05.05.1949
Neðri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (3043)

120. mál, menntaskólar

Sigfús Sigurhjarðarson:

Herra forseti. Ég held, að hv. þm. N-Ísf. hafi verið að gera að gamni sínu., og það getur farið vel á því, að hann geri það við og við. Hann hélt því t.d. fram, að ég hefði sagt, að það væru níu kennslustofur í Menntaskólanum á Akureyri og að þetta væri eins og Pýþagórasarreglan, þær hefðu verið níu, væru níu og yrðu níu. Þetta sagði hv. þm., að ég hefði sagt í ræðu minni um daginn. Það er fjarri mér að halda þessu fram, því að þegar ég var í skólanum, voru kennslustofurnar fjórar, svo að síðan hefur orðið breyting á, því að nú eru þær níu. Svo skýrði hv. þm. frá því, að kennslustofunum mætti fjölga til muna. Þetta er þó fyrst hægt að gera; þegar heimavistarhúsið nýja verður til, auk þess sem því fylgir mikill kostnaður í sambandi við breytingar á skólahúsinu. Það er tiltölulega auðvelt að bæta við tveimur kennslustofum með því að nema burt skilrúm, en meira verður ekki gert án þess, að verulegt rask verði á húsinu. Ég gekk ekki út frá því eins og Pýþagórasarreglu, að kennslustofurnar væru níu og hlytu að verða það. Það er augljóst mál, að fjölga má kennslustofunum, þegar heimavistin er farin. En hún er ekki farin, það er staðreynd, og aðeins von til, að eitthvað af nýja heimavistarhúsinu verði til í haust. Það er líka staðreynd, að ríkið þarf að leggja fram stórfé til þess að umbylta gamla húsinu, ef fjölga á kennslustofum fram yfir þær tvær, sem ég nefndi áðan. Ég held, að mönnum muni þykja annað brýnna, en að fjölga kennslustofunum í gamla húsinu, eins og nú standa sakir.

Þá er það einnig staðreynd, að Akureyri er svo vel stæð, að hún hefur byggt myndarlegt gagnfræðaskólahús, er fyrst um sinn fullnægir þörfinni fyrir Akureyri og nágrenni. Mér skildist á hv. þm. Ak., mínum gamla kennara, að þetta væri kannske fleipur, að gagnfræðaskólinn hefði svona mikið húsnæði. Einmitt nú er mér rétt vottorð, er um þetta fjallar og ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. for- seta: „Að gefnu tilefni skal eftirfarandi tekið fram um húsnæði Gagnfræðaskóla Akureyrar. — Skólahúsið er nýtt steinhús, bæði vandað og vistlegt. Kennslustofur eru 16 í húsinu, og eru 3 þeirra teknar til handavinnukennslu. Allar eru kennslustofurnar vel bjartar og vistlegar, nema hvað dagsbirtu vantar að mestu í eina handavinnukennslustofuna. Í þeim 13 stofum, sem ætlaðar eru undir bóklega kennslu, er mjög rúmt um 350 nemendur, án þess að nokkurs staðar sé tvísetin stofa, og sé gert ráð fyrir, að 50 nemendur séu til jafnaðar í handavinnu; leikfimi og sundi, ætti að vera vel rúmt um 400 nemendur í skólanum með sama fyrirkomulagi og nú er á haft.“ Þetta bréf er undirritað 10. febr. 1949 af héraðslækninum, Jóhanni Þorkelssyni., Samkvæmt upplýsingum skólastjórans má bæta í skólann 260 nemendum, miðað við nemendatöluna síðasta ár. Það er því staðreynd, að húsnæði er fyrir hendi og hægt að fjölga nemendum að þessum mun. Það er líka staðreynd, að í gagnfræðadeild Menntaskólans á Akureyri, þeim tveimur bekkjum, sem eiga að hverfa, eru 109 nemendur.

Hv. þm. N-Ísf. drap á það, að Akureyri og Reykjav. væru ekki hliðstæður í þessum efnum. Því ekki það? Ég skal viðurkenna, að að einu leyti er svo ekki, þessu, að Akureyri hefur, eins og sýnt hefur verið fram á, nóg húsrými fyrir gagnfræðaskólastigið, en Reykjavík ekki. Eins og ég hef áður sagt, á Reykjavík ekkert hús fyrir gagnfræðastigið, en tekið verður í notkun á komandi hausti nýtt hús á Skólavörðuholtinu. En eftir sem áður verður kennt í franska spítalanum, gamla stýrimannaskólanum í Vesturbænum, Sjómannaskólanum, sem þó vill verða laus við þessa kennslu, og í tveimur af barnaskólum bæjarins, og kannske bætist sá þriðji og fjórði í hópinn áður en langt líður, því að það vantar húsnæði til þess að framkvæma gagnfræðaskólastigið í Reykjavík. Og svo ætlar hv. þm. N-Ísf. að halda því fram, að um brýna nauðsyn sé að ræða á Akureyri, en ekki í Reykjavík. Sannleikurinn er sá, að þegar skólameistari Menntaskólans á Akureyri mætti á fundi menntmn., var rektor Menntaskólans í Reykjavík einnig mættur og sagði, að ef horfið yrði frá núverandi fræðslul. á Akureyri, þá gerði hann einnig sömu kröfu fyrir Reykjavík, hann liti svo á, að skólarnir ættu að vera hliðstæður og starfa á sama hátt. Ég verð að segja um þetta, að mér finnst það eðlilegt. Ef skólinn á Akureyri á að fá að velja úr nemendur og kenna þeim í tvo vetur í gagnfræðadeild, þá er eðlilegt, að skólinn í Reykjavík vilji fá sömu aðstöðu til þess að velja úr í bænum og nágrenninu. Það er líka vert að minnast þess, að skólastjóri Gagnfræðaskóla Akureyrar hefur sagt, að ef taka eigi upp þann hátt, að Menntaskólinn á Akureyri velji úr nemendur, þá leggi hann til, að menntaskólanum verði falið að annast alla gagnfræðaskólakennslu á Akureyri. Þetta er líka eðlilegt, því að það er leitt fyrir gagnfræðaskólann, að menntaskólinn tíni úr beztu nemendurna og sú skoðun skapist, að annar skólinn sé æðri, hinn lægri. - Það er leitt, að hv. þm. N-Ísf. skuli vera horfinn. (Atvmrh.: Það er farið að fara af gamanið.) Það er líklegt. — Ég vildi upplýsa, að ég hef uppgötvað þá staðreynd, að þessir hv. þm. hafa ekki hugmynd um fræðslul., sem þeir voru með um að setja, því að þeir vita ekki, við hvað er átt, þegar talað er um skóla gagnfræðastigsins. Samkvæmt l. er ætlazt til, að börn ljúki barnaprófi 12 ára, eða þegar þau verða 13 ára. Þegar því er lokið, ganga þau í skóla gagnfræðastigsins. Ef skólinn er tveggja ára skóli, heitir hann unglingaskóli, og börnin geta lokið þar skyldunámi. Ef hann er þriggja ára skóli, heitir hann miðskóli., en tveir fyrstu bekkirnir starfa eins og unglingaskóli, og eftir að hafa verið í þeim geta börnin lokið unglingaprófi. Ef skóli gagnfræðastigsins er fjögurra ára skóli, heitir hann gagnfræðaskóli. Þrír fyrstu bekkirnir starfa eins og miðskóli, og með prófi upp úr þriðja bekk gagnfræðaskóla er lokið miðskólaprófi, Á Raufarhöfn, Húsavík, Laugum, Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík, Sauðárkróki og Reykjum við Hrútafjörð starfa nú skólar, sem allir hafá rétt til að senda menn til miðskólaprófs beiná braut inn í menntaskóla og kennaraskóla. Það er leiðinlegt, ef þetta hefur ekki verið gamansemi hjá hv. þm. N-Ísf., heldur misskilningur, og ég get þá ekki gefið honum annað ráð en að setjast í heimavist og 1. bekk aftur til þess að afla sér meiri skilnings og til þess að læra að hafa rétt eftir, jafnvel þó að einn sólarhringur líði á milli.

Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að svara hv. þm. Ak. Hann talaði um, að rétt. væri að viðhalda því gamla og góða, en það má um það deila, hvað það góða sé í þessum efnum, hvort það sé fjögurra, sex eða sjö ára menntaskóli. Um þetta eru skiptar skoðanir, en 1946 töldu þm. rétt að ákveða fjögurra ára skóla. Þá var tími til þess að athuga, hvað var gamalt og gott, og niðurstaðan varð sú, að vegna kerfisins í heild væri fjögurra ára menntaskóli heppilegastur. Það er næsta kynlegt að vera að ræða það hér nú, hvort allt, sem gert var 1946, hafi ekki verið vitleysa og betra hefði verið að hafa sex eða sjö ára menntaskóla, eins og víða er.

Því er haldið fram, að allir Norðlendingar séu með því að veita þessa undanþágu frá l. Það getur verið, ég veit það ekki, en skrýtin er röksemdafærslan. Einn ágætur maður, er ræddi við mig um málið og sótti það fast, að ég yrði því hlynntur, sagði, er honum þótti ganga seint: „Af hverju er þú á móti þessu? Flokksmenn þínir á Akureyri eru með því.“ Ég gat þess til, að þeim væri málið kannske ekki svo vel kunnugt. En þá sagði hann mér, að mágur minn í Svarfaðardal, sem er greindur og mætur maður, væri með þessu og frændur mínir og systkini. Það vill svo til, að ég er ættaður úr grenndinni við Akureyri, og svo er ég spurður að því, hvernig á því standi, að ég sé á máti þessu, þegar frændur mínir og venzlafólk þar nyrðra sé með því. Allir Norðlendingar eru með þessu, bara ekki þú! Allir Norðlendingar hafa ekki hugsað um þetta mál eða kynnt sér það sérstaklega. Þeir, sem það hafa gert, eru efalaust sárafáir, en margir þeirra eru þeirrar skoðunar, að rétt sé að leyfa þetta. Það getur þó ekki breytt minni skoðun á málinu, og ég hef satt að segja varið allmiklum tíma til þess að hugsa um þessi mál.

Ég veit ekki, hvort það er mikil ástæða til að fjölyrða frekar um málið. Ég held þó, að upplýst sé, að húsnæðisrökin eru byggð á misskilningi. Og það er engin vanvirða fyrir alþm. að viðurkenna það, sem sannara reynist og upplýst er með rökum. Skólaleg rök hafa ekki heldur verið færð fyrir þessu, nema þá helzt, að betra sé að hafa 6 ára skóla en 4 ára. En deila má um þetta, þótt þ. 1946 hafi tekið að sér að skera úr um þetta. Slík próf hafa sýnt sig að vera meinsemd, og úr þessu var bætt 1946, og við skulum fyrir alla guðsmuni ekki fara að innleiða það aftur og eyðileggja það, sem gert var. Það er staðreynd, að aðsókn að lægstu bekkjum Menntaskólans á Akureyri fer þverrandi, því að unglingar fá betri aðstöðu til að nema heima hjá sér. Ég vil minna á, að það er rétt, sem ég sagði, að menn mundu heldur kjósa að láta börn sín nema í heimahúsum, ef kostur væri á. En ég tók það fram um 14–15 ára krakka. Ég sagði, að slík börn vildu menn hafa í heimahúsum. En sé um 17–19 ára krakka að ræða, er þeim vel borgið í heimavist. Þetta vildi ég taka fram, og reynslan styður það, að menn vilja fremur koma börnum sínum á 13–15 ára aldri fyrir hjá vandamönnum sínum en í heimavist. — Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum. Ég geri ráð fyrir, að athugað verði við 3. umr. að breyta einhverju til bóta. Vona ég, að þetta verði rætt í n., og býst við, að hæstv. menntmrh. vilji ræða við menntmn. milli umræðna um einhverja endurbót: