14.05.1949
Efri deild: 109. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (3065)

120. mál, menntaskólar

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Það er sýnt, að fyrir fram mun ákveðið, hvaða afgreiðslu þetta frv. skal fá. Það er hespað í gegnum þingið með miklum hraða og því borið við, að brátt líði að þinglokum, enda varla gefinn tími til að gefa út nál. Það var líka auðheyrt á ræðu frsm. meiri hl. n., að hann gerði ekki ráð fyrir miklum umræðum um málið. Sannleikurinn er sá, að stuðningsmenn þessa frv. loka augunum alveg fyrir öllum rökum í málinu, þó að frsm. meiri hl. n. hafi ekki komizt hjá að viðurkenna, að við í minni hl. hefðum nokkuð til okkar máls. Það er að vísu rétt, að nokkrar upplýsingar liggja fyrir í málinu í sambandi við meðferð þess í Nd., en þær upplýsingar eru allar á einn veg og mæla á móti samþykkt frv. Fjöldi flm. frv. sýnir líka, að mikils hefur þótt við þurfa til þess að koma frv. í gegn, þar sem þeir eru ekki færri en 6, en slíkt er mjög óvenjulegt hér í Alþingi.

Rökin, sem færð eru fyrir frv., eru á ýmsan veg, t.d. er rætt um þann mikla kostnað við fræðslulögin frá 1946. Það er nú ekki alveg nýtt, og sumir hafa jafnvel gengið svo langt að telja allan kostnað við skólahald í landinu, sem nú mun vera um 30 millj. kr., vera afleiðingar af fræðslul. nýju. Ég þarf ekki að fara út í það mál, því að hvert mannsbarn hlýtur að sjá, hversu mikil rök eru í slíkum málflutningi. En í sambandi við þetta mál liggja fyrir upplýsingar um, að verði frv. samþ., hefur það í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkið, því eins og kunnugt er kostar viðkomandi bæjar- eða sveitarfélag nokkurn hluta af gagnfræðanáminu á hverjum stað, en starfi gagnfræðadeild við M.A. áfram, yrði ríkið að kosta hana að öllu leyti, og má af þessu sjá, hvað sparnaðarrök flm. eru haldgóð.

Annað atriði, sem flm. bera fram sem meðmæli með frv., er það, að nauðsynlegt sé, að nemendur komi ungir í þann skóla, sem þeir ætla sér að stunda framhaldsnám í, svo að skólinn geti mótað þá frá byrjun. Ég efast ekki um, að allmargir halda þessari skoðun fram, en hinir eru þó fleiri, sem hafa þá skoðun, að ekki sé heppilegt fyrir unglinga að vera mjög lengi í sama skóla, og þar af leiðandi heppilegra fyrir þá, sem langskólanám stunda, að vera í fleiri en einum skóla.

Allir sjá líka, hversu mikið ósamræmi er skapað milli menntaskólanna, ef þetta frv. verður samþ., og um leið aðstöðumunur, enda hefur rektor Menntaskólans í Rvík lýst því yfir, að sams konar krafa muni koma frá honum, ef þetta frv. verður samþ., og slíkri kröfu verður erfitt að standa á móti með nokkurri sanngirni. En verði Menntaskólanum í Reykjavík veitt líka sömu réttindi og M.A. fer fram á með þessu frv., þá er búið að kippa grunninum undan nýju fræðslulögunum og það áður en nokkur reynsla er á þeim fengin og horfið aftur að því fyrirkomulagi sem áður var, með öllu því óhugnanlega misrétti og kapphlaupi, er því var samfara. Á þetta bendir skólamálanefndin mjög greinilega í umsögn sinni, sem fylgir nál. menntmn. Nd. Tilgangur nýju fræðslulaganna var m.a. sá að jafna aðstöðumun æskufólksins um land allt. Það muna allir eftir samkeppnisprófunum hér við menntaskólann, sem oft voru lítill mælikvarði á hæfni nemendanna, heldur fóru meira eftir því, hvað aðstandendur viðkomandi nemenda höfðu sterka aðstöðu til að kaupa kennslu handa nemendunum fyrir prófið, og slíku fyrirkomulagi held ég, að fáir óski eftir aftur, en á því má eiga von, ef þetta frv. verður samþ. og Menntaskólinn í Reykjavík gerir kröfu til að fá sömu réttindi.

Þá segja flm. í grg. sinni, að það sé fjarri, að rúm sé í Gagnfræðaskóla Akureyrar fyrir alla þá, er nú stunda nám í 1. og 2. bekk menntaskólans, en í þeim hafa verið 110 nemendur að meðaltali s.l. 5 ár. Ég verð að segja, að þessi fullyrðing flm. er dálítið undarleg, þegar athugað er fylgiskjal, sem fylgir nál. menntmn. Nd., því að þar segir, að Gagnfræðaskóli Akureyrar geti ekki einungis tekið á móti þessum 110 nemendum, heldur mun fleiri, og fylgir vottorð héraðslæknis því til staðfestingar. Í fylgiskjali með sama nál. frá kennurum Gagnfræðaskóla Akureyrar eru færð allýtarleg rök fyrir því, að þetta frv., ef að l. verður, sé tilraun til að draga mjög úr starfsemi þess skóla og jafnvel til að eyðileggja þá stofnun, og verður að telja það mjög vafasama þróun, ekki sízt þegar þess er gætt, að nýbúið er að reisa stórhýsi fyrir skólann.

Sannleikurinn er sá, að það eru fá rök til, sem mæla með þessu frv., og þær samþykktir, sem gerðar hafa verið, eru allar á einn veg, benda ekki á rök, heldur slá á tilfinningar manna. Og ég get vel skilið, að gamlir nemendur M.A., sem eru margir og bera hlýjan hug til skólans, vilji veg skólans sem mestan, en hins vegar er það bara misskilningur, að verið sé að draga úr stofnuninni, þó að gagnfræðadeildin sé lögð niður. Og það er ákaflega hæpið að gera þetta að tilfinningamáli eins og t.d. byggingarmál Menntaskólans í Rvík, þar sem sá misskilningur er kominn inn hjá mörgum gömlum nemendum skólans, að það sé nauðsynlegt að hafa hann á sama stað um alla framtíð og hann stóð, þegar þeir voru nemendur, án minnsta tillits til þess, hvort sá sá staður er heppilegur eða ekki. Slíkt er mjög varasamt, þó að auðvelt sé að skilja, að menn beri hlýjan hug til skólans, sem þeir hafa numið í, og vilji allt fyrir hann gera, en þessi velgerningur getur orðið stofnuninni versti grikkur, ef tilfinningarnar eru látnar ráða, án þess að um leið sé beitt skynsemi og allar aðstæður athugaðar gaumgæfilega.

Það má ef til vill segja að þessi undanþága skipti ekki miklu máli svona rétt í tvö ár, en það liggur hér fiskur undir steini, því að ætlun þeirra, sem mest berjast fyrir þessu, er, að þessi undanþága verði framlengd, annars væru þeir ekki að leggja svo hart að sér sem raun ber vitni. Það lítur betur út að fara aðeins fram á tveggja ára undanþágu fyrst, og svo hugsa þeir með sér, að það verði hægara að fá framlenginguna síðar. En með slíkri undanþágu er raunverulega verið að kippa grunninum undan því skólakerfi, sem við nú erum byrjaðir að byggja upp, og það löngu áður en nokkur reynsla er fengin á það, og skapa misræmi, sem óhjákvæmilega hlýtur að verða mjög óheppilegt í framkvæmd. Því hefur verið haldið fram í þessu máli, að það verði hægara fyrir unglinga að stunda nám við M.A., vegna þess að þar verði betri aðstaða með húsnæði. Í sambandi við það vil ég benda á, að það hafa verið leidd rök að því í þessum umr., að aðsókn gagnfræðanema til Akureyrar muni fara minnkandi, þar sem verið sé að koma upp hliðstæðum skólum í nærliggjandi kauptúnum og kaupstöðum, enda er það einn þátturinn í hinu nýja skólakerfi, að unglingum gefist tækifæri til að stunda gagnfræðanám sem næst heimilum sínum. Þessi vitanlega fækkun nemenda, sem leita til Akureyrar, dregur mjög úr aðsókninni til gagnfræðaskólanna á Akureyri. Verði nú farið eftir þessu frv. og undanþága gefin fyrir M.A. til að starfrækja gagnfræðadeild, eru miklar líkur fyrir, að sú deild mundi eyðileggja möguleikana fyrir Gagnfræðaskóla Akureyrar til að starfa, en af því kemur glöggt í ljós, hversu veigalítil rök mæla með frv. eða að það sé fram komið til hagsbóta fyrir Norðlendinga. Nei, þetta mál er einungis fram komið sem tilfinninga- og metnaðarmál, enda flutt af unnendum skólans vegna þess, að þeim finnst hann minnka við það að verða 4 ára skóli, enda þótt sannleikurinn sé, að vegur hans vex að mun. Enn fremur má benda á, að með samþykkt frv. er verið að skapa aðstöðumun milli þeirra, sem fengju að stunda nám sitt frá byrjun í M.A., og hinna, sem verða að stunda sitt gagnfræðanám annars staðar, og fari svo, sem líkur benda til, að Menntaskólinn í Rvík fari fram á sams konar sérstöðu, þá er komið í sama farið og áður, sköpuð sömu forréttindi fyrir þá, sem njóta náðar og komast í gagnfræðadeild þess skóla, forréttindi fram yfir þá, sem verða í fyrsta lagi að stunda gagnfræðanám annars staðar, en ekki undir handarjaðri þeirra kennara, sem eiga síðar að verða aðalkennarar þessara nemenda í lærdómsdeildarnáminu.

Það er nú alveg sýnilegt, eins og ég sagði áðan, að aðferðin við að koma þessu máli fram á að vera sú, að samið er að fullu fyrir fram, og síðan á að takmarka umræður á þann hátt, að þeir, sem standa að þessu meirihlutaáliti, meira að segja frsm., láta sér ekki detta í hug að hlusta á rök á móti málinu. Kemur þetta raunar vel heim við það, sem tveir nm., sem voru á þessum eina nefndarfundi um málið, létu um mælt, nefnilega að þeir hefðu alls ekkert um það meira að tala, það væri búið að taka ákvörðun um málið. Það sýnist þess vegna vera ákaflega þýðingarlítið um þetta að ræða.

Við hv. 3. landsk. skilum minnihlutaáliti, eins og kunnugt er, þar sem við flytjum þá brtt., að á eftir orðinu ,,miðskóladeild“ komi ,,fyrir utanbæjarnemendur“, þannig að gert sé ráð fyrir því, að það sé fyrst og fremst fyrir utanbæjarnemendur; þeir skuli sitja fyrir nemendum af Akureyri um heimavistarpláss. Mér þykir miður, að frsm. meiri hl. n. skuli ekki vera hér til þess að ræða þennan hluta till. fremur en annað, sem þessu máli við kemur.