28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (2907)

Marshallaðstoðin

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. þarf ég nú ekki að svara miklu, en hv. þm. Siglf. reyndi að bera það fram, að viðskiptin við Sovétríkin hefðu strandað á því, að við hefðum ekki keypt nógu miklar vörur af þeim í staðinn fyrir þær vörur, sem við seldum þeim. Sannleikurinn er nú sá, að þetta hefur stöðugt verið til athugunar, og þó að sendiherra okkar hafi ekki haft aðsetur í Moskva, þá hefur verið þar opið sendiráð og ávallt verið þar einn fullgildur maður, sem hefur kynnt sér þessi mál. Rússar töldu 1947, að við hefðum leyst þeirra þarfir í þessu með því að fallast á vörulista um það, hvað við gætum keypt af þeim. Staðhæfingar hv. þm. Siglf. fá því yfirleitt ekki staðizt. — Varðandi þá staðhæfingu hv. 2. þm. Reykv. hins vegar, að hægt sé með einum pennadrætti að kippa grundvellinum undan mörkuðum, sem við höfum unnið, vil ég benda honum á, að sú hætta er nú mest, þar sem einræði ríkir og önnur sjónarmið, en viðskiptalegs eðlis koma til greina. Ég hef ætíð verið þeirrar skoðunar, að við ættum að hafa viðskipti við sem allra flestar þjóðir. Sósíalistar vilja aftur á móti einbeina viðskiptum okkar til Austur-Evrópu, hvort sem það stendur nú í sambandi við það eða ekki, að þar ríkir þeirra pólitíska kreddutrú. Til þess virðist framkoma þeirra benda og blindni í öllum þessum málum. Varðandi síðustu sölu á hraðfrystum fiski, sem kommúnistum verður svo tíðrætt um, er hið sama að segja og um aðrar slíkar sölur eftir stríð, við hana er auðvitað ekkert athugavert. Skilyrði fyrir varanlegum fiskmarkaði í Þýzkalandi er að nota sér hinar tæknilegu framfarir og nota sér markaðinn nú, á meðan Þjóðverjar fiska ekki meira sjálfir. Það er ákaflega mikilvægt að komast inn á þýzka markaðinn, og að þessari sölu verður kannske enn þá varanlegri gróði, en flestum öðrum sölum, sem gerðar hafa verið að undanförnu. Það hefði verið hægt að selja þessa framleiðslu viðar, en upp á framtíðarsölumöguleika var hvergi betra að selja en til Þýzkalands, og af þeirri ástæðu var tilboðinu tekið þar.

Ég skal að lokum játa að ég er sammála því sjónarmiði, sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum sósíalista hér, að við eigum að taka við framlögum án endurgjalds í sambandi við Marshallaðstoðina, ef þau standa til boða og við þurfum á að halda atvinnulega séð. Ég vona því, að þessir hv. þm. greiði atkv. með frv., sem væntanlega verður lagt fram, um að heimila stj. að gera slíkar ráðstafanir.

Varðandi tal hv. 2. þm. Reykv. um sendiherrann í Moskva, þá vil ég minna á, að þessi hv. þm. var sjálfur sendur til Moskva til þess að eiga þátt í, að sendiherrann yrði kallaður þaðan, og má hann því sjálfan sig saka, en ekki mig, í því efni. Í þessari sömu ferð gekk þessi þm. á fund Vishinskys, en hraðaði sér hið bráðasta úr Moskva og mun aldrei hafa haft þar skemmri viðdvöl.