06.05.1949
Neðri deild: 102. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (3046)

120. mál, menntaskólar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur þegar verið rætt allmikið og dregin fram þau rök, sem þar að lúta með og móti. Ég ætla því ekki að tala langt mál, en vísa til þeirra raka, sem hv. 6. þm. Reykv. og hæstv. menntmrh. hafa flutt svo skilmerkilega. Ég ætla þó að segja nokkur orð til viðbótar, áður en málið kemur til atkv. nú við 2. umr.

Þau rök, sem hv. flm. og aðstandendur málsins á Akureyri hafa fram að færa, eru aðallega þrenns konar:

1. Að það húsrými, sem skólinn mun koma til með að fá, notist ekki til fullnustu. 2. Að það sé af uppeldisástæðum betra að hafa 6 ára skóla en 4 ára. 3. Að reynsla af gagnfræðadeild Menntaskólans á Akureyri hafi verið mjög góð og ekki sé heppilegt að breyta því, sem vel hafi gengið.

Ég ætla nú að leiða hjá mér að ræða um fyrstu röksemdina. Um aðra röksemd er það að segja, að nefndin hefur átt um þetta tal og aflað sér álits margra og vel reyndra skólamanna, og hafa þeir síður en svo verið á eitt sáttir viðvíkjandi þessu atriði. Frá rektor Menntaskólans í Reykjavík fékk n. ekki skriflegt álit, en hún átti um þetta tal við hann, og lagði hann mikla áherzlu á, að eitt yrði yfir báða skólana látið ganga. Er það og mjög eðlilegt, að tveir hliðstæðir skólar hlíti sömu reglum og skilyrðum. Á það hefur verið bent, að þegar Menntaskólinn í Reykjavík átti 100 ára afmæli, vaknaði hreyfing í þá átt að veita allríflega fjárupphæð, til þess að skólinn ætti hægra með að koma sér í betra horf, t.d. að lagfæra húsnæði sitt. Átti þetta að vera nokkurs konar afmælisgjöf til hans. Niðurstaða þessa varð sú, að fénu var deilt á báða skólana. En nú er svo komið að Menntaskólinn á Akureyri er að verða betur settur, en hinn skólinn, og um það er ekki nema gott eitt að segja. Ef þetta á nú að verða til þess, að Menntaskólinn á Akureyri starfi eftir einhverjum öðrum reglum og njóti þeirra fríðinda, samkv. því, sem kennarar þar álíta, að halda sinni gagnfræðadeild, þá er ekki nema eðlilegt, að Menntaskólinn í Reykjavík æski framlags til þess að geta látið það sama gilda hjá sér. Og ef það er rétt, að af uppeldisástæðum sé það betra, að skólinn fyrir norðan sé 6 ára skóli, en ekki fjögurra, þá gildir það auðvitað einnig fyrir skólann í Rvík. Hins vegar er það svo, að deilt er mjög um þetta atriði meðal skólamanna, og skal ég engan dóm þar á leggja.

Síðan n. skilaði áliti sínu hefur henni borizt álitsgerð varðandi þetta mál frá stj. Landssambands framhaldsskólakennara. Þessi álitsgerð var send n. algerlega óumbeðið, og hirði ég ekki um að lesa hana alla hér upp, en þm. geta auðvitað fengið hana og kynnt sér. Þó vil ég hér, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp niðurstöðu þessarar greinargerðar, sem er á þessa leið: „Stjórn LS.F.K. telur af framansögðu, að í greinargerð þessa frv. á þskj. 302 komi ekki fram nein rök, er réttlæti breytingu á einu grundvallaratriði skólalöggjafarinnar frá 1946. Það er einnig augljóst mál, að lægju uppeldisfræðileg rök fyrir þeirri breytingu, sem hér um ræðir, væri lítt sæmandi annað en láta breytinguna einnig má til Menntaskólans í Rvík, enda mjög sennilegt, að í kjölfar slíkrar breytingar á Akureyri komi fram krafa um sama hátt í Reykjavík.“ Undir þessa álitsgerð rita Helgi Þorláksson og Haraldur Ágústsson. Um þessa álitsgerð bað n. ekki, eins og ég hef áður fram tekið, og var búin að skila sínu áliti, þegar henni barst hún. Mér þótti samt rétt að skýra hér frá þessu.

Þá er þriðja röksemdin, þar sem því er haldið fram, að gagnfræðadeildin hafi starfað með mjög góðum árangri og ekki sé rétt að breyta því, sem vel hafi gengið. Þetta má víst allt til sanns vegar færa, sem sagt hefur verið um þá reynslu, sem fengizt hefur af náminu í Menntaskólanum á Akureyri. En sama gildir um fjölmarga aðra skóla. Nú er það svo, að með þeirri skólalöggjöf, sem sett var fyrir tiltölulega skömmu og skólarnir í landinu almennt starfa eftir, verður í mörgum tilfellum nokkur breyting á starfsháttum skólanna, bæði æðri og lægri skóla, vegna þess samræmda skólakerfis, sem tekið var upp, og það er í sjálfu sér ekkert sérstakt fyrir Menntaskólann á Akureyri. Ég hygg, að það megi segja það sama um gagnfræðadeild Menntaskólans í Reykjavík, að árangurinn af hennar starfi hafi verið tiltölulega góður, svo að þau rök, sem færð eru fram fyrir Akureyrarskóla að þessu leyti, geta náð líka til Reykjavíkurskólans. Og viðkomandi barnaskólunum er gert ráð fyrir þeirri breytingu, sem er að koma til framkvæmda, a.m.k. í kaupstöðum, að taka efstu bekkina úr barnaskólunum og sameina þá gagnfræðastiginu. Það mætti með nokkrum rökum segja að, að þessu væri sviptir fyrir barnaskólana út af fyrir sig, ef litið væri á þetta eingöngu, en ekki í sambandi við skólakerfið í landinu. Ég hygg, að mörgum kennara finnist, að beztur árangur sé af náminu í síðustu bekkjum barnaskólanna, þegar börnin hafa náð meiri þroska. Ég held, að reynslan hafi sýnt það, að þessu sé mætt með skilningi af hálfu barnaskólanna, a.m.k. hef ég ekki orðið var við kröfur, sem gangi í öfuga átt.

Eins og þetta er orðað í frv., er gert ráð fyrir, að skólinn á Akureyri starfi með sama fyrirkomulagi og var fyrir gildistöku hinna nýju laga. Nú vil ég benda á það, og það hefur komið fram að nokkru leyti, en ekki alveg tæmandi hér í umr., að með þessu orðalagi, eins og það er í frv., gildir það yfir allmörg fleiri atriði, en gagnfræðadeildina eina, út af fyrir sig Með hinni nýju fræðslulöggjöf var nokkur breyting gerð á ýmsum atriðum frá því, sem hafði verið ákveðið áður, og skal ég ekki fara langt út í að rekja það. Ég skal taka dæmi, t.d. um þá hlið l., sem að kennurunum sjálfum snýr. Með nýju l. var gefinn nokkur afsláttur á skyldustundum fyrir kennara, þegar þeir væru orðnir 55 ára að aldri, og það var gengið enn lengra, þegar kennararnir væru orðnir 60 ára. Þetta hefur ekki verið samkvæmt eldri l.

Enn fremur voru með nýju l. kennurum við menntaskóla, eins og æðri skóla, veitt nokkur fríðindi til orlofs. Það hafði heldur ekki verið í eldri l. Nú er mér ekki alveg ljóst, hvort hv. flm. þessa frv. hafa hugsað sér það, ef það yrði samþ. óbreytt og skólinn á Akureyri ætti að starfa eftir eldri l., hvort hin eldri l. ættu þá líka að ná til kennaranna, hvort kennararnir, sem starfa við Menntaskóla Akureyrar, ættu þá að hafa fleiri skyldustundir en kennararnir við Menntaskólann í Reykjavík og hvort kennararnir við Menntaskólann á Akureyri ætluðu að afsala sér þeim fríðindum til orlofs, sem nýju l. veita kennarastéttinni. Ég hygg, m.a. af viðræðum, sem áttu sér stað innan n., þegar þetta mál var rætt og athugað þar, að þetta muni ekki vaka fyrir þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli. Ég hygg, að það muni vaka fyrir t.d. aðstandendum Menntaskólans á Akureyri, að kennararnir hlíti í einu og öllu ákvæðum hinna nýju l., en innri starfsemi skólans að öllu leyti, skiptingin milli gagnfræða- og menntadeilda, námsskrá og þess háttar fari eftir hinum eldri l. Nú eru hin eldri l. í raun og veru ekki gildandi sem l. lengur. Niðurstaðan af þessu yrði því sú, að forráðamenn Menntaskólans á Akureyri fylgdu eiginlega ekki neinum l., sem þingið hefði sett, heldur sköpuðu, sér sjálfir sínar eigin starfsreglur fyrir skólann og sumar af þeim starfsreglum væru teknar úr l., sem áður giltu, en sumt væri í samræmi við þau nýju l., sem eru um þessi efni. Ég held, að þegar menn athuga þetta, þá geti engum blandazt hugur um, að þetta er mjög óeðlileg skipan. Með þeirri brtt., sem meiri hl. n. stendur að og prentuð er í nál., er séð fyrir þessu þannig, að skólinn starfi eftir hinum nýju l., og það, sem einungis komi til greina, sé, hvort gagnfræðadeildin eigi þarna að vera með eða ekki. Að því leyti er brtt. mun aðgengilegri en frv., eins og það var flutt, væri það samþ. óbreytt.

En það, sem eftir er þá af röksemdum í þessu máli, er aðstaða manna utan úr sveitum á Norðurlandi og reyndar víðar um landið, aðstaða utanbæjarmanna til námsdvalar á Akureyri. Ég get fyrir mitt leyti ekki lokað augunum alveg fyrir því, að þetta sé röksemd, sem vert sé að líta á. En þá hafa komið fram ýmsar uppástungur um það, hvort ekki væri hægt að sjá borgið hlut þessara manna án þess að gera þá breytingu á menntaskólal., sem hér er stefnt að. Ein uppástungan hefur verið sú, sem gagnfræðaskólastjórinn á Akureyri hefur borið fram og kemur fram í álitsgerðinni, sem prentuð er hér, — að Gagnfræðaskólinn á Akureyri verði hreinlega lagður niður og skólarnir sameinaðir og Menntaskólinn á Akureyri taki við öllu gagnfræðanáminu. Málið virðist ekki liggja þannig fyrir, að forráðamenn Menntaskólans á Akureyri kæri sig um þessa lausn eða vilji á hana fallast. Þá hefur það komið fram einnig, hvort ekki væri hægt að leysa þetta á þann hátt, að Gagnfræðaskólinn á Akureyri fengi til leigu einhvern hluta af heimavistarhúsi því, sem ríkið á og reisir á Akureyri, vegna fólks, sem ætlar að stunda nám í skólum ríkisins. Væri þá óhugsandi, að þessir tveir skólar á Akureyri gætu átt samleið um að nota þetta hús? Ég er ekki kunnugur staðháttum þarna nyðra, en ég held, að ég fari rétt með það, að t.d. á Laugarvatni, þar sem starfa bæði héraðsskóli og íþróttaskóli, hafi þessir skólar að ýmsu leyti samvinnu um húsakynni, t.d. sameiginlega heimavist, matstofu., eldhús og þvílíkt fyrir fólkið, sem þarna dvelur, og hefur sú samvinna gengið mjög vel. Ef að þessu ráði yrði horfið, þá mundu nemendur, sem dveldu á heimavistinni, að sjálfsögðu verða að hlíta reglum og aga menntaskólastjórans að því leyti, sem þeir væru heimilismenn þar í húsinu, en gengju svo í gagnfræðaskólann meðan þeir væru að ljúka því stigi náms, en færu svo ef til vill inn í menntaskólann síðar og ættu, þá athvarf í heimavistinni þar eins og áður. Þessi uppástunga virðist ekki heldur falla þeim í geð, sem standa sérstaklega að þessu máli. Og þó að þetta hafi komið fram og á það hafi verið bent, bæði af mér og öðrum, í sambandi við þetta mál, þá virðist samt sem áður nokkur áherzla á það lögð að halda þessu máli fram til streitu, einmitt í því formi að breyta l.

Út af þessu, sem ég hef nú þegar sagt, og þeim rökum, sem aðrir hafa áður dregið fram hér í þessu máli, þá finnst mér, að brtt. sú, sem prentuð er í nál., stefni mjög til bóta um þetta mál, en ég tel ekki þau rök, sem færð hafa verið fram fyrir því, hvaða nauðsyn það sé að breyta l. um þetta efni, vera svo sterk, að ástæða sé til að samþ. þetta frv., og mun því greiða atkv. gegn því við lokaatkvgr.