03.12.1948
Sameinað þing: 24. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2080 í B-deild Alþingistíðinda. (2939)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Ólafur Thors:

Herra forseti. Mér er sagt, að það hafi verið kvartað um það hér, að utanrmn. hafi ekki verið kölluð saman. Það hvílir nú víst á mér sú skylda að kalla saman nefndina, en ég hef nú ekki séð ástæðu til þess, og enginn nm. hefur heldur farið fram á það, ekki einu sinni hv. fyrirspyrjandi. Hann veit þó, að hann á svo innangengt hjá mér, að hann hefði getað snúið sér beint til mín og geymt sér að vera hér með þessi látalæti.

Það er nú annars kunnugt, að Bandaríkin beittu engri kúgun við umrædda samninga, og er það meira en hægt er að segja um sum önnur stórveldi. Hitt er staðreynd, að Bandaríkin vildu halda því fram, að þeim bæri ekki skylda til að fara héðan með her sinn fyrr en friðarsamningar hefðu verið gerðir, enda var þar um atriði að ræða, sem gat orkað tvímælis. Hitt orkaði aldrei tvímælis, að þeir mundu fara, þegar skyldan byði.