yrði þess vör eða fyndi til þess, af orðalagi frv. eða öðru, að nokkurn skapaðan hlut væri verið að draga í land með þessum l. af því, sem lofað var í sambandi við þetta happdrætti og hugsað er, að gildi fyrir fleiri slík lán, ef til kemur. Það er talsverð uppörvun, eins og skattálagning og útsvarsálagning er hér, ef menn geta fengið fyrirheit um að eiga einhverja aura í friði fyrir þessari ásælni skattyfirvaldanna, frá ríki og bæjum, sem höfð hefur verið í frammi, og þetta er hugsað þannig af minni hálfu, að það yrði ekki annað, sem krafið yrði af viðkomandi vinningshandhöfum, heldur en eignarskattur. Það er þess vegna mín ósk, að hv. n, vildi athuga frv. frekar, ekki fyrir það, að hún hafi haft nokkurt handahóf á vinnubrögðum sínum, heldur hitt, að hér hafa í hv. d. komið fram skiptar skoðanir um málið, og hins vegar liggur málinu ekki svo mikið á, að ástæða sé til að afgreiða það í flaustri. Till. dómsmrh. þarf ekki að taka aftur, en er þó ef til vill heppilegra, ef hv. n. fær hana til athugunar, að hún þurfi ekki að koma undir atkv. hér.