28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (2903)

Marshallaðstoðin

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. V-Húnv. fyrir góð orð í minn garð og fagna því, að hann skuli vera orðinn svo mikill nýsköpunarmaður, og má þar um segja, að betra er seint en aldrei. Og þar sem ég geri ráð fyrir, að hann verði henni meiri haukur í horni, en hingað til hefur komið í ljós, þá er gott, að hann skuli nú lýsa sér sem einum mesta stuðningsmanni hennar. — Ég sé annars ekki ástæðu til að þræta um þetta, og er bezt að hlíta þar dómi þingtíðindanna. En ég vildi mega óska hv. þm. þess, að hann leggi jafnmikla stund á að fylgja góðum málum eins og hann er orðheppinn, þó að ég viti hins vegar, að hann getur ekki gert að íhaldssemi sinni.

Ég hef ekki átt þess kost að fylgjast með hinni löngu ræðu hv. 2. þm. Reykv. Eins og hið ágæta blað, Þjóðviljinn, komst að orði, varð ég að laumast út, þar sem ég hafði öðrum störfum þarfari að gegna. En í því, sem ég heyrði af ræðu hans, var ein alvarleg missögn, hvort sem hún hefur nú stafað af því, að minni hv. þm. sé orðið mjög ábótavant, eða af öðrum ár stæðum. — Hann gerði sér að vanda mjög tíðrætt um vilja minn til að slíta viðskiptasambandi við Rússland, lýsti klókindum mínum í því að nota mér einfeldni þeirra og viðkvæmni til þess að egna þá til að slíta öllum verzlunarviðskiptum við okkur og hjá báðum, mér og Rússum, var það sameiginlegt, að við vildum láta Íslendingum líða illa — ég vildi láta þá svelta vegna míns pólitíska ofstækis, og Rússar, til þess að hefna sín á mér, láta vera að hafa nokkur viðskipti við landið.

Sem betur fer virðast nú engar líkur benda til þess, að Rússum sé það kappsmál að slíta öllu sambandi við okkur — þvert á móti ber t. d. sú glæsilega sýning, sem við skoðuðum áðan, vott um það, að Rússar láti sér annt um okkar uppfræðslu. Hitt er annað mál, að þeir sýna lítinn vilja til að kaupa fiskinn af okkur. En ef það er rétt, — eins og hv. 2. þm. Reykv. heldur fram og Þjóðviljinn hefur prentað, — að það sé vegna þess, að enginn íslenzkur sendiherra sé í Moskva, að þeim hefur ekki sýnzt að kaupa af okkur fisk, þá vil ég benda á, að það eru allir aðrir en ég, sem bera ábyrgð á þeirri skipan, sem nú er, að við höfum ekki sendiherra með búsetu í Moskva. — Og hvenær komst þá sú skipan á? Jú, það var haustið 1945, þegar hv. Sameiningarfl. alþ. — Sósíalistaflokkurinn stóð að ríkisstj., að sú ráðstöfun var gerð, en þá um sumarið var sendiherra Íslands í Moskva, Pétur Benediktsson, hér á ferð og var sendur út um haustið til þess að ferðast um Evrópulöndin og m. a. til viðræðna við stjórnina í Moskva, og var sendiherrann látinn skýra stj. frá því, að sú ákvörðun hefði verið tekin, að hann hefði þar ekki búsetu lengur. En sá maður, sem með honum var í þessari för til Moskva, var enginn annar en hv. 2. þm. Reykv., og gekk hann með sendiherranum á fund Vishinskys, er þetta var tilkynnt. Svo að ef þetta á að skoða sem samvinnuslit, þá er það hv. 2. þm. Reykv., sem sjálfur stóð að því að flytja þau skilaboð, sem hann telur, að hafi verið móðgun í garð Rússa; og tjáir þar ekki í móti að mæla, því að þetta liggur fyrir í opinberum skjölum. — Ég hef aldrei vitað meira blygðunarleysi í allri sögu þingsins en þessa framkomu hv. 2. þm. Reykv., að ráðast á mig fyrir það, sem hann á sjálfur þátt í, og ég trúi ekki, að hann geti sýnt sig framar á heiðarlegum stöðum eftir slíka frammistöðu. — Sendiherrann dvaldi svo utan Rússlands það, sem eftir var af stjórnarsetu hv. Sameiningarfl. alþýðu — Sósíalistafl. og viðskiptasamningarnir 1946 voru gerðir án þess, að hann kæmi þar nokkurs staðar nærri. Og sá, sem sendi hann aftur til Moskva, það var ég, þar sem ég taldi slíkt óviðurkvæmilegt, og hann dvaldi í Moskva á árinu 1947 eftir beinu ráði mínu. Ég hef að vísu ekki lagt fyrir hann að fara aftur til Moskva, vegna þess að síðan í okt. hafa Rússar ekki svarað því, hvort þeir vildu ræða um kaup á fiskafurðum okkar. — Ég hef hér borið af mér sakir, og mun ekki að sinni elta ólar við það, sem Marsallsamtökunum er fundið til foráttu af hv. 2. þm. Reykv. og meðstarfsmönnum hans, en þar skipa sér til andstöðu kommúnistar í öllum löndum og verstu auðvalds- og afturhaldsöflin, t. d. blöð eins og Wall Street-Journal, — þannig er sú fagra samfylking hvarvetna og málstaður og málflutningur eftir því.