16.05.1949
Neðri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (3011)

196. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Frv. þetta hefur verið til athugunar í fjhn., en nm. hafa ekki getað orðið algerlega sammála. Hér er ekki um mikla breytingu að ræða, en þó er fært í þá áttina að herða á innheimtunni og yrði það fært í sama horfið og gert jafnstrangt og hjá bæjarfélögunum. Ég er hikandi að taka afstöðu með þessu máli vegna þess, að innheimta á gjöldum hins opinbera er nú orðin svo ströng, að þegar launþegar fá laun sin greidd, þá er oft meiri hlutinn tekinn upp í gjöld og menn fá aðeins kvittanir. Það má segja, að það sé þægilegra fyrir menn að greiða gjöldin smám saman heldur en láta þau safnast fyrir, en útkoman verður bara oft sú, að menn fá minna en nægir til að draga fram lífið. Mönnum finnst því betra að hafa lánstraust hjá því opinbera og skulda ofurlitið af sköttum heldur en launin hrökkvi ekki til, og þar sem l. eru þegar nógu ströng í þessu, efni, þá held ég, að ekki beri að herða á þeim. Þá er þetta verra fyrir bæina, er þeir fá ríkið sem keppinaut um innheimtu gjaldanna, og er það óheppilegra fyrir þá, þar sem þeir byggja einungis á útsvörunum, en ríkið hefur fleiri tekjuliði og því auðveldara fyrir það að líða um skattana. Þetta gerir, að ég er andvígur þessari breytingu. Þó að hún sé ekki stór, þá gerir hún þó innheimtuaðferðina harðari, og launin eru tekin fyrr af mönnum í skatta. Hins vegar er heimild sú, sem nú er í l., svo hörð, að ég held, að ríkið geti látið sér nægja hana. Ég er því á móti frv.