03.12.1948
Sameinað þing: 24. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (2932)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Það var rétt af hv. 2. þm. Reykv. að taka aftur það, sem hann sagði í fyrstu ræðu sinni, að íslenzkir ráðherrar hefðu nú á síðustu tímum gert samninga við erlenda ráðh. eða erlend ríki. Það er ekki einu sinni svo, að hér hafi verið um neinar samkomulagsumleitanir að ræða. Þessi hv. þm. talaði þannig, að fyrst voru það samningar, sem hann sagði, að gerðir hefðu verið af íslenzkum ráðh., en svo í seinni ræðu sinni sagði hann, að hér hefði verið um samkomulagsumleitanir að ræða. En það var hér heldur ekki um neinar samkomulagsumleitanir að ræða á milli forsrh. Norðurlanda. Hins vegar er það yfirleitt stefna ríkisstj. að stuðla að sem nánustu samstarfi milli ráðherra Norðurlandaríkjanna. Í sambandi við þessa stefnu hafa verið haldnir fundir af ráðh. Norðurlandaríkjanna, forsætis-, viðskipta- og utanríkisráðherrum, um ýmis sameiginleg mál þessara skyldu ríkja.

Út af því svo, sem hv. 2. þm. Reykv. talaði um einhver frávik frá viðurkenndri yfirlýstri hlutleysisstefnu Íslands, þá held ég, að í raun og veru hafi það frávik aldrei komið né heldur tilraun til slíks fráviks. Það er ekki rétt, að sú stefna hafi nokkurn tíma orðið almenn hér á landi. En að svo miklu leyti sem um frávik frá þeirri hlutleysisstefnu hefur verið að ræða hér á landi, þá hefur það átt sér stað af hálfu þess flokks, sem hv. 2. þm. Reykv. veitir forustu, því að það var sá flokkur, sem lagði mjög eindregið til undir stríðslokin síðustu, að Ísland gerðist aðili í stríði. Þá var af þessum flokki hlutleysið talið rangt. En ég segi það fyrir mitt leyti sem skoðun mína, að Íslendingar geta í raun og veru aldrei verið hlutlausir gagnvart vissum atburðum í heiminum, heldur verða þeir að taka afstöðu. Gagnvart yfirdrottnunarstefnum, hvaðan sem þær koma, verða Íslendingar og íslenzka ríkið aldrei hlutlaust. Það er aftur annað mál, að Ísland hefur engan her, og þar af leiðandi hefur það ekki tekið þátt í neinum hernaðaraðgerðum. En ég vonast eftir því, að íslenzka ríkið verði aldrei hlutlaust gagnvart þeim einræðis- og uppivöðslustefnum, sem mest hafa mótað stjórnmálin nú víða í heiminum.