03.12.1948
Sameinað þing: 24. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (2929)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er misminni hjá hæstv. utanrrh., ef hann heldur, að það hafi verið venja, að skipun samninganefnda hafi ekki verið borin upp í eða í öllu falli verið rædd við utanrmn. Það hefur meira að segja verið venja á þeim tíma, meðan samninganefnd utanríkisviðskipta var starfandi, að stundum voru mál í sambandi við utanríkisviðskipti borin undir utanrmn. Hitt kann vel að vera, að þessi regla hafi stundum verið brotin. En þetta er reglan, og þó að dæmi kunni að vera til þess, að breytt hafi verið út af þeirri reglu, þá staðfestir það ekki það, að rétt sé að gera undantekningarnar að reglu og fara að ganga fram hjá Alþ. og nefndum Alþ. með stjórnarráðstafanir, eins og virðist koma fram tilhneiging til. — Hvað það snertir, að ráðh. hafi ekki átt í samningum við erlend ríki viðvíkjandi samningum, sem Ísland varða, þá hefur hæstv. forsrh. farið utan og tekið þátt í samkomulagsumleitunum um mál, að því er virðist af stjórnarblöðunum, sem hefur haft áhrif á stefnu ríkisstj. viðvíkjandi máli, sem hæstv. Alþ. hefur tekið ákveðna afstöðu í fyrir 30 árum. Það er þess vegna áreiðanlega fyllilega tími til þess kominn, að Alþ. og utanrmn. hafi eitthvað með það að gera, sem verið er að sýsla um þessi mál. Og mér finnst, að nær hefði verið af hæstv. utanrrh., þegar hann stendur upp hér á Alþ. til þess að ræða um þetta, þegar ég mjög hóflega minntist á, að n., sem er mikilsverð n. í þinginu, hefur ekki tekið til starfa, — mér finnst, að það væri nær fyrir hæstv. utanrrh. að reyna að afsaka það, hve það hefur dregizt að kalla saman fund í nefnd þessari, heldur en að reyna að gera það að venju, sem hann virðist reyna að verja gagnvart þinginu, að senda sendinefndir til útlanda, án þess að ræða við utanrmn, um það. Ég álít, að þetta sé stefna í þá átt að reyna að þurrka sem mest áhrif þingsins burt í sambandi við stjórnarráðstafanir.

Ég mælist ákveðið til þess, að hæstv. forseti ýti við því, að þessi n. taki til starfa.