25.03.1949
Sameinað þing: 54. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Forseti (JPálm):

Út af óskum hv. 2. þm. Reykv. varðandi till. um vantraust á ríkisstj. skal ég taka fram, að ég tel mér það skylt sem forseta að hafa um það samráð við hæstv. ríkisstj., hvenær þetta vantraust er tekið fyrir, og vegna þess, að formenn flokkanna hafa ekki verið reiðubúnir til þess að taka um það ákvörðun enn, þá hef ég ekki haldið fund um það, en mun hafa hann svo fljótt sem kostur er á. — Varðandi hitt atriðið, sem hv. 2. þm. Reykv. vék að, fyrirspurn hans varðandi tekjur af Keflavíkurflugvellinum, þá er það rétt, að ég lofaði því hér um daginn, að þessari fyrirspurn skyldi verða svarað. En eðlilega gat ég ekki gefið nein loforð um það, hvenær henni yrði svarað. Ég hef ekki lofað, að það yrði síðasta miðvikudag, enda hef ég það ekki á valdi mínu.

Út af þessu vil ég taka það fram, að ég hef orðið þess var, að ég hef legið undir ámæli af ýmsum fyrir það að taka of mikinn tíma í fyrirspurnir á þessu þingi. Ég tel, að þau ámæli séu með öllu ástæðulaus, vegna þess að ekki hafa verið til þau mál til afgr., sem störf þingsins fyrst og fremst velta á. Og ef þessar fyrirspurnir hefðu ekki verið, þá hefði þingið stundum ekki haft neitt að gera. Hins vegar, þegar fjárlögin eru til afgr. komin, get ég ekki dregið umr. um þau vegna fyrirspurna, en mun taka þær svo fljótt á dagskrá sem tími og tækifæri verður til, og í samráði við þá hæstv. ráðh., sem þeim eiga að svara. Og það eru margar fleiri fyrirspurnir heldur en þessi fyrirspurn hv. 2. þm. Reykv., sem nú er ósvarað.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. V-Húnv. skal ég taka til athugunar í dag, hvernig hagað verður fundum síðar í dag og á morgun. En að sjálfsögðu tel ég mér skylt að hafa samráð um það við hæstv. ríkisstj.