28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2057 í B-deild Alþingistíðinda. (2906)

Marshallaðstoðin

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Hæstv. utanrrh. hafði í frammi undanbrögð til að afsaka það, að sendiherra okkar í Moskva var kallaður þaðan í heilt ár. Þó að ég væri í ferð með sendiherranum 1945, er hann tilkynnti sovétstjórninni, að hann yrði líka sendiherra í París, er það engin afsökun fyrir þessu og hæstv. ráðh. veit það vel, að í nýsköpunarstj. voru sósíalistar andvígir því, að sú ráðstöfun væri gerð. Mergur málsins er sá, að sendiherrann er kvaddur frá Moskva í fyrrasumar til að vinna að Marshalláætluninni í París, og þar hefur verið sendiherralaust síðan. En í alþjóðaviðskiptum þýðir sú ráðstöfun þetta, að íslenzka ríkisstj. leggur ekki áherzlu á viðskipti við Sovétríkin.

Hæstv. viðskmrh. minntist á tölulegar niðurstöður í nál. undirbúningsnefndar efnahagsstofnunarinnar. Það verður ekki komizt fram hjá því, að tölurnar sýna, hve gífurlega viðkomandi þjóðir auka framleiðslu sína á fiskafurðum, svo að þessum atvinnuvegi okkar, sem við eigum allt undir, stafar bráð hætta af, eins og ég hef sýnt fram á áður, að það stendur óhrakið.

Hæstv. ráðh. kom inn á gjafirnar og taldi, að ég hefði verið þeim meðmæltur. Ég hef nú skýrt afstöðu mína svo til þessara samninga allra, að ég held, að enginn geti á því villzt, að ég er á móti þeim og engu síður því, að Íslendingar þiggi hið óafturkræfa framlag. Hitt er annað mál, að ef þetta fé er það, er einsætt að hagnýta það skynsamlega, til uppbyggingar atvinnulífinu, en ekki sem eyðslueyri.

Hv. 4. þm. Reykv. kom að samningunum við Rússa, þeir hefðu staðið yfir í tvo mánuði og ekki tekizt. Við höfum þó selt Rússum fyrir 96 millj. kr., en þess er vandlega gætt að minnast ekki á það í blaði hans, og hann sleppti því líka í sinni ræðu. Ég verð að segja, að mér finnst undarleg þögn hv. 4. þm. Reykv. um það, sem hann hlýtur að vita betur í þessu máli. Hann hefur varla sagt eitt orð á móti þessum viðsjárlegu samningum. E. t. v. er hann farinn að þreytast á að bera sannleikanum vitni gegn flokki sínum, enda hefur hann fengið reynsluna af því, hvernig gengur að fá birtar greinar í Alþýðublaðinu, þar sem orðinu er eitthvað hallað á Bandaríki Norður-Ameríku.