28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2061 í B-deild Alþingistíðinda. (2910)

Marshallaðstoðin

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. sagði, að við hv. 2. þm. Reykv. værum komnir á þá skoðun, að Íslendingar ættu að sækjast eftir gjöfum frá Bandaríkjunum. Ég skil ekki hvað hann á við. Þessi ummæli eru þvert á móti hreinasta fjarstæða, eins og allir vita. Ég sagði einmitt það, sem vitað er, að við sósíalistar værum allir á móti Marshallsamningnum. En ríkisstj. gerði þennan samning með þingmenn sína að bakhjarli að hennar eigin sögn, þótt vafasamt hafi verið, án þess að leggja hann fyrst fyrir Alþ. En hvað um það. Ríkisstj. hefur gert samninginn og undirgengizt skuldbindingar hans gagnvart Bandaríkjunum undir því yfirskyni, að hér eigi að stofna til risavaxinnar 4 ára áætlunar. Samkvæmt þessum samningi stj. eigum við að fá 11 milljónir dollara í okkar hlut á þessu ári og erum þegar búnir að fá 4½ milljón dollara. En hvernig höfum við notað þetta nýsköpunarfé, sem stj. æpir hæst um? Við höfum notað það til að selja eðlilega framleiðslu okkar. Þannig er nú afurðasala okkar, og hæstv. utanrrh. losaði sig alveg við að svara þeirri spurningu, hvernig bæði væri hægt að framkvæma hér stórfellda nýsköpun með Marshallpeningunum og eyða þeim þannig eins og gert hefur verið.

Já, við sósíalistar erum algerlega á móti Marshallsamningnum og teljum hægt að halda áfram nýsköpuninni hér heima án Marshallaðstoðar, og undir niðri býst ég við að hæstv. viðskmrh. sé sammála um það, en allt er komið í óefni hjá þessari stj., og því hefur hann gripið þetta strá. Við þurfum ekki aðstoð Bandaríkjanna til að kynna þjóðum Evrópu freðfiskinn og selja hann þangað. Þessar þjóðir geta greitt fyrir fiskinn með eigin framleiðslu, og við sköpum okkur ekki varanlega markaði þar, nema við leitum jafnframt að vörum hjá þessum þjóðum, sem við getum að miklu leyti tekið af þeim sem greiðslu.

Hv. 1. þm. Reykv. lýsti því yfir hér í gær með miklum bægslagangi, að Rússar hefðu ekkert viljað kaupa af íslenzku viðskiptanefndinni, sem fór til Moskva 1947. Vísir hefur tekið þessi ummæli upp, en nú segir 1. þm. Reykv., að þetta sé rangt eftir sér haft í blaðinu. Hann hefur þó ekki séð ástæðu til að leiðrétta þessa herfilegu missögn í blaðinu í dag, sem full ástæða væri þó til, í stað þess lætur hann nægja að lýsa yfir hér í þinginu, að blaðið hermi rangt frá. En ég verð nú að taka upp hanzkann fyrir blaðamanninn í þetta skipti, — ég hlustaði sjálfur á hv. 1. þm. Reykv. Skýringin hlýtur að vera sú, að hann viti ekki sjálfur, hvað hann er að segja. Og annað, sem hann sagði um viðskiptamál, bar þann sama stimpil.

Það hefur ekkert verið gert í alvöru í tíð þessarar ríkisstj. til að auka vörukaup frá Rússlandi. Það væri fróðlegt að sjá óskalistann yfir þær vörur, sem við óskuðum nú eftir að fá þaðan, og sæist þá, hve langt við hefðum teygt okkur til að ná viðskiptum við Sovétríkin, hvort við hefðum teygt okkur lengra, en við samningana 1946 og 1947.

Hæstv. utanrrh. tók upp þann útúrsnúning hæstv. viðskmrh. að við sósíalistar værum að mæla með styrkjum frá Bandaríkjunum. Þetta er nú svo auvirðilegur upptíningur og útúrsnúningur, að hann er ekki svaraverður. Við sósíalistar vorum aldrei kvaddir til þessarar samningsgerðar, við vorum aldrei spurðir ráða. Ríkisstj. gerði þennan Marshallsamning og ber ábyrgðina á honum. En við sósíalistar höfum hins vegar bent á það, að þegar búið er að undgangast slíkar skuldbindingar sem samningnum fylgja og æpt er um risaáætlun, þá verður að verja fénu til að framkvæma hana, en ekki eyða því til að selja eðlilega framleiðslu okkar, ella verður aldrei nein áætlun framkvæmd.

Hæstv. utanrrh. sagði, að síðasta freðfisksalan, ef sölu skyldi kalla, væri sama eðlis og sölur á stríðstímum. Það er rétt, að við getum jafnlítið treyst á hana til að vinna varanlegan markað eða varanleg viðskipti. En nú ber okkur einmitt að vinna varanlega markaði — að halda áfram styrjaldarástandi er sama og gefast upp við að afla markaða.

Helzt var að skilja á hæstv. utanrrh., að ekki væri þorandi að skipta við einræðisríkin, og býst ég við, að hann, eins og Morgunblaðið og fleiri blöð, eigi þar við þau ríki, sem ekki falla Bandaríkjunum í geð. Við sósíalistar höfum aldrei mælt með því að skipta eingöngu við einhver sérstök ríki, hvorki austan né vestan járntjaldsins eins og oftast er nú kallað. En við höfum viljað tryggja markaði í Englandi, Þýzkalandi og öðrum löndum, sem við höfum skipt við, og vegna ríkjandi ástands í Þýzkalandi höfum við viljað færa út kvíarnar til fleiri landa á meginlandi Evrópu, sem þurfa fisk. Þetta hefur verið og er okkar skoðun. Við höfum aldrei viljað flytja öll okkar viðskipti til einræðisríkjanna, sem hæstv. utanrrh. kallar svo, en sýnilegt er hins vegar, að ríkisstj. stefnir að því að draga öll viðskipti okkar frá þessum löndum og til vesturs. Staðreyndirnar tala í þessu efni, og við vitum, hvaðan þessi stefna er upprunnin. Það skauzt upp úr hæstv. ráðh., er hann var að tala um einræðisríkin, að við yrðum samkvæmt Marshallsamningnum að hafa samráð við Bandaríkin um það, hvert við flyttum vörur okkar, svo að verið getur, að ríkisstj. sé með þessari augljósu tregðu sinni að framkvæma einn lið þessa samnings, og er það ekki ólíklegt.