28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2059 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

Marshallaðstoðin

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. hefur undarlegan hátt á, þegar hann er að vísa í skýrslur. Norðmenn hafa aukið fiskframleiðslu sína um 9%, en Bretar um 30%. En ef reiknað væri út með aðferð hv. 2. þm. Reykv., hefðu þessar þjóðir tvöfaldað eða þrefaldað framleiðslu sína. Það lítur illa út á pappírnum, en ef það er athugað nánar, kemur allt annað út.

Hv. þm. bar enn fram þau ósannindi, að Bandaríkin vildu þvinga upp á okkur vörum. Sannleikurinn er hins vegar sá, að viðreisnarstofnunin í Washington segir að við skulum kaupa sem mest af hinum þátttökuríkjunum í Vestur-Evrópu, en að þeim frágengnum í Ameríku, eins og ég hef sagt hér oftar en einu sinni áður. Vörulisti hvers lands er síðan lagður fyrir viðreisnarstofnunina, og hvað fólst í lista Íslands, gaf ég upp hér í skýrslu ríkisstj., ég taldi upp vörurnar lið fyrir lið.

Hv. þm. spurði hvort reynt hefði verið að útvega korn og olíu utan Bandaríkjanna. Um olíuna er það að segja, að það hefur verið reynt í haust. Olíufélögin höfðu fengið að flytja inn olíu eftir því sem viðskiptavinirnir þurftu með. En vegna dollaraeklu var þeim bent á það í sumar, að það gengi ekki lengur að flytja inn olíu fyrir dollara, ef hægt væri að fá hana utan dollarasvæðisins. Mér er kunnugt um, að nú hafa verið gerðar ráðstafanir til að fá olíu frá Danmörku, og fleiri Evrópulöndum.

Varðandi korn er það að segja, að rúgmjöl og haframjöl hefur t. d. verið reynt að útvega frá Danmörku, en hveiti verður áfram að fá frá Ameríku, eins og ráð er fyrir gert í áætluninni. Áburð hefur verið reynt að útvega frá Noregi, og vænti ég, að það beri árangur.

Hv. þm. Siglf. sagði, að sá ljóður væri á afurðasölum ríkisstj., að með þeim væri ekki verið að vinna markaði til frambúðar. Það er ekki rétt, að hér sé aðeins miðað við líðandi stund. Við höfum reynt að selja þeim löndum, sem hafa markaði, en vantar peninga. Við getum til margra ára selt fisk til þeirra staða, sem nú er sent til, og við hefðum möguleika til enn þá víðtækari viðskipta, ef viðkomandi land fengi fé milli handa. Í þetta skipti höfum við fengið greitt fyrir fiskinn í dollurum frá Bandaríkjunum, en jafnframt er verið að reyna að gera þessi markaðssvæði þess umkomin að greiða sjálf fyrir þessa vöru síðar, þegar Marshallaðstoðinni lýkur, og þegar málið liggur þannig fyrir, er óneitanlega verið að undirbúa og vinna markaði til frambúðar.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að segja miklu meira um þetta, en vil þó vekja athygli á því, að bæði hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Siglf. telja sjálfsagt að selja afurðir okkar til Evrópu, en reyna síðan að fá dollara að gjöf frá Ameríku. Þetta er „princip“, sem ríkisstj. er algerlega andstæð. Hún óskar eftir að greiða allan innflutning með útflutningi, en ekki með gjöfum né lánum. Því aðeins að innflutningurinn verði meiri en útflutningurinn viljum við tala um gjafir og lán. Við viljum ekki tala um að taka á móti gjöfum eða lánum, nema innflutningurinn verði svo mikill að útflutningstekjurnar hrökkvi ekki til, eða ráðizt sé í atvinnuframkvæmdir, sem ella væri ekki gert. Ég veit líka, að þessi skoðun á hljómgrunn hjá þjóðinni sjálfri. Hún vill ekki binda sér bagga, nema byggja þá jafnframt upp atvinnutæki og verðmæti, sem ella yrði að vera án, en talin væru nauðsynleg.