03.12.1948
Sameinað þing: 24. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (2936)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Dómsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. talaði síðast um það efni, sem hann hefur rætt hér, eins og það sé á ábyrgð ráðh., að n. þessi komi saman til funda. Það er nefndarinnar sjálfrar og formanns hennar að sjá um, að þessi n. sé kölluð saman til funda. Mér hefur aldrei dottið í hug, að það væri skylda mín sem utanrrh. að sjá um, að þessi n. komi saman. Hún kemur saman, þegar n. sjálf talar sig saman um það. Og hv. 2. þm. Reykv. getur að vísu haldið um þetta ræður fyrir sjálfum sér, ef honum finnst ástæða til þess, en það er ekki rétt að beina ásökunum til mín út af þessu. — Hitt er annað mál, að utanrmn. hefur náið samstarf við ríkisstj. og ríkisstj. leggur fyrir þá nefnd mál, þegar hún hefur sérstök mál til að leggja fyrir þá nefnd. Og það mun hún gera, þegar lög og venjur segja til. En enn hefur ekkert gerzt, síðan þetta Alþ. kom saman, sem gert hefur það að verkum, að ástæða hafi þótt fyrir ríkisstj. að bera sig saman við utanrmn. Þess vegna hef ég ekki kynnt mér, hvort n. þessi hefur komið saman á þessum tilgreinda tíma eða ekki. Og ég álít það alls ekki skyldu mína að kveðja saman þessa n. til funda, heldur nefndarmanna sjálfra. Í ræðu sinni með þessari fsp. varðaði utanrmn. brá hv. þm. fyrir sig danskri tungu í góðu samræmi við það, að hann hélt, að sambandslögin væru enn í gildi. (EOl: Ég mun hafa tekið mér dönsk orð í munn með tilliti til þess, að hæstv. utanrrh. hlyti að vera það mál sérstaklega kært, úr því að hann er nú orðinn riddari af Danebrog.) Sem betur fer, skyldi ég nú dönsku áður. En hitt kynni að vera, að hv. þm. hefði viljað vekja eftirtekt á því, að fleiri ættu skilið slíka vegtyllu, og hefði ég vissulega ekki nema gott eitt um það að segja, ef hv. þm. fengi hana. Varðandi hlutleysisyfirlýsinguna er annars það að segja, að hv. þm. ætti manna sízt að tala um hlutleysi, þar sem hann og hans flokkur voru á sínum tíma þeir einu, sem vildu fara í stríð við tvær þjóðir.