14.03.1949
Neðri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (2943)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. eða þess hluta hennar, sem enn þá er eftir í landinu og er ekki floginn burtu, og þá fyrst til hæstv. forsrh., fyrst hann er staddur hér nú, hvort ríkisstj. hafi fengið í hendur uppkast að bandalagssáttmála fyrir Norður-Atlantshafsríkin, og ef hún hefur fengið slíkt uppkast og þó að hún hafi ekki fengið það, hvernig á því standi, að sú ákvörðun hefur verið tekin, að senda helming ríkisstj. til annarrar heimsálfu án þess að hafa um það samráð við Alþ. og utanrmn. þess, eins og l. mæla fyrir. Mér þætti mjög vænt um, ef hæstv. forsrh. gæti upplýst Alþ. um þetta. Ég hef áður komið með fyrirspurnir viðvíkjandi þessum málum, og þá hefur því verið svarað, að enn sem komið er lægi ekkert fyrir um þessi mál. Hins vegar fáum við nú tilkynningu um það í útvarpinu frá öðrum þjóðum, hvað sé fyrirhugað í þessum málum, hvað okkar eigin ráðh. segi. Mér finnst þess vegna ekki seinna vænna, að Alþ. fái a. m. k. að vita um, hvað fyrir liggur.