09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (3053)

120. mál, menntaskólar

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Það er mikið rétt, að ég gat þess í umr. um daginn, að þetta frv. væri fram komið fyrir almennar áskoranir manna í Norðlendingafjórðungi allt úr Húnavatnssýslu og í Norður-Þingeyjarsýslu. En ég gerði það með vilja að nefna ekki Húnavatnssýslu nema með einu orði, því að þær eru tvær, og er þá átt við Austur-Húnavatnssýslu, en ekki Vestur-Húnavatnssýslu, svo að hv. þm. V-Húnv. má það til sanns vegar færa, að Vestur-Húnvetningar hafa ekki gert áskoranir um breyt. í þessu máli. En það þarf ekki að leiðrétta það, sem ég sagði fyrir því, því að það er laukrétt. Áskoranirnar um þetta eru frá sýslunefnd Austur-Húnavatnssýslu, úr Skagafjarðarsýslu, Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu og þar að auki frá ýmsum kaupfélagsstjórnum. En Vestur-Húnavatnssýsla er undanskilin — ég skal játa það — því miður.