02.05.1949
Neðri deild: 96. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1839 í B-deild Alþingistíðinda. (3032)

120. mál, menntaskólar

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft þetta mál lengi til athugunar og hefur rætt við fræðslumálastjóra, skólastjóra Menntaskólans á Akureyri, rektor Menntaskólans í Reykjavík, skólastjóra Gagnfræðaskólans á Akureyri og auk þess við milliþn. í skólamálum, eða hún hefur fengið skriflega álitsgerðir frá þessum aðilum. Ég hygg, að öllum í n. hafi verið það ljóst, hvílík vandkvæði væru á því að höggva slíkt skarð í fræðslulöggjöfina sem gert er ráð fyrir á þskj. 302. Með því að fara inn á þá braut hefði skapazt svo mikið ósamræmi milli Menntaskólans á Akureyri og Menntaskólans í Reykjavík, að n. taldi ekki fært að samþykkja þá till., en vildi hins vegar taka eitthvert tillit til óska skólameistara og kennara Menntaskálans á Akureyri, sem óskuðu eindregið eftir því, að gagnfræðadeildin fengi að vera áfram við skólann.

Nú er verið að fullgera hið glæsilega heimavistarhús menntaskólans, og er vonazt eftir, að hægt verði að taka það í notkun á komandi hausti. Þá verður hægt að taka 160 nemendur í heimavist í stað 70 áður, sem þá bjuggu í sjálfu skólahúsinu. Forstöðumenn skólans bentu á það, hvílíkt ósamræmi væri í því, að á sama tíma og húsrúm skólans ykist að miklum mun, þá væru lagðir niður 2 bekkir í skólanum, og þeir fóru því fram á að fá að hafa gagnfræðadeildina áfram, eins og greint er frá á þskj. 302. Meiri hl. n. vildi ganga nokkuð til móts við þessar óskir norðanmanna og vildi fallast á það, að starfrækt yrði miðskóladeild við Menntaskólann á Akureyri og yrði hún aðallega fyrir utanbæjarnemendur, sem gætu þannig notið góðs af heimavíst skólans. Um próf yrði svo að setja reglur með reglugerð fyrir þessa deild, og væri eðlilegast, að þær reglur yrðu með svipuðum hætti og verið hefur. Um leið og þessi háttur yrði hafður á, leggur meiri hl. n. til, að lærdómsdeild skólans starfi áfram eftir l. nr. 58 frá 1946, um menntaskóla, og að sams konar reglur gildi um Menntaskólann á Akureyri og aðra menntaskóla.

Minni hl. n., hv. þm. A-Sk. og hv. 6. þm. Reykv., töldu þessa breytingu meiri hl. vera ti1 bóta, en eru þó andvígir frv. og munu greiða atkv. gegn því.

Samkv. þessu leggur því meiri hl. n. til, að í næstu 2 ár verði starfrækt miðskóladeild við Menntaskólann á Akureyri, og auk þess leggur meiri hl. til, að við frv. bætist ný grein, svo hljóðandi: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Meginhugsun meiri hl. með þessu er sú að koma til móts við óskir forstöðumanna Menntaskólans á Akureyri, án þess þó að höggva mikið skarð í fræðslulöggjöfina, og að hjálpa utanbæjarnemendum með þessu móti til þess að njóta góðs af heimavíst menntaskólans. Ég hygg, að Alþingi gerði rétt í að mæta kröfum norðanmanna á þennan hátt, og tel, að með þessu sé ekki skapað neitt það fordæmi, sem gæti komið sér illa síðar meir. Það er vissulega eðlilegt, að Alþingi standi fast um framkvæmd hinnar nýju löggjafar, en það má þá ekki einskorða sig svo, að engu sé hægt að hnika til, hvernig sem málum er háttað, og þess vegna legg ég til, að Alþingi samþykki það, að þessi miðskóladeild verði starfrækt við Menntaskólann á Akureyri næstu tvö ár.