05.05.1949
Neðri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (3040)

120. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Eysteinn Jónasson):

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð í framhaldi af því, sem ég sagði við 1. umr. þessa máls. Ég lét þess getið þá, að ég sæi ekki ástæðu til að gera þær breytingar á fræðslulöggjöfinni, sem frv. fer fram á, og taldi þær beinlínis mjög varhugaverðar. Þessa skoðun hefur einnig athugun í nefndinni stutt. Ég skal ekki endurtaka mikið af því, sem ég sagði við 1. umr., en þó get ég ekki stillt mig um að minnast örlitið á einstök atriði.

Því var haldið fram, að mikið húsnæði mundi, ef gagnfræðadeildin væri afnumin, verða lítt eða ekki notað í Menntaskólanum á Akureyri. En þetta er, eins og hv. 6. þm. Reykv., frsm. minni hl., tók fram og skýrði, hinn mesti misskilningur. Það mun ekki af því leiða, að húsnæði verði of mikið fyrir það fólk, sem leitar þangað til framhaldsnáms, því að nú fjölgar þeim óðum, sem taka landspróf, og munu þeir unglingar fyrst og fremst leita norður vegna þess, hve þröngt er í Menntaskólanum í Reykjavík.

Önnur aðalröksemd flm. frv. er, að nú sé að risá við Menntaskólann á Akureyri stórt og vandað heimavistarhús. Því er þar til að svara, að þótt lokið sé við það, sem frekast er unnt af því húsi, verður ekki hægt að taka í notkun á hausti komanda heimavistir nema fyrir 30–40 nemendur og með öllu óvíst, hvenær hægt verður að ljúka smíði þess vegna fjárskorts. Þessara heimavista mun og verða full þörf, þótt ekki verði þarna, eins og á að vera, nema fjögurrá bekkja framhaldsskóli. Það mun og sýna sig, ef haldið er yngri deildum skólans, að ekki verður hægt að kenna nema í óviðunandi húsnæði og gengið því mjög á rétt þeirra, er stunda framhaldsnám í skólanum. En það er viðurkennt af flm. frv., að þeir, sem eru í framhaldsdeildum skólans, eigi mun fyllri rétt á kennsluplássi, en yngri deildirnar og ekki komi til málá að halda þeim nema meðan húsnæði sé fyrir hendi. Þá er nú upplýst að óþarfi hefði verið áð innleiða deilur um þessi mál hér, því að full vissa er nú fyrir því, að Gagnfræðaskólinn á Akureyri getur bæði hvað stærð og útbúnað snertir tekið á móti öllum þeim er stunda vilja gagnfræðanám á Akureyri. En hér í Reykjavík er hins vegar mikill skortur á húsnæði til þess að taka á móti nemendum úr gagnfræðaskólum. En í grg. þessa frv. er það jafnvel gefið í skyn, að ástandið sé í þessu efni betra í Reykjavík, en á Akureyri og þess vegna sé sérstök ástæða til þess að gera undanþágu með þetta viðkomandi menntaskólanum. Þessu er alveg öfugt farið, eins og 6. þm. Reykv., frsm. minni hl., hefur greinilega undirstrikað.

Eina röksemdin, sem þá er eftir að svara, er sú, að það sé stórtjón fyrir utanbæjarnemendur eða fyrir landsmenn utan Akureyrar, að neðstu bekkir þessa skóla verði lagðir niður, vegna þess að þá eigi unglingar ekki kost á slíku námi annars staðar, sem þeir hafa notið í mjög ríkum mæli áður á Akureyri, og einnig dvalar í heimavistinni. Vitanlega er hægt að stunda undirbúningsnám í þessum 2 eða 3 bekkjum í Gagnfræðaskóla Akureyrar, — en hann hefur ekki heimavist. Það er þá eina atriðið, að það sé slíkur missir fyrir landsfólkið að tapa af heimavistinni á Akureyri fyrir börn sín. Þetta er þýðingarmikið atriði til athugunar. Eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, þá hefur heimavistin á Akureyri aðallega verið notuð fyrir þá, sem lengra eru komnir, en mjög lítið fyrir nemendur í 1. og 2. bekk. Þessi röksemd, að hér sé miklu bjargráði burtu svipt, ef heimavistin sé ekki opin fyrir nemendur 1. og 2. bekkjar, fær að örlitlu leyti staðizt. Ég skal upplýsa það, sem ég upplýsti hér við 1. umr., að síðast þegar skýrslur voru teknar um þessi efni af fræðslumálastjóra, í sambandi við þetta mál, þá var af 20 nemendum. sem í 1. bekk voru, 1 nemandi í heimavistinni,. Þessir nemendur hefðu því allir getað gengið í Gagnfræðaskólann á Akureyri, en aðeins 1 nemandi hefði misst af skóla vegna þess að geta ekki notið heimavistar. Af 37 nemendum, sem voru í 2. bekk, voru 9 í heimavistinni. Af þessum 57 nemendum, sem voru í 1. og 2, bekk, voru aðeins 10 í heimavistinni. Sl. vetur var gengið mjög fast eftir þessu máli, og ég neyddist til að gera tilraun með undanþágu að taka eina deild og láta utanbæjarmennina sitja fyrir. Það var gert til þess að sýna, hvað þessi þörf væri brýn. Skólastjórinn tók þá utanbæjarmenn, sem sóttu og honum fannst að ættu réttinn til þessarar skólavistar. Reynslan varð sú, að það voru 10 eða 11 utanbæjarmenn, sem fengust í þessa deild, sem leyfð var s.l. haust, sem var 1. bekkur. Síðan voru teknir Akureyringar til að fylla upp í bekkinn. Ég held, að það hafi verið 1 eða 2 af þessum 10 eða 11 mönnum í heimavistinni, svo að þessi röksemd, að það verði að gera þessa undanþágu frá fræðslui. vegna þess, hvernig ástatt er með möguleika manna í sveitum landsins til að koma börnum sínum til gagnfræðanáms, fær ekki staðizt. Eins og áður er sagt, leyfði ég undanþágu þarna til þess að prófa það, hve þörfin væri brýn, og það sýndi sig, að málin stóðu svona, eins og ég hef lýst. Fram hjá þessu er ómögulegt að ganga. Ég var mjög veikur fyrir þessu upphaflega, þangað ti1 ég hafði kynnt mér alla málavexti og séð það svart á hvítu, að heimavistin hafði ekki verið neitt bjargráð fyrir yngstu nemendurna, heldur voru það frekar þeir, sem lengra voru komnir; sem notuðu hana. Og ég sá líka af þessari reynslu, sem varð í fyrravetur, að það er ekki brýn þörf að gera þessa undanþágu, af því að menn hafa margvíslega möguleika til þess að koma börnum sínum til framhaldsnáms, aðra en að setja þau í lægstu bekki Menntaskólans á Akureyri. Þetta hefur gerbreytzt á nokkrum árum, eins og fræðslumálastjóri hefur greinilega sýnt fram á í álitsgerð sinni um málið. Fyrir nokkrum árum hefði það verið mjög þungt áfall fyrir fólkið víðs vegar um landið, ef þessi breyting hefði verið gerð, en nú er þetta ekkert áfall, því að ótal möguleikar standa mönnum nú opnir sem ekki voru til fyrir fáum missirum síðan.

Sannleikurinn er sá, að talsvert af þessum áhuga fyrir því, að ekki megi breyta þessum skóla á Akureyri, eins og gert hefur verið hér í Reykjavík, stafar af gömlum misskilningi. Menn hafa ekki áttað sig á því, að ástandið er breytt frá því, sem það var, þegar þeir voru sjálfir í skóla og það var eini möguleikinn að komast í þennan skóla. Sama er að segja um þá, sem áttu unglinga, sem sóttu skóla fyrir 5–6 árum síðan. Ástæðurnar eru gerbreyttar frá því, sem þá var. Þá hefði verið óviðunandi að gera þessa breytingu. Menn verða að gefa sér tóm til þess að athuga allar ástæður, en láta ekki einhverjar óljósar tilfinningar ráða í þessu efni. Nú mætti kannske segja sem svo: Þetta getur allt verið rétt fram tekið hjá frsm. minni hl., en er það ekki útlátalaust að verða við þessum óskum forstöðumanna skólans á Akureyri? Því að sannleikurinn er sá, að þetta er mikið sótt af forstöðumönnum skólans. Fyrir þeim er þetta prinsipmál, sumpart metnaður fyrir sína stofnun og sumpart trúin á, að þetta sé betra skólakerfi að hafa menn 6 ár í einum skóla heldur en 2 ár í einum og 4 ár í öðrum skóla. Þá er þess að geta, að þetta atriði var gert upp, þegar nýju fræðslul. voru sett. Þá voru menn yfirleitt sammála um að hafa svona skipan á þessum málum. Það hafa engin málefnisleg rök komið fram, sem hníga í þá átt, að ástæða sé til þess að hverfa frá þeirri skipan og taka upp þá gömlu. Spurningin er þá: Er ekki útlátalaust að gera þetta? Mér finnst á meiri hl., að þeim virðist ekki rétt að breyta kerfinu, en þeim finnist rétt að taka tillit til óska skólastjórans og kennaranna. Í þessu sambandi vil ég í fyrsta lagi benda mönnum á þetta: Það er, eins og ástatt er nú í Menntaskólanum á Akureyri, eins og trú þeirra manna, sem þar stjórna, á því, að það sé um að gera að hafa þarna 6 vetra skóla, sé svo sterk, að það megi alveg gera ráð fyrir því, að það verði haldið svo fast í það í framkvæmdinni, að það geti orðið til baga fyrir þá, sem eiga rétt á að stunda þarna framhaldsnám, heimildin gæti orðið til þess, ef hún væri veitt, að Menntaskólinn á Akureyri tæki upp kennslustofur og heimavist fyrir fólk, sem er að stunda nám í 1. og 2. bekkjum, — sem eru nemendur, sem auðveldlega geta aflað sér náms annars staðar, — á sama tíma sem útilokaðir yrðu frá að fá skólavist nokkurs staðar nemendur, sem búnir eru að taka landspróf og eiga fullkominn rétt á að komast í skóla til framhaldsnáms. Auk þessa eru margar fleiri ástæður, sem mæla á móti því sérstaklega að gera þetta. Ég vil nefna hér eina. Eina ástæðan fyrir því, að þessi breyting var gerð á skólakerfinu, var sú, að menn vildu losna við hið ægilega kapphlaup, sem var um það að komast í Menntaskólann í Reykjavík og var háð í sambandi við samkeppnispróf inn í 1. bekk. Þetta var samkeppnispróf, sem allir höfðu andstyggð á. Nú vil ég benda mönnum á það, að ef þetta frv. verður samþ. og námsfólk á Akureyri óskar af einhverri ástæðu að komast strax í þann skóla, sem það ætlar að vera áfram í, menntaskólann, heldur en fara fyrst í gagnfræðaskólann, — og það er enginn vafi á því, að menn velja heldur menntaskólann, þó að engin málefnisleg rök séu fyrir því, — þá er verið að innleiða á Akureyri samkeppnisprófið, sem menn vildu losa sig við hér í Reykjavík með nýju skólal.

Þegar ég gekk inn á það, að þessi eini bekkur væri hafður til reynslu í Menntaskólanum á Akureyri, sagði ég skólastjóranum, að ég vildi ekki samþ. þetta samkeppnispróf. Skólastjórinn spurði þá um það, hvernig hann ætti að velja nemendur í bekkinn, og sagði ég honum að gera það eftir eigin mati í þetta skipti. En mér skildist á honum, að samkeppnispróf yrði að hafa, ef deildin yrði starfrækt áfram, og er þá komið á Akureyri alveg sama ástandið og var hér í Reykjavík og það alveg að ástæðulausu. Það má einnig búast við því, að ef þetta verður gert, þá byrji sams konar áróður í Reykjavík um það, að ef Menntaskólinn á Akureyri eigi að fá þetta, sem mér skilst, að sumir skólamenn kalli réttindi, þá eigi Menntaskólinn í Reykjavík að hafa þau líka. Og mér er kunnugt um það, rektor Menntaskólans í Reykjavík hefur sagt mér það, að ef Menntaskólinn á Akureyri verði ekki gerður að 4 vetra skóla, eins og l. um menntaskóla ætlast til, þá leggi hann áherzlu á, að Menntaskóli Reykjavíkur fái líka heimild til þess að hafa 1. og 2. bekkjar deildir hjá sér. Og með hvaða rökum ætla menn þá að neita Menntaskólanum í Reykjavík um þetta, og hvernig ætti þá að haga inntökuprófi í hann?

Auk þess er annað, sem ástæða er til að undirstrika, af því, sem hv. frsm. minni hl. upplýsti, sem sýnir, hvað þetta er takmarkað allt saman. Nú er gert ráð fyrir því, sem er til bóta, hjá allri n., að það skuli kveða svo á, að í menntaskólanum skuli vera miðskóladeild. Eins og hv. frsm. minni hl. gat um, er miðskóladeildin 3 vetra skóli. Er menntaskólinn reiðubúinn til að hafa þarna 7 vetra skóla? Ef hann er það ekki, hvernig á þá að fara með þetta? Á að tína út einhverja útvalda, eftir að þeir eru búnir að vera eitt ár í öðrum skólum, og taka þá inn í menntaskólann? Á að tína þá úr með samkeppnisprófi eða hvað? Námstilhögun er ekki sú sama í miðskólum og nú er í lægstu bekkjum Menntaskólans á Akureyri. Ég veit ekki, hvort þeir, sem að þessu standa, hafa gert sér fyllilega grein fyrir því, hvernig á að koma þessu öllu heim og saman. Svo vil ég líka benda á það, að ef hluti af gagnfræðanáminu á að vera áfram í menntaskólunum, þá koma kennararnir úr gagnfræðaskólunum, sem hafa lægri laun en kennarar menntaskólanna, og spyrja um það, hvers vegna þeir eigi að hafa lægri laun fyrir að kenna hið sama.

Það má kannske segja, að það hafi verið rangt af mér að leyfa að hafa þessa undirbúningsdeild í skólanum s.l. vetur. En ég gerði það til þess, að það væri ómögulegt að væna mig um það, að ég vildi ekki reyna þetta til hlítar, hvernig ástandið væri í þessum efnum og hversu þörfin væri brýn. Hins vegar hefur mér verið ómögulegt að loka augunum fyrir þeirri reynslu, sem fékkst, og þess vegna er ég alveg eindregið þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að samþ. þetta frv. og ekki heldur, þó að því sé breytt í það horf, sem n. leggur til, þó að það sé að vísu skárra að hafa þetta eins og hún leggur til heldur en frv. óbreytt. Það er að því leyti betra, að heimildin er bundin við 2 ár. Þá á Alþ. að taka málið til umr. aftur. Einnig er tekið fram, að þarna skuli starfa miðskóladeild, og enn fremur er tekið fram, að þetta skuli framkvæmt, ef húsrúm leyfir, en ekki, ef húsrúm leyfir að dómi skólastjóra. Það yrði þá að vera að dómi fræðslumálastjóra, og ég lít þannig á, að á þann hátt eigi að túlka þetta ákvæði.

Ég vil svo að lokum segja það, að ef það kemur til mála, að Alþ. vilji hafa sérákvæði um Menntaskólann á Akureyri eftir því, sem frv. fer fram á, þá sýnist mér, að það þurfi að takmarka þau enn betur en gert er í þeim brtt., sem hér liggja fyrir.