28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2068 í B-deild Alþingistíðinda. (2915)

Marshallaðstoðin

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég mun ekki eyða löngum tíma í að ræða þetta mál, en ég stend upp eingöngu vegna þess, að einn ráðh., sem ekki hefur verið viðstaddur þessar umr., er nú staddur hér, og ég sé ástæðu til að beina til hans og ríkisstj. allrar nokkrum fyrirspurnum. Ég á hér við hæstv. fjmrh. Ef ég man rétt, þá fóru fram hér í þessari d. allmiklar umr. á síðasta þingi um þessa heimild til lántöku, sem ríkisstj. fékk, og m. a. var hæstv. fjmrh. um það spurður, hvort hann mundi nota þessa heimild til að taka lán með nokkrum óvenjulegum skilyrðum, og það leikur ekki á tveim tungum, að þegar þannig var spurt, var átt við Marshalllán. Það var beinlínis spurt um, hvort ráðh. mundi nota heimildina til slíkrar lántöku. Ég man ekki betur, en að hæstv. ráðh. svaraði því til, að heimildin mundi aðeins notuð til að taka lán með venjulegum hætti, engin skilyrði mundu koma til greina í sambandi við lánið önnur en venjuleg lánskjör, þ. e. vextir og afborganir. Nú vill svo til, að ég hef gert tilraun til að fletta upp í umr. um málið, svo að ekkert fari milli mála um yfirlýsingu hæstv. ráðh., en á skrifstofu Alþingis var mér sagt, að því miður gæti ég ekki fengið að sjá umr. um málið, því að þær hefðu verið fengnar að láni af fjmrh. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðherra um það, hvort það sé ekki rétt munað, að hann hafi gefið yfirlýsingu á síðasta Alþ. um, að hann mundi ekki nota lánsheimildina, sem ríkisstj. fékk, til að taka lán með neinum óvenjulegum skilmálum. Nú hefur því verið lýst yfir í löngum umr. hér, af ríkisstj., að Marshalllánið sé tekið samkv. þessari lánsheimild. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., ef ég man rétt hans yfirlýsingu, hvernig hann hefur séð sér fært að taka þetta lán samkv. þeirri heimild, sem fyrir hendi var, og með þeim yfirlýsingum, sem hann hafði sjálfur gefið. Ég veit, að hann hefur verið að athuga sín orð um þetta, þegar hann fékk lánaðar umræðurnar, og ég efast ekki um, að hann greini hér rétt frá því, sem hann hefur sagt um þetta mal, og mun hann ná til að færa sönnur á mál sitt, ef þurfa þykir.