25.03.1949
Sameinað þing: 54. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (2991)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Á þriðjudaginn var var ákveðin af hæstv. forseta ein umr. um till. til þál. um vantraust á ríkisstjórnina. Ég mæltist þá samtímis til þess, að leitað væri samkomulags milli þingflokkanna, samkv. þingsköpum, um að útvarpa umr. um vantrauststill. Síðan hefur málið ekki verið tekið á dagskrá. Nú er það siður í öllum þingræðislöndum, að þegar vantraust hefur verið borið fram á ríkisstjórn, þá sé það regla, að flest önnur mál víki til hliðar í bili og sannprófað, hvort ríkisstj. hafi traust meiri hluta þingsins. Og sá máttur hefur ætíð verið viðhafður í okkar þingi. Að mínu áliti hefur það nú dregizt allt of lengi að ræða þessa vantrauststill. Ég hef minnzt á þetta við hæstv. forseta nokkrum sinnum. En mér skilst, að hann hafi ekki getað fengið samkomulag við hæstv. ríkisstj. um það, hvenær þetta mál verði sett á dagskrá. Ég vil nú mælast til, að það verði ekki látið dragast lengur, að það vantraust á ríkisstj., sem fram hefur komið í þáltill.-formi, verði tekið á dagskrá.

Enn fremur vil ég ítreka það við hæstv. forseta, að þegar rætt var hér fyrir rúmri viku síðan um fyrirspurnir, þar sem var m. a. fyrirspurn frá mér viðkomandi aðflutningum til Keflavíkurflugvallarins, þá var því lofað, að henni skyldi verða svarað á miðvikudag í þessari viku. Málið hefur ekki verið rætt enn, og þó er komið fram yfir þennan miðvikudag. Hins vegar hef ég lagt mikla áherzlu á, að upplýsingar fengjust um þetta mál. Og ég hef ekki komið fram með svo margar fyrirspurnir á þessu þingi, að það hefði ekki verið hægt að ganga úr skugga um þau svör, sem þyrfti að gefa við þessari fyrirspurn minni.

Vil ég eindregið mælast til þess við hæstv. forseta, í fyrsta lagi, að þáltill. um vantraust á ríkisstj. verði tekin á dagskrá sem allra fyrst og að samkomulagi verði reynt að ná um útvarpsumr. um hana. Og í öðru lagi vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að á næsta fundi sameinaðs Alþingis verði fyrirspurn sú, er ég gat um, tekin á dagskrá, og að þessari fyrirspurn vegna Keflavíkurflugvallarins verði svarað.