17.12.1948
Neðri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni. hl. (Einar Olgeirsson):

Mér hefur nú loks borizt þetta skjal, sem ég gat um í minni hl. nál. mínu, þ.e.a.s. afrit af bréfi. sem Landssamband ísl. útvegsmanna sendi Alþ. í dag. Ég tel rétt að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, upphaf þessa bréfs, en þar segir svo:

„Á fundi, sem haldinn var í dag í stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna með formanni Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og sjávarútvegsnefnd L.Í.Ú., var til umræðu frv. til laga um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, sem ríkisstj. lagði fyrir Alþingi í gær, fimmtudaginn 16. desember.

Eftirfarandi ályktanir voru gerðar á fundinum í sambandi við umrætt frv., og leyfum vér oss hér með að senda þær hinu háa Alþingi í trausti þess, að þær verði teknar til gaumgæfilegrar athugunar við afgreiðslu frv.: Fundurinn telur, að frv. feli engan veginn í sér ákvæði, er skapi grundvöll undir rekstri vélbátaflotans og hraðfrystihúsanna á næsta ári, og harmar það, að ríkisstj. og Alþ. skuli enn ekki sjá sér fært að gera slíkar ráðstafanir.

I. kafli frv. kveður á um verð á fiski veiðiskipa og framleiðslu hraðfrystihúsa. Fundurinn vill benda hinu háa Alþ. á það, að verð þetta er allt of lágt ákveðið, og vill í þessu sambandi minna á ályktun síðasta aðalfundar Landssambandsins um það, að fiskverðið þyrfti að vera 88 aurar fyrir hvert kíló af slægðum fiski með haus, og samþykkt aukafundar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna um það, að frystihúsin yrðu að fá kr. 1,50 fyrir hvert enskt pund af flökum, miðað við 65 aura verð á fiskinum, ef rekstur fyrirtækjanna ætti ekki að stöðvast.

Viðræður, sem fram hafa farið milli verðlagsráðs sjávarútvegsins og stjórnskipaðrar nefndar, hafa leitt í ljós, að ályktanir aðalfundar Landssambandsins um 88 aura fiskverð sé sízt of hátt. Þess vegna telur fundurinn augljóst, að verði engar frekari ráðstafanir gerðar en fram kemur í frv. þessu, hljóti þessar atvinnugreinar að stöðvast, enda hljóta þá allsherjarsamtök útvegsins að beita sér fyrir slíku. Ef Alþ. og ríkisstj. vilja komast hjá þeim þjóðfélagslega vanda, sem af þessu mundi leiða, verður að setja inn í frv. ákvæði, sem brúa bilið á milli verðsins í frv. og þess, sem útvegsmenn og hraðfrystihúseigendur verða að fá. Landssambandið hefur fyrr og síðar sýnt fram á leiðir út úr þessum vandamálum, en þær ábendingar ekki teknar til greina.“

Síðan heldur bréfið áfram og getur um till. þær, sem útvegsmenn koma með varðandi ráðstöfun á erlenda gjaldeyrinum. Ég mun síðar láta prenta bréfið í heild, svo að þm. geti kynnt sér það. Ég mun láta þetta nægja nú, þar sem ég hef lofað að tefja ekki umr., en þetta bréf gefur sannarlega tilefni til þess, að málið sé athugað betur.