10.11.1948
Sameinað þing: 15. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (2960)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það hljóta að hafa orðið mistök við samningu þessarar dagskrár, sem liggur fyrir þessum fundi. Fyrir alllöngu bar ég fram ásamt fleiri þm. tvær till. til þál., og voru þær 24. og 25. mál þingsins. [Sérréttindi í áfengis- og tóbakskaupum, Vínveitingar á kostnað ríkisins.] Hvorug þessara till. er á dagskrá, en hins vegar hafa verið teknar á dagskrá fjórar þáltill., sem eru síðar fram komnar, og er ein þeirra 29. mál. Ég vildi mælast til þess við hæstv. forseta, að hann leiti eftir samþykki fundarins til þess að bæta þessum till. inn á dagskrá þessa fundar, það er að segja, hvernig ræða skuli. Sú meðferð tekur venjulega mjög stuttan tíma, og vildi ég vænta, að hæstv. forseti leitaði eftir samþykki fundarins til að bæta þessum tveimur till. á dagskrána, þar sem hér hlýtur að vera um nokkur mistök að ræða.