18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Eins og ég gat um við 2. umr. málsins, þá geymdi meiri hl. fjhn. að flytja brtt. við frv. þar til við 3. umr. þess og einnig að athuga sumar brtt. hv. þm., sem borizt höfðu og fluttar voru við 2. umr. frv., og skal ég nú gera grein fyrir þeim breytingum, sem n. leggur til, að gerðar verði á frv., en till. þessar eru prentaðar á þskj. 257.

Það má segja, að n. hafi lagt aðaláherzlu á að athuga þá þætti frv., sem víkja að aðstoð ríkisins við sjávarútvegsmenn, sem felst í III. kafla frv. þessa. Meiri hl. n. hafði í gær viðtal við fulltrúa Landssambands íslenzkra útvegsmanna, og létu þeir einnig n. í té grg. og skýrðu henni frá þeim breyt., sem þeir vildu gera á frv. Það lá ljóst fyrir, að fulltrúar útvegsmanna töldu 65 aura ábyrgðarverðið vera of lágt, og var það ekkert nýtt. Þeir vildu fá 88 aura í stað 65 aura og hafa ítrekað þá kröfu æ ofan í æ, eins og tekið er fram í bréfi til Alþ. frá. þeim. N. athugaði málið allgaumgæfilega og samþ. að mæta útvegsmönnum í viðbótarákvæði við frv. Niðurstaðan kemur fram í 3. brtt. n., og þær breyt. fela það í sér að helmíla ríkisstj. að verja allt að 5 millj. kr. til lækkunar á framleiðslukostnaði sjávarafurða. Ekki er frekar sagt frá því, hvernig slíkt yrði framkvæmt, en reynslan mun sýna, með hverjum hætti þessi stuðningur kemur að beztu liði með tilliti til afkomu og sölu. Útvegsmenn hafa ítrekað óskir sínar um tvöfalt gengi, en meiri hl. n. vill ekki fara inn á þær brautir. Útvegsmenn hafa látið þær óskir í ljós, að verð veiðarfæra verði lækkað frá því, sem nú er, svo og tryggingargjöld skipa. Það er þetta atriði, sem n. hefur haft í huga. Tryggingariðgjöldin munu nú nema um 11 þús. kr. á bát; en það ætti að vera hægt að greiða þau eitthvað niður. Við hlið þessarar brtt. um 5 millj, kr. eru aðrar brtt., og vil ég sérstaklega vekja athygli hv. þm. á brtt. l. Þar er lagt til, að aftan við fyrri málsgr. 2. gr. bætist: „og tilsvarandi geymslukostnaður vegna fisks, sem veiddur er á öðrum tíma.“ Hér er því lagt til, að einhver hluti sé greiddur, hvenær sem fiskur veiðist. En ef sú ábyrgð nægir ekki, sem felst í frv. þessu, þá er ríkisstj. heimilt að hlaupa frekar undir bagga. Þá er og gert ráð fyrir, að hluti geymslukostnaðar sé greiddur, t.d. fyrir rýrnun á saltfiski, sem lengi hefur legið í geymslu. Þá vil ég einnig benda á í sambandi við brtt. en hún er umorðun á 10 gr. frv., að þar er lagt til, að ríkisstj. láti nú þegar endurskoða reglur um verðlag á viðgerðum á skipun, vélum, veiðarfærum og öðrum útgerðarvörum; ráðherra skipi tvo fulltrúa með þekkingu á útvegsmálum og skipaviðgerðum, að fengnum tillögum frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og Fiskifélagi Íslands, til aðstoðar verðlagsyfirvöldunum við verðlagsákvörðunina. Hér er því verið að gera tilraun til þess að lækka verð ýmissa hluta, sem snerta útveginn.

Ég skal ekki hafa mörg fleiri orð um þessar till. Hvernig þessar till. reynast í framkvæmd, fer að sjálfsögðu mikið eftir atvikum. Það verður komið undir atvinnu-, markaðs- og sölumöguleikum. Ég tel persónulega, að ef til vill sé of skammt gengið í sumum atriðum. En megintilgangurinn er að tryggja, að bátarnir fari af stað nú upp úr áramótunum, og n. vonar að svo muni fara, og hefur hún gengið svo langt til móts við útvegsmenn sem mögulegt er að ná samkomulagi um.

N. hefur borið fram brtt. við II. kafla frv. Aðalefnið er það, að útvegsmenn mótmæltu mjög harðlega lögþvinguðum skuldaskilum, og kom slíkur skilningur fram í meðferð málsins í fjhn., að í 17. gr. væru lögþvinguð skuldaskil. Við nánari athugun litu menn misjafnt á þetta. Fulltrúar útgerðarmanna lýstu fylgi við 12.–16. gr., en voru á móti lögþvinguðum skuldaskilum samkvæmt 17. gr., en því var breytt á þann hátt, sem þeir töldu sig geta unað við. Ég vona, að greinin sé með þessu greinilega orðuð. Ef útgerðarmaður hefur óskað eftir aðstoð samkv. 12. og 13: gr. og ekki komizt að samkomulagi við lánardrottna sína, getur hann gengið lengra og krafizt skuldaskila samkv. 17. gr. Þá er lagt til, að heiti kafla þessa verði breytt og korni tímabilið 1945–48, en verði ekki aðeins sumarið 1948. Það getur hagað svo til, að útgerðarmaður hafi stundað síldveiðar sumurin 1945–47; en hætt svo eða stundað annan útveg sumarið 1948, og er að sjálfsögðu ekki meiningin að svipta þá menn aðstoð. Þá er lagt til í 7. brtt., að 4. tölul. 13. gr. breytist nokkuð frá því, sem er í frv. N. leggur til, að hann orðist þannig: ,;Að útgerðarmaður nái viðunandi samningum við lánardrottna sína, að dómi skilanefndar, á öðrum skuldum sínum, til þess að útgerð hans verði rekin framvegis á fjárhagslega tryggum grundvelli.“ Og það, sem stendur á bak við þetta, er það, að það gæti verið metið viðunandi, ef útgerðarmaður semdi við lánardrottin þannig að breyta skuld í langsamningsbundið lán, þannig að aðstaða útgerðarmannsins yrði hagstæðari. Þetta er venjulega ekki kallaður afsláttur, og því er 7. brtt. flutt.

Aðrar breyt. n. eru minni háttar, en þó er rétt að geta þess, að n. leggur til í 12. brtt., b-lið, að bætt verði inn í frv. nýjum tekjuöflunarlið til að mæta 5 millj. kr. framlaginu, þannig að nýr liður komi á eftir c-lið 29. gr., að greiða skuli 50% af leyfisfjárhæð eins og þar segir. Þetta gæti munað um 3–4 millj. kr. tekjum eftir upplýsingum, sem n. hafa borizt. En til viðbótar skal ég geta þess, að sú tekjuöflun, sem frv. fer fram á til dýrtíðarsjóðs, getur orðið 70 millj. kr., og er þá miðað við þá upphæð, sem greidd var í fyrra, en ég vil vekja athygli á því, að uppbætur á útflutt kjöt samkv. 5. gr. koma nú sennilega ekki til greina, eftir því, sem komið hefur fram í umr. í fjhn., þar sem kjötmagn sé ekki svo mikið, að til útflutnings komi, en uppbætur á útflutt kjöt námu 4,6 millj. á s.l. ári, og koma þær því ekki til útgjalda nú. — 9. brtt. er breyting á 17. gr. Þá eru smávegis breyt. í 10. og 11. brtt., sem hv. þm. átta sig auðveldlega á, og þótti ástæða til að lengja kærufrestinn í 23. gr. úr 10 dögum í mánuð. — Þá er ekki ótalið annað, en a-liður 12. brtt., að lækka álagið á jeppabifreiðar og vörubíla. Í frv. er gert ráð fyrir 50% af bílum, en n. leggur til. að af þessum tveim tegundum verði 25% gjald, og til nánari skýringar, að leyfisgjald miðist við tollmat, ef gjaldeyris- og innflutningsgjald hljóðar ekki á ákveðna upphæð. — Þá held ég, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð að svo komnu fyrir brtt. n. á þskj. 257.