05.05.1949
Neðri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1855 í B-deild Alþingistíðinda. (3042)

120. mál, menntaskólar

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er nú ekki orðið mjög margt, sem ég sé ástæðu til að segja fyrir hönd meiri hl. menntmn. í tilefni af þeim andmælum, sem hér hefur verið hreyft gegn þeirri breyt., sem meiri hl. n. leggur til, að þetta frv. verði afgr. með. Þessi mótmæli eru raunverulega tvíþætt, eru byggð annars vegar á því, að það sé ekki unnt að framkvæma þessa skipan á málefnum Menntaskólans á Akureyri vegna húsnæðis skólans, vegna þess ástands, sem hann eigi við að búa í húsnæðissökum. Og í öðru lagi byggjast mótbárurnar gegn sjálfu fyrirkomulaginu, sem lagt er hér til, að verði haft um rekstur skólans.

Ég vildi fyrst leyfa mér að fara nokkrum orðum um nokkrar aths. hv. frsm. minni hl. n., 6. þm: Reykv. Hann reyndi að færa rök að því, að það yrðu í raun og veru aldrei nema níu kennslustofur, sem skólinn hefði yfir að ráða, eftir að heimavistin væri flutt úr sjálfu skólahúsinu, og benti á það í því sambandi, að tvær af núverandi kennslustofum skólans væru í kjallara hans og lítt nothæfar. Ég verð að segja, að í þessum efnum held ég, að hv. þd. hljóti að leggja meiri trúnað á það, sem sjálfir forráðamenn skólans segja um þetta atriði. Þeim hlýtur að vera betur kunnugt um það, hvernig húsnæði skólans verður háttað, eftir að heimavistin er flutt úr honum, heldur en hv. 6. þm. Reykv: er um það, enda þótt hann hafi á sínum æskuárum numið í Gagnfræðaskólanum á Akureyri. Stofurnar þarna eru nú níu. En það þýðir ekki það, þó að þær séu níu nú, að það sé alveg óumbreytanlegt lögmál, — eins og t.d. miðflóttaaflið, — að það geti þess vegna aldrei verið nema níu kennslustofur í Menntaskólanum á Akureyri. Það er engin Pýþagórasarregla, að það geti aldrei verið nema níu kennslustofur í Menntaskólanum á Akureyri, enda þótt flutt sé úr honum önnur starfsemi hans. Ég hygg, að allir hv. þm. viti, að í menntaskólahúsinu á Akureyri er nú heimavist: Þar er matsalur og þvottahús, og þar er fjölþætt starfsemi rekin í sambandi við heimavistina. Það liggur í augum uppi, að það hlýtur að vera rétt, sem forráðamenn skólans segja, að það skapast mikið aukið húsnæði við það, að heimavistin fer úr skólahúsinu. Þessu má ekki hv. frsm. minni hl. menntmn. ganga fram hjá eða segja, að það, að aldrei geti orðið nema níu kennslustofur í Menntaskólanum á Akureyri, sé jafnóyggjandi og Pýþagórasarreglan. (SigfS: Ég held, að hv. þm. N-Ísf. sé búinn að fá óráð.) Hv. 6. þm. Reykv. hefur eiginlega aldrei farið úr þeim ham að vera eins rökvís eins og þegar hann hefur verið að kenna Pýþagórasarregluna. Hún á alls ekki við menntaskólahúsið á Akureyri. (SigfS: Þingmaðurinn er alveg búinn að tapa sér.) Ég vil halda mig við það, sem menntaskólamenn á Akureyri segja um þetta, að það séu ekki níu, heldur 16–18 stofur, sem fást í þessu húsi, er heimavistin er úr því farin. Og ég trúi þessu, ekki aðeins vegna áreiðanleika þessara manna, heldur vegna þess, að ég þekki þetta sjálfur og þarf ekki að láta hv. frsm. minni hl. menntmn., 6. þm. Reykv., segja mér neitt um þetta. (SigfS: Ég sagði, að hægt væri að fjölga stofunum upp í þetta.) Ég skil vel, að hv. þm. vill nú draga í land, þegar hann sér, að þessi rök hans eru svo gersamlega haldlaus. — Þetta er nú í sambandi við þá mótbáru hv. 6. þm. Reykv., sem er í sambandi við húsnæði skólans.

Hv. 6. þm. Reykv. minntist þessu næst á það, og vildi upplýsa okkur í meiri hl. n. um það, að samkv. fræðslul. væri gert ráð fyrir, að miðskóladeild væri þrjú ár. Það er rétt, og það hefur okkur verið ljóst. Það er þess vegna um tvær leiðir að velja fyrir Menntaskólann á Akureyri, þegar stofnuð hefur verið miðskóladeild í staðinn fyrir gagnfræðadeild hans, þá annars vegar, að hafa þar þriggja ára miðskóladeild og gera skólann þannig að sjö ára skóla, og í öðru lagi þá, að hafa þessa miðskóladeild tvö ár, þannig að þar verði 2. og 3. bekkur miðskóla, þannig að tekið verði próf í raun og veru upp í 2. bekk miðskóla, þegar nemendurnir koma í skólann. Og ég hefði talið eðlilegast, að tekið væri próf inn í þennan miðskóla, og þannig inn í menntaskólann, eins og gert hefur verið undanfarið. Það hefur verið undanfarin ár haldið inntökupróf inn í Menntaskólann á Akureyri. Og mér þykir eðlilegast, að sá háttur yrði hafður á áfram. Og ég sé ekki, að það sé nein hætta í því, þó að það próf verði haldið og að það væri þá ýmist, að nemendur kæmu þá beint úr barnaskólanum, 13 ára, eða að þeir kæmu úr unglingaskólum eða öðrum miðskólum. Ég sé enga hættu í þessu og það fyrst og fremst vegna þeirra upplýsinga, sem fyrir liggja hér frá forráðamönnum Menntaskólans á Akureyri. Og undanfarin ár hefur fjöldi nemenda komið inn í skólann 13 ára að aldri, þeir hafa tekið sitt próf og tekið sæti í skólanum að því loknu. Þetta hefur gefizt vel, og ég sé ekki, að það þurfi að gefast neitt verr í framtíðinni, en það hefur gefizt á liðnum árum. Og þetta hefur stöðugt verið að fara í vöxt, að unglingar hafa verið að koma yngri og yngri til skólans, og liggja til þess ýmis rök, sem ég sé ekki ástæðu til að fara út í hér. — Ég held þess vegna, að það sé ekkert óeðlilegt við þá till. n. að leggja til, að við skólann starfi miðskóladeild. En það verður að vera á valdi skólastjórnarinnar og fræðslumálastjórnarinnar og menntmrh., hvernig þessu verður fyrir komið, hvort þetta verður þriggja ára deild, eins og ég minntist á, eða hins vegar þannig, að 1. bekkur skólans svaraði til 2. bekkjar miðskóla. Ég hygg, að það hljóti að verða samkomulag skólastjórnarinnar og hæstv. menntmrh. um þetta, sem hefur nú sýnt, hæstv. ráðh., með því að leyfa 1. bekk að starfa þarna í vetur, að hann vill mæta sanngjörnum óskum skólans og stjórnenda hans.

Ég skal ekki mikið ræða um Gagnfræðaskólann á Akureyri og gagnfræðaskólana fyrir norðan — ekki sízt þegar hv. þm. Ak. hefur minnzt á þá staðhæfingu hv. 6. þm. Reykv., að þessir skálar væru að vaxa upp um allt Norðurland og af því væri ekki eins mikil þörf fyrir gagnfræðadeild við Menntaskólann á Akureyri eins og áður. En áður en vaxið hafa upp gagnfræðaskólar í flestum sýslum norðanlands eða jafnvel í flestum byggðarlögum norðanlands, hlýtur langur tími að liða. Við vitum það hér, hvernig horfir í byggingamálum skólanna yfirleitt nú, og þá ekki hvað sízt gagnfræðaskólanna. Við vitum um möguleikana til þess að leggja fram fé til þessara stofnana. Og sannleikurinn er sá; að það er ekki hægt að koma þessari fræðslu á traustan og öruggan grundvöll án þess að byggja fjölda af skólum víðs vegar um allt landið fyrir þessa fræðslu. Og þess vegna væri það geysilegt óhagræði fyrir héruðin á Norðurlandi, og ekki aðeins á Norðurlandi, heldur líka á Vestur- og Austurlandi, ef afnumin yrði miðskólakennsla við Menntaskólann á Akureyri. Og ég mun koma nánar að því síðar í sambandi við annað atriði.

Varðandi þá skoðun hv. 6. þm. Reykv., frsm. minni hl. menntmn., að öruggara sé og heppilegra fyrir fólk út um land að senda börn sin, sem á þennan skóla fara, til dvalar hjá einstaklingum á Akureyri, heldur en í heimavist, þá er ég á alveg gagnstæðri skoðun í því efni. Ég held, að starfsemi heimavistarinnar við menntaskólann þar og fyrr við gagnfræðaskólann hafi sýnt, að nemendur eigi þar kost á mjög ákjósanlegum dvalarstað. Og ég held, að hin djúptæku uppeldisáhrif Menntaskálans á Akureyri séu ekki hvað sízt heimavistinni að þakka. Og ég þekki fjölda fólks, sem hefur verið þar, og hef sjálfur verið þar. Og ég held, að dvölin í heimavistinni þar sé sá þáttur í skólalífinu., sem við einna sízt vildum vera án. Og við höfum mörg horft upp á, að þeir, sem bjuggu úti í bæ, voru miklu lausbeizlaðri og afstaða þeirra til skólans var í raun og veru allt önnur en hinna, sem í heimavistinni bjuggu. Þetta er líka staðreynd, sem talar sínu máli.

Varðandi þá röksemd hv. frsm. minni hl. menntmn., að það sé varhugavert fyrir hv. d. að afgr. þetta mál, vegna þess að fræðslumálastjóri og milliþn. í skólamálum og menntmrh. séu mótfallin því, þá verð ég að segja, að ég ber fullkomna virðingu fyrir þekkingu hv. frsm. minni hl. n. í skólamálum. Ég veit, að hann er kennari, og góður kennari og þrautþekkir þetta. Ég veit og, að hæstv. menntmrh. er glöggur maður á þetta, svo og fræðslumálastjórinn. En ég vil benda þessum hv. mönnum á það, að það eru líka merkir skólamenn, sem eru á gersamlega öndverðum meið við þá í þessu máli og leggja áherzlu á það við hæstv. Alþ. vegna þeirrar stofnunar, sem þeir stjórna, og vegna hagsmuna þess fólks, sem sækir skólann, að þetta sé sjálfsögð og eðlileg breyting. Þannig stendur þarna orð á móti orði. Þarna standa merkir og reyndir skólamenn hvor á sínum meiði í málinu, þannig að þetta er engin röksemd, sem eigi að vera hægt að slá hv. þm. við með, eins og mér skilst, að eigi að vera áhrifin af þessum röksemdum, sem í munni hv. 6. þm. Reykv. eiga að líta svo út, að séu óskaplega þungvægar.

Ég vildi næst minnast á orð úr ræðu hæstv. menntmrh. Röksemdir hans gegn þessu frv. skiptust svipað og mótmæli hv. 6. þm. Reykv., nefnilega um húsnæðismál skólans og hins vegar sjálft fyrirkomulag skólans samkvæmt þessari brtt. Hæstv. menntmrh. sagði, að full þörf væri á næstunni fyrir allt rúm hinnar nýju heimavistar fyrir menntaskólann og það væri því full hætta á því, að ef þessi brtt. yrði samþ. og skólinn starfaði þannig áfram, þá mundu nemendur 1. og 2. bekkjar taka plássið frá menntaskólanemendunum. Ég vil nú spyrja: Á hverju byggir hann þá vitneskju? (Menntamrh.: Ég byggi þá skoðun á því ofurkappi, sem fram hefur komið um að hafa þessa deild í skólanum, hvað sem það kostar.) Ég get ekki dregið þá ályktun af því kappi. Mér virtist þá nær að draga þá ályktun af þessu kappi, að skólastjórn Menntaskólans á Akureyri væri hrædd um, að ekki kæmu nógir nemendur í Menntaskólann á Akureyri til þess að taka upp plássið, og þá vildu þeir fá fólk til þess að fylla þar upp í og þaðan kæmi ólgan, að skólastjórinn vildi ekki sitja með hálftómt hús, enda segir kennarafundurinn, að hann búist ekki við það mikilli aðsókn að skólanum á næstunni, að það verði hægt að gera ráð fyrir því, að menntaskólanemendum verði útrýmt úr heimavistarplássinu vegna aðsóknar frá hinum í neðri bekkjunum, og þess vegna furðar mig á þessu áliti hæstv. .menntmrh. — Sú röksemd hæstv. menntmrh., að það sé ekki þörf á að halda við kennslu þarna í neðri bekkjunum vegna utanbæjarmanna, vegna þess að það hafi sýnt sig á undanförnum árum, að það hafi verið svo að segja engir neðribekkingar í heimavist, er fjarri sanni, að mér virðist. Vegna hvers hafa þeir ekki verið í heimavist? Vegna þess, að þeir hafa ekki fengið hana, þó að þeir hafi sótt um hana í tugatali, vegna þess að efribekkingar hafa setið fyrir, sem hafa verið búnir að vera lengur í skólanum. (SigfS: Hvað mörgum hefur verið vísað frá?) Mér er ekki kunnugt um það síðasta ár. En það hefur alltaf verið þannig, að um heimavistina við Menntaskólann á Akureyri hafa sótt nokkuð á annað hundrað manns, misjafnlega mikið, en 60 hafa komizt þar inn. Og þeir, sem skornir hafa verið í því efni neðan af, hafa einmitt verið nemendur gagnfræðadeildarinnar og þá fyrst og fremst 1. og 2. bekkjar. Þetta veit hver maður, sem eitthvað hefur kynnzt starfsemi skólans. Þetta afsannast alls ekki með því, sem hæstv. menntmrh. benti á, að nú í vetur væru ekki nema 10 eða 11 í neðsta bekk skólans, og þar af ekki nema einn í heimavist. Það eru áraskipti að þessu með inntöku í skólann. Og í 4. tölul. grg ályktunar kennarafundarins á Akureyri í febrúar s.l. geta menn séð, að um þetta er rætt töluvert ýtarlega. Með leyfi hæstv. forseta, er upphaf þess liðar svo: „Undanfarin ár hafa verið í 1. og 2. bekk að jafnaði rúmlega 100 nemendur, um 60 á 2. bekk og 40–50 í 1. bekk. Í 2. bekk hefur meira en helmingur (30–40 og stundum fleiri) verið utanbæjar, en í 1. bekk tæpur helmingur (kringum 20). Það hefur verið nokkur áramunur að aðsókninni og hlutfallinu milli innan- og utanbæjarnema, en í heild virðist ekki veruleg breyting, þó að nýir skólar hafi risið. Utanbæjarnemendur hafa verið víða að, en þó flestir úr sveitum og kauptúnum norðanlands.“ Ég sé ekki ástæðu til að lesa meira upp úr þessu. En þannig er þetta. Og ég dreg ekki í efa, að þessar upplýsingar frá kennarafundi þessum séu réttar. Af þessu, sem ég hef hér lesið, held ég, að ekki sé hægt að draga þá ályktun að telja aðsóknina, 10–11 að 1. bekk í vetur, neina algera sönnun um aðsókn utanbæjarnema til neðri bekkja skólans.

Í þessu sambandi vildi ég aðeins minnast á það, að hæstv. menntmrh. sagði, að hætta væri á því, — og það hef ég drepið á áður, — að fólk í 1. og 2. bekk í þessum skóla útilokaði landsprófsmenn frá menntaskólanum. í því sambandi vildi ég benda á, að n. hefur lagt til, að miðskóladeild starfi við skólann í næstu tvö ár. Einnig á þessu sést, að hér er ekki mikil hætta á ferðum. Það er í höndum fræðslumálastj. að koma í veg fyrir það, að slíkt ástand skapist. Að með þessu sé verið að innleiða samkeppnispróf, held ég, að sé fjarri sanni. Það hefur alltaf þurft að taka próf inn í 1. bekk Menntaskólans á Akureyri, ekki svipuð þeim, sem verið hafa í Reykjavík, því að svo að segja allir hafa staðizt það og komizt inn í skólann, þar sem markið er sett lágt. Ég sé ekki, að það sé meiri hætta nú á ferðum, er risið hafa upp þó nokkrir gagnfræðaskólar og unglingaskólar á Norðurlandi. Að þröngin verði svo mikil, að af því leiði svipuð samkeppnispróf og verið hafa við Menntaskólann í Reykjavík, þar sem fólk hefur bókstaflega verið keypt inn í skólann með margra ára undirbúningskennslu, sé ég ekki ástæðu til að óttast, eftir að gagnfræðaskólunum og unglingaskólunum hefur verið fjölgað.

Ég held svo, að ég hafi ekki fleira að ræða við hæstv. menntmrh. og hv. minni hl. menntmn., en ég vildi endurtaka það, sem ég sagði í framsöguræðu fyrir meiri hl. n. N. hefur leitazt við að gera tvennt, í fyrsta lagi að höggva ekki óbætanleg skörð í framkvæmd hinnar nýju og samræmdu skólalöggjafar og í öðru lagi að reyna að koma til móts við óskir Menntaskólans á Akureyri með því að leggja til, að honum verði heimilað að reka miðskóla í tvö ár. Ég skil að vísu andstöðu fræðslumálastjóra, hæstv. menntmrh. og hv. 6. þm. Reykv., og sérstaklega fræðslumálastjóra og hv. 6. þm. Reykv., er starfað hafa að undirbúningi löggjafarinnar. Ég skil, að þessir aðilar vilji fá meiri reynslu, áður en breytt er til, en þó að ég sjálfur hafi átt þátt í því að setja þessa löggjöf, finnst mér ekki skynsamlegt að neita gersamlega allri tilhliðrun um framkvæmd löggjafarinnar, þegar jafnvirðuleg stofnun biður um að fá að starfa nokkru lengur á svipuðum grundvelli og hún hefur áður gert með ágætum.

Ég vildi minnast aðeins á það, sem hæstv. menntmrh. sagði, að hann vænti þess, að Menntaskólinn í Reykjavík fengi að reka miðskóladeild, ef Menntaskólanum á Akureyri væri heimilað það. Ég fæ ekki séð, að nokkur hliðstæða sé í þessum efnum. Að minnsta kosti er ekki sú röksemd til, hvað Menntaskólann í Reykjavík snertir, að hann geti boðið 160 nemendum upp á heimavist og þurfi miðskóladeild vegna utanbæjarmanna. Menntaskólinn í Reykjavík hefur svo til enga heimavist haft og er ekki að fá neina nýja, svo að þetta er gerólikt. Ég held, að hv. þm. geti með góðri samvizku tekið öðruvísi á umsókn Menntaskólans á Akureyri, en Menntaskólans í Reykjavík. Ég er ekki að hafa á móti því, að aðstaða og þróun Menntaskólans í Reykjavík sé bætt, en ég vil ekki láta því ómótmælt að skólarnir séu lagðir að jöfnu að þessu leyti, þar sem þeir eru gersamlega ásambærilegir.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að segja, að ég er sannfærður um, að ef ekki er gengið til móts við óskir Menntaskólans á Akureyri í þessum efnum, þá á eftir að skapast af því mikið áhagræði. Heimavistin hefur gert tugum og hundruðum kleift að komast til stúdentsprófs og síðan til háskólanáms, ekki bara frá Norðurlandi, heldur jafnvel frá Suðurlandi og Reykjavík. Ef þessir möguleikar eru teknir. frá mönnum, mun það skapa ófyrirsjáanlega erfiðleika fyrir fjölda manna, þó að efnahagur manna hafi batnað frá því, sem áður var, og aðstaðan til þess að komast í æðri skóla. Ég vil því skora á hv. d. að samþ. þessa meinlausu og sjálfsögðu brtt., sem flm. frv. hafa sagt, að þeir sætti sig við.