16.05.1949
Neðri deild: 110. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (3012)

196. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég fór fram á það við fjhn. Ed., að hún flytti þetta mál. Það er rétt hjá hv. 2. þm. Reykv., að þetta er ekki stór breyting, en ég vil benda á það, að mþn. í skattamálum hefur eindregið lagt til, að þessi breyt. verði gerð. Því er nú svo háttað um álagðan tekjuskatt, að hann verður að greiða, og það er ekki þægilegra fyrir gjaldendur að láta ganga að sér seint á árinu um háar upphæðir heldur en að greiða skattana smám saman. — Þá er, eins og segir í ástæðunum fyrir því, að frv. er borið fram, ráðh. heimilt að skylda atvinnurekendur til að halda eftir af kaupi til skattgreiðslu. Þar segir: „Innheimtuaðferð þessi hefur yfirleitt gefizt vel og er beitt í vaxandi mæli. Mjög margir kaupgreiðendur hafa rækt skyldur sínar skv. reglugerðinni fúslega og samvizkusamlega, en aðrir hafa vanrækt þær og sumir þeirra mjög verulega.“ — Þá er þess að geta, að eftir því sem skattheimtan gengur tregar, þá verður ríkið að taka lán hjá bönkunum til að standa við skuldbindingar sínar. Taldi því rn. og mþn. í skattamálum, að heppilegra væri að taka upp þessa skipan. Þá er þetta flutt af því, að ekki þótti rétt gagnvart ríkissjóði, að hann hefði minni rétt í þessum málum, en bæjarsjóðir.