14.03.1949
Neðri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (2958)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Loksins er búið að fá forsrh. til að meðganga. En það er eftir að fá upplýsingar um það, hvers vegna hálf ríkisstj. var send og þar af tveir menn, sem hvorugur hefur komið nærri utanríkismálum, þeir Emil Jónsson og Eysteinn Jónsson, nema ef telja á ferð Eysteins til Englands forðum, sem af fáum mun nú talin nein frægðarför. Hins vegar hafði ríkisstj. á að skipa mönnum, sem eru þaulvanir utanríkismálum og eiga auk þess sæti í utanrmn., þeim Hermanni Jónassyni varaformanni utanrmn. og Ásgeiri Ásgeirssyni ritara nefndarinnar. Hvernig stendur á, að ekki var heldur leitað til þessara manna eða annarra, sem þekkingu hafa á utanríkismálum? Jú, sannleikurinn mun vera sá, að ríkisstj. kærði sig ekki um að fara út fyrir sinn þrönga hring, það gat orsakað óþægilegar spurningar, sem ríkisstj. kærði sig ekki um að svara.