28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (2913)

Marshallaðstoðin

Brynjólfur Bjarnason:

Það er ekkert tækifæri til þess á þeim tíma, sem mér er skammtaður, að ræða almennt um þetta mjög svo víðtæka mál. En það almerkilegasta, sem mér hefur fundizt koma fram í umr., er játning hæstv. utanrrh. í næstsíðustu ræðu, þar sem hann sagði, að sér fyndist í alla staði mjög hættulegt að eiga mikil viðskipti að einræðislöndin, og á hann þar við löndin í Austur-Evrópu. Um öll önnur lönd hefur hann verið að sýna fram á, að hann geri allt, sem hann getur, til að eiga viðskipti við. Í þessari einu ræðu sagði hann satt, og þar með hefur hann komið með skýringu á allri hans framkomu og í rauninni það, sem snertir afstöðu hans til Marshallsamningsins. Hæstv. ráðh. hefur fengið hv. 1. þm. Reykv. til þess að aðstoða sig einmitt í þessu máli, vegna þess að hann var fulltrúi Íslands í samninganefndinni í Moskva á sínum tíma. Þessi hv. þm. sagði það vera rangt, að íslenzku fulltrúarnir hefðu ekki gert allt, sem þeir gátu, til þess að eiga víðtæk kaup við Sovétríkin. En hann bætti við, að ekki væri um annað að ræða, en timbur og sement. Ég veit, að þetta er rangt. Ég hef rætt við aðra menn í n., og þeir hafa sagt það mótsetta, að hægt hefði verið að gera miklu stærri samninga við Sovétríkin, ef við hefðum verið reiðubúnir að kaupa fleiri vörur, enda vitanlegt, að hægt var að kaupa korn þaðan líka og enn fremur þurrkaða ávexti og fleira. Annars virðist mér einkennilegt að senda slíkan mann í þessum erindum sem fulltrúa Íslands til Sovétríkjanna, mann sem ekkert tækifæri lætur ónotað til að hafa uppi áróður gegn viðskiptum við Sovétríkin. Slíkt er til að eyðileggja þessi viðskipti. Það er furðuleg dirfska af slíkum manni að leggja hér orð í belg. Það er vitanlegt, að hann hljóp frá samningunum áður en þeim var lokið. Hann segist hafa setið sjö vikur áður en saman gekk. En hann gat þess ekki, að eftir allan þennan tíma höfðu Rússar ekki fengið að vita, hvað Íslendingar vildu selja af síldarlýsi. (BÓ: Þetta er ekki rétt.) Þetta kunna að hafa verið sex vikur, ég veit það ekki svo nákvæmlega, a. m. k. sat hann á málinu. Hann gat þess ekki, að hann sjálfur ásamt meiri hl. n. hljóp frá samningunum í miðjum klíðum. Og húsbændur hans létu ekkert tækifæri ónotað meðan á þessum samningum stóð til þess í embættis nafni að hafa taumlausan áróður í frammi gegn Sovétríkjunum og þeirra fulltrúum. Hann gat þess heldur ekki, að hæstv. utanrrh. hefur, eins og margsinnis hefur verið bent á, kallað sendiherra Íslands burt frá Moskva og þannig á diplómatískan hátt lýst yfir raunverulega, að Ísland vildi ekki hafa viðskipti við þetta land, eins og hann raunar lýsti yfir áðan. Hann gat þess ekki, að stj. gerði samning við Ameríku, þar sem eitt atriðið var að selja Sovétríkjunum ekki annað en það, sem Bandaríkin leyfðu, þ. e. a. s. vörur, sem Bandaríkjamenn banna ekki að selja Marshalllöndunum. Hverjum manni er ljóst, að með þessari aðferð er búið að eyðileggja viðskipti við Sovétríkin. Og það er verk núverandi stjórnar.

Úr því að ég stóð upp, vildi ég aðeins segja nokkur orð við hv. 4. þm. Reykv. Mér hefur oft virzt hann svona heldur aumur í málflutningi sínum, en aldrei aumari en nú, síðan hann gerðist skjaldsveinn flokksforingja síns, forsrh., — maðurinn, sem setti flokki sínum tvo úrslitakosti, að annaðhvort yrði foringinn að vera í framboði úti á landi eða hv. 4. þm. Reykv. byði sig fram á sérstökum lista í Reykjavík. Í tilefni af því, að hann var minntur á þetta, sem ég var að nefna, talaði hv. þm. um ágreining í Sósfl. En þetta er bara tilhæfulaust tal hjá honum. Þar var enginn ágreiningur um uppstillingu til þings. Það var samkv. till. minni, að ég var ekki í kjöri í Reykjavík. Og sú till. var einróma samþ. í flokknum. En að ég fór til Vestmannaeyja var samkv. einróma samþykkt flokksins í Vestmannaeyjum.

En enn þá ömurlegra var að heyra frammistöðu hv. þm. að því er snertir viðskiptin við Austur-Evrópu. Í fyrstu ræðu sinni sagðist hv. þm. vera yfirleitt á móti viðskiptum við Austur-Evrópu, a. m. k. ekki í stórum stíl, af því að það þýddi sama sem gengislækkun. Og í því sambandi nefndi hann tvær vörutegundir, sem eru mun dýrari í þessum löndum. Þá var honum bent á af hv. 2. þm. Reykv., að hægt væri að hafa mikil viðskipti í þessum löndum, þó að við keyptum þaðan aðeins þær vörutegundir, sem eru fyllilega samkeppnisfærar. Hann hefur heldur ekki neitað því. Enn fremur var honum bent á það, eð ef við gætum selt vörur til þessara landa með 50% hærra verði en t. d. til Bretlands og Bandaríkjanna, eins og t. d. síldarmjöl, og ef við keyptum fyrir það aðrar vörur, sem væru 30% hærri en við gætum fengið í dollaralandi, þá væru það hagkvæm viðskipti. Hv. þm. játaði, að þau væru hagkvæm, en þau séu bara gengislækkun. (GÞG: Ég sagði aldrei, að þau væru hagkvæm.) Nú, jæja. Nú er hv. þm. kominn í svo mikið öngþveiti, að hann veit ekki, hvernig hann á að snúa sig út úr því. Skilur hv. þm. ekki svo einfaldan hlut eins og það, að það er aðeins um reikningsfærslu að ræða að því er snertir á hvaða verði við seljum slíkar vörur hér á landi? Aðalatriðið er, að viðskiptin séu hagkvæm. Og því hagkvæmari sem þau eru, því ódýrara getum við selt vörurnar hér á landi, ef við kærum okkur um það. Það er reikningsdæmi og það er stjórnarráðstöfun og ekkert annað, á hvaða verði við seljum vörurnar hér á landi. Það þarf ekki annað, en lækka tölurnar ofur lítið. Hann veit, að það er vel hægt að lækka tölurnar þannig, að ekki verði úr nein hækkun á vöruverði hér á landi, þó að keyptar væru einstakar vörur dýrari en annars staðar. Það er ákaflega auðvelt fyrir þjóðfélagið að gera þetta, þegar það gerir slík viðskipti, sem eru hagkvæm. Þetta er nú allur galdurinn. Mér er sama, þótt hv. 4. þm. Reykv. verði sér persónulega til skammar. En mér er sárt um háskólann. Og þess vegna vildi ég bara mælast til þess við hann í allri vinsemd, að á meðan hann er prófessor við Háskóla Íslands, vildi hann halda framhleypni sinni ofur lítið í skefjum.