28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (2923)

Marshallaðstoðin

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna síðustu orða hæstv. fjmrh. Það er alveg rangt hjá hæstv. fjmrh., að hann hafi ekki alveg skýlaust lýst því yfir í Ed., að það lán, sem um er að ræða, yrði ekki tekið nema með venjulegum skilmálum snertandi vexti og afborganir. Hæstv. ráðh. lýsti þessu alveg skýlaust yfir, og er ekki um það skuggi af efa, því að ég stóð upp og lýsti því yfir, að ég væri ánægður. Svo er annað. Þm. Str. hélt ræðu í málinu sem frsm. n. og gat þá m. a. um fyrirvara minn að því er þetta snertir. Kvað hann fyrirvarann raunverulega óþarfan, vegna þess í fyrsta lagi, að samkv. þessum l. væri ekki hægt að taka lán nema með venjulegum skilmálum að því er snertir vexti og afborganir, í öðru lagi vegna þess, að hæstv. fjmrh. hefði lýst yfir, að annað kæmi ekki til mála. Ég man, að hv. þm. Str. lagði sérstaka áherzlu í þessum umr. á þarfleysu þessa fyrirvara, vegna þess að augljóst væri, að ekki væri heimild til að taka lánið nema samkv. venjulegum skilyrðum um vexti og afborganir, eins og frv. gerði ráð fyrir. Ég hygg, að það þýði ekkert fyrir hæstv. ríkisstj. að bera móti, að svona var þetta.

En úr því að ég stóð upp á annað borð, vildi ég segja við hæstv. utanrrh., að þegar hann segir eitt í einni ræðu og annað í hinni, þá er undir venjulegum kringumstæðum ekki gott að segja, hverju á að trúa. Hann hefur í ýmsum ræðum hér við umr. verið að reyna að telja mönnum trú um, að hann hafi gert það, sem hann gat, til að koma á viðskiptum við Austur-Evrópu og Sovétríkin. En í lok ræðu sinnar lýsir hann yfir, að það sé hættulegt að hafa mikil viðskipti við þessi lönd. Hverju á að trúa? Undir venjulegum kringumstæðum er ákaflega erfitt að greina það raunverulega, þegar menn segja sitt í hverju orðinu, sem stangast. En í þessu tilfelli er ég a. m. k. ekki í neinum vafa, hverju á að trúa. Ég trúi því, sem hann sagði hér í kvöld, því að það er í samræmi við sannleikann. Það hefur hann reynt nægilega að rökstyðja, þannig að hverju barni ætti að vera skiljanlegt. Þessi hæstv. ráðh. hefur eyðilagt viðskiptin við Sovétríkin og það vitandi vits. Það er sýnt og sannað. Og þegar hann viðurkennir það, þá dettur mér ekki í hug annað en að trúa því. Þá er hann að segja satt, þegar hann segist vera andvígur miklum viðskiptum við Sovétríkin. Annars vil ég segja það, að það er nokkuð hart að heyra þennan hæstv. ráðh. tala um, að það séu hættuleg viðskipti, sem byggjast á pólitískum grundvelli, þegar hann er að ráðast í viðskiptasamning, sem er sá pólitískasti viðskiptasamningur, sem Ísland hefur nokkurn tíma gert, og sá alpólitískasti, sem viðgengst í heiminum, en það er Marshallsamningurinn.

Þá þótti hæstv. ráðh. ég hafa fundið að því, að ríkisstj. hafi ekki viljað kaupa þurrkaða ávexti frá Rússlandi. Þetta sýnir aðferðina í málflutningnum. Ég sagði ekki annað en það, sem er sannleikur, að Sovétríkin höfðu á boðstólum fjölda vörutegunda, sem þeir vildu selja okkur. Og ef ríkisstj. hefði verið reiðubúin til að kaupa þessar tegundir, hefði verið hægt að gera stóran samning. Ég nefndi aðeins tvær tegundir, kornvörur og þurrkaða ávexti. Auðvitað minntist hann ekki á kornvörurnar. (Dómsmrh.: Búið að tala um þær nokkrum sinnum áður.) En ekki voru það aðeins kornvörur og þurrkaðir ávextir, heldur tugir vörutegunda og allt brýnar nauðsynjavörur, m. a. tæknivörur og fleiri. (FJ: Og sement.) Já, það var keypt sement og timbur. (FJ: Hvernig reyndist sementið?) Sementið reyndist vel. (FJ: Ha!) Ég get nú trúað, að þetta eigi að vera næsti leikurinn, að byrja að rægja vörur, sem koma þarna að austan. Það væri eftir þessum hv. þm. Annars hefði ég ekki staðið upp til að svara hv. þm. Ísaf. Hann er einn af þeim mönnum, sem maður telur fyrir neðan virðingu sína að eiga orðastað við, enda málflutningurinn þannig, að ekki tekur nokkur maður mark á honum. (Dómsmrh.: Hvernig var, þegar þeir voru í stjórninni saman?) Það var nú nokkuð skrykkjótt á köflum. (Dómsmrh.: Gátu þeir þá talazt við?) Hv. þm. Ísaf. ber fram fyrir okkur hér, að það hafi verið eftir eigin ósk flokksforingjans, núverandi forsrh., að hann var í framboði í Eyjafjarðarsýslu. Ekki hafði nú hv. 4. þm. Reykv. brjóstheilindi til þess að skrökva þessu. Það vita nefnilega allir, sem hlustuðu á þennan hv. þm., að þetta eru ósannindi. Samt ber hann þetta fram. En þessi hv. þm. er alltaf sjálfum sér líkur. Það er nefnilega svo, að þennan þm. er hægt að nota til þess að segja ósannindi, sem eru svo fjarstæð, að enginn annar mundi fást til að bera þau fram.