17.12.1948
Neðri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Því miður er álit minni hl. n. ekki komið enn þá, en með því eiga að fylgja tvö fylgiskjöl, og hef ég beðið eftir því að geta fengið þau inn í nál., en það er ályktun frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. En það er ákaflega slæmt að geta ekki lagt þetta nál. fyrir nú, áður en ég hef framsöguræðu um þetta mál.

Eins og áður hefur verið tekið fram í þessu sambandi og margir hv. þm. hafa minnzt á í umr. um þetta mál, þá er tilgangur ríkisstj. með þessu frv. fyrst og fremst sá að tryggja það, að bátaflotinn fari á stað. Landssamband ísl. útvegsmanna mun vafalaust vera einn sá aðilinn, sem fyrst og fremst reynir á í því sambandi, og er það mjög slæmt, að ályktun fundar stj. þeirra samtaka skuli ekki liggja hér fyrir. Ég mun samt sem áður fara nokkrum orðum um mína afstöðu gagnvart frv. að öðru leyti en höfuðatriðunum í raun og veru, vegna þess að við ræddum þau það ýtarlega hér í gærkvöld, og ég sé ekki ástæðu til þess að fara að endurtaka neitt af því. Það eru nokkur atriði í hinum einstöku gr. þessa frv., sem beðið var um skýringar á í gær, en ekki fengust að öllu leyti, og að nokkru leyti langar mig til að fá á þeim skýringar í viðbót við þær, sem ég fékk í gær.

Í 2. gr. í I. kaflanum er ákvæði, sem takmarkar ábyrgð ríkissjóðs við ákveðin markaðslönd. Ég bað um skýringu á þessu ákvæði, og ég bið enn um skýringu á þessu ákvæði. Og ef hæstv. forsrh. eða einhver annar hæstv. ráðh. væri hér í húsinu og vildi gefa skýringu á þessu, þætti mér vænt um það að fá þá skýringu áður en þessari umr. lýkur. Með þessu ákvæði getur verið um svo viðtæka heimild að ræða, að það er ekki von, að menn samþ. hana án þess að fá skýringu á því, hvernig henni skuli beitt yfirleitt. Ég vænti ég þess vegna fastlega, af því að ég held, að meiri hl. n. hafi heldur ekki gert sér það ljóst, hvernig skilja eigi þetta ákvæði, að skýringin komi nú við þessa umr. málsins.

Um II. kafla frv. var allýtarlega rætt við 1. umr. málsins, og sé ég ekki ástæðu til þess að ræða mikið um hann heldur. En ég álít 12. gr. vera í raun og veru einu gr. í þeim kafla, sem eigi rétt á sér og sé nauðsynleg, og hefur hv. 2. þm. S–M. flutt brtt. um að fella hinar gr. niður. og er ég honum þar alveg sammála.

Viðvíkjandi III. kaflanum hefur komið í ljós hjá hv. þm., sem eru þó stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., nokkur ótti við þann kafla frv. og við þær álögur, sem hann gerir ráð fyrir. Hafa ýmsir þeirra hv. þm. látið í ljós þá skoðun, að þessi kafli muni ekki ná þeim tilgangi, sem ætlazt er til. Ég skil þá ákaflega vel. En það var annar hlutur, sem kom á óvart — ég held, að það hafi verið hv. þm. N-Ísf., sem virtist hafa trú á því, að fjhn. mundi geta lagað allt þetta, sem aflaga fer í frv. og hann áleit að einhverju leyti ástæðu til að óttast í frv. þessu, nú á milli 2. og 3. umr. Og mér virtist, að eftir því sem hann hefði litla trú á gerðum hæstv. ríkisstj., hefði hann því meira traust á hv. fjhn. Nú vil ég ekki á nokkurn hátt úr því draga, að fjhn. er mjög góð n., og það hefur vissulega komið fyrir hér á Alþ.,fjhn. hefur tekið að sér stjfrv., sem hefur verið álíka illa úr garði gert og þetta frv., og umskapað það svo, að viðkomandi ríkisstj. hefði þá ekki þekkt það aftur. En þetta var þegar við höfðum utanþingsríkisstj. og hv. þm. virtust dálítið sjálfstæðari en nú, þegar þeir skoða sig bundna við að fylgja hverju; sem ríkisstj. dettur í hug að koma með, hvað litla trú sem þeir hafa á þeim till. hennar.

Eitt er það, sem ég vil, að d. athugi vel við þessa umr., en það er um þessa aðferð, að ætla að taka meginið af brtt. til baka til 3. umr. og láta alla afgreiðslu verða við 3. umr., þannig að d. hafi ekki hugmynd um, hvernig hún afgr. málið. Ég skal nefna dæmi. Það liggur hér fyrir brtt. frá hv. þm. N-Ísf. á þskj. 238 um að breyta frv. þannig, að jeppabifreiðar séu undanþegnar þeim skatti, sem þar er um að ræða. Nú skildist mér á hæstv. forsrh., að hann vænti all mikilla tekna í sambandi við þennan bílaskatt. Eigi nú að fella niður þennan skatt af innfluttum jeppabifreiðum, og það verða kannske þær bifreiðarnar, sem helzt verða fluttar inn, þá hlýtur það að hafa mikil áhrif á þennan tekjustofn. Ég er því hræddur um, að það sé betra fyrir þá, sem vilja sjá hæstv. ríkisstj. fyrir fé, að greiða atkv. um þessa till. við 2. umr., því að ef brtt. hv. þm. N-Ísf. yrði samþ. við 2. umr., gæti fjhn. athugað fyrir 3. umr., hvað væri tiltækilegast að gera til að bæta úr þeim tekjumissi, sem samþykkt brtt. hefði í för með sér.

Ég hef áður óskað eftir því, að það yrði gefið það langt hlé við þessa umr., að álit stjórnar Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sem ég hef látið prenta með mínu nál., gæti legið hér fyrir. Ég held, að það þyrfti ekki að tefja umr. um málið. Við höfum enga löngun til þess að lengja þessa umr. Við tókum almennar umr. um málið í gærkvöld og nótt. Við vildum láta koma skýrt fram, hver afstaða manna væri til málsins, en hins vegar viljum við á engan hátt draga afgreiðslu þess. Og af því að ég álít heppilegast, að sem mest sé afgr. við 2 umr., hefði ég helzt óskað, að hæstv. forseti hefði nú frestað málinu um stund og sjá, hvort ekki er hægt að fá nál. svo snemma, að takast megi að koma því frá í dag. Ég þykist vita, að það taki ekki langan tíma, þegar það er komið og það, sem 2. umr. kynni að lengjast við þessa aðferð, gæti aftur sparazt við 3. umr. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Mig er nú farið að lengja eftir því áliti, sem von er á frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, en hins vegar skildist mér, eftir þann stjórnarfund, sem haldinn hefur verið í Landssambandi ísI. útvegsmanna, að ekkert samkomulag hafi orðið um þær till., sem ríkisstj. hefur lagt fram, og var það raunar eins og ég bjóst við. Hins vegar hef ég áður í ræðum mínum gert grein fyrir því, að með því að samþ. I. kafla í þessum lögum fáist engin trygging fyrir því, að bátaútvegurinn verði rekinn, og þarf ég engu við það að bæta. Ríkisstj. mun ekki með þessu ná því, sem hún ætlast til, því að þetta getur ekki tryggt rekstur hans.

Hæstv. forseti verður að gera eins og honum finnst réttast í sambandi við nál., hvort okkur sé fært að bíða þar nokkuð lengur.

Ég er meðflm. að till. á þskj. 253, þess efnis, að fræðslukvikmyndir skuli vera undanþegnar því gjaldi, sem um ræðir í a-lið 29. gr. Vænti ég, að hún verði samþ.

Ég hef ekki enn þá fengið svör hjá ráðh. viðvíkjandi því, sem ég spurði um í sambandi við 2. gr. og 12. gr., en vona samt, að þau svör komi, en mun annars ýta betur eftir því við 3. umr.