09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (3051)

120. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er slæmt, að brtt. mín skuli ekki liggja fyrir í endurprentuninni. En þegar b-liðurinn fellur niður, leiðir af sjálfu sér, að orðin „fyrir utanbæjarnemendur“ falla niður úr e-liðnum, því að þau orð standa í föstu sambandi við b-liðinn.

Út af því, sem hv. þm. hafa sagt, sem hér hafa talað, vil ég fyrst taka fram um a-liðinn, að það er eðlilegt, að það standi þar tvímælalaust, að fræðslumálastjórnin skuli dæma um þetta atriði. En það leiðir af sjálfu sér, að hver, sem hefði á hendi embætti menntmrh. eða fræðslumálastjóra, mundi hafa um þetta atriði náið samstarf við skólastjóra, en það er leiðinlegt, að það sjáist ekki í l., hver á að skera úr, ef það kæmi til, að um það yrði álitamál.

Varðandi e-liðinn þá er ég hissa, að hv. þm. Ak. skuli misskilja hann. Það er átt við, að þar skuli vera 1. og 2. bekkur, hvor í sínu lagi. Mér finnst það hæfileg takmörkun, fyrst menn vilja hafa þetta svo, að það sé ekki farið að reka þarna stóran skóla fyrir 1. og 2. bekk með skiptum bekkjum. Ég held, að þeir, sem hafa talað hér frá sjónarmiði utanbæjarnemenda, ættu að geta sætt sig við það og að felldir séu inn í nemendur úr Akureyrarkaupstað eftir því, sem ástæður leyfa, eins og var í vetur.

Annars get ég ekki annað en sagt, að ég hef gaman af þessu, af því að eina ástæðan, sem fram hefur verið færð fyrir að halda þessu fyrirkomulagi, var sú, að þetta væri gert fyrir utanbæjarnemendur og aðeins vegna heimavistarinnar. Þess vegna hafði ég gaman af að styðja fingri á þetta og láta sjá, hvernig þetta liti út, ef farið væri eftir þessum rökum. Nú kemur í ljós, að þessir menn hafa engu síður hugsað um nemendur á Akureyri, og kannske er það undirrótin að þessu, að menn setji eitt hvað niður við að byrja nám í gagnfræðaskóla, fremur en menntaskóla. En hvað sem um það er, þá er sýnilega þingvilji fyrir, að þetta verði eitthvað áfram, og þá virðist mér það hæfileg takmörkun, að c-liðurinn sé samþ., en b-liðurinn úr sögunni.