17.05.1949
Efri deild: 112. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1892 í B-deild Alþingistíðinda. (3081)

120. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson [Frh.]:

Herra forseti. Ég hef lofað hæstv. forseta að reyna að vera stuttorður um málið, og vil ég reyna að efna það.

Ég hafði, þegar hæstv. forseti frestaði umr. í gær, rætt um það, að ég teldi misráðið að víkja frá nýju skólalöggjöfinni, áður en hún væri komin til framkvæmda, og sérstaklega misráðið að skella saman í einn skóla unglingum frá 13–20 ára, og skal ég ekki fara frekar út í það. Þá hafði ég einnig fært fram, að húsnæðisástæðurnar, sem færðar voru fram sem meginrök í málinu, væru ekki rétt rök, því að húsrúm væri ekki aðeins nóg í Menntaskólanum á Akureyri, heldur líka í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, sem ætti að inna af hendi gagnfræðakennsluna.

Þá er ég kominn að því, hvaða þýðingu þetta mál hafi fyrir Gagnfræðaskólann á Akureyri. Ég held, að það fari ekki á milli mála, að það er ójafn leikur hjá þessum tveimur skólum, Gagnfræðaskólanum og Menntaskólanum á Akureyri. Vil ég þar til stuðnings máli mínu vitna í það, sem skólastjóri Gagnfræðaskólans á Akureyri segir um þetta atriði. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég tel ekki heppilegt, að tveir gagnfræðaskólar starfi hér í bænum með mismunandi réttindum til inntöku nemenda, þannig að annar megi velja úr eftir prófeinkunnum, en samt verði gerðar sömu kröfur til miðskólalandsprófs í þessum skólum báðum, og enn fremur, að sá skóli, sem úrvalið fær, megi sleppa tveim námsgreinum, sem þó lögum samkvæmt á að kenna á gagnfræðastiginu.. En það hefur M.A. fengið til þessa. Hann hefur hvorki látið kenna kristinfræði eða handavinnu, en báðar þessar námsgreinar eru kenndar í G.A., eins og hin nýja skólalöggjöf mælir fyrir.“

Ég fer ekki lengra út í þetta, en þetta er hárrétt. Það er ákaflega erfitt fyrir Gagnfræðaskólann á Akureyri að sýna jafngóðan árangur við miðskólapróf að þremur árum liðnum, ef hann fær nemendur, sem hafa minni bóklega hæfni, en menntaskólinn fær úrvalið. Þarna verða þá tveir skólar, þar sem annar hefur fleiri námsgreinar en hinn og fær þá nemendur, sem hafa minni bóklega hæfni en hinn, og ekki eins samvalið fólk til bóknáms. Það verður því að öllu leyti ójafn leikur milli þeirra. Sama er að segja gagnvart öðrum gagnfræðaskólum í landinu. Gagnfræðaskólinn á Akureyri hefur hér verri aðstöðu en nokkur annar gagnfræðaskóli á landinu, með því að annar skóli velur úr nemendunum, en hann fær þá, sem dregizt hafa aftur úr í úrslitum á landsprófi.

Þá er kostnaðarhliðin við þetta mál. Það mundi verða tilfinnanleg fækkun í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, því að menntaskólinn tæki svo mikinn nemendahóp. Kennaralið er nægilegt við gagnfræðaskólann til að sinna kennslu allra unglinga á gagnfræðastiginu. Það er því hætt við, að næsta vetur yrðu fastráðnir kennarar við gagnfræðaskólann ekki í fullu starfi. Það er kostnaðarauki fyrir ríkið. Þá er það, að kennarar við menntaskólann eru á hærri launum en kennarar á gagnfræðastiginu. Að því leyti er nám við menntaskóla dýrara. Í þriðja lagi er það, sem mestu skiptir um kostnaðarhliðina, en það er það, að ríkið á ekki að borga nema hálfan kostnað við kennslu og rekstur í gagnfræðaskólum og héraðsskólum og yfirleitt öllum skólum, sem starfa á gagnfræðastiginu, en við menntaskólana borgar ríkið allan kostnað. M.ö.o., ríkið er með þessari lagabreyt. að seilast eftir að bera allan kostnað af gagnfræðanáminu, sem nú á að verða við Menntaskólann á Akureyri. Ég veit, að þetta er veruleg upphæð. Og það skulum við gera okkur ljóst, að þegar búið er að lögfesta þetta; mundu kröfur koma frá gagnfræðaskólum og héraðsskólum annars staðar, að ríkið tæki að sér allan kostnað við gagnfræðanámið þar. Það er ekki nema sanngirniskrafa sem varla er hægt að standa á móti, þegar þetta er komið í kring. Þarna væri komið misrétti, sem yrði að leiðrétta með því, að ríkið tæki að sér allan kostnað við gagnfræðanám annars staðar á landinu. (BSt: Þetta er nú bráðabirgðaástand.) Já, það er bráðabirgðaástand sem líklega yrði gert að meginreglu. Með þessu móti er verið að stofna tvenns konar gagnfræðanám. Það er gagnfræðanám frá skólum gagnfræðastigs, og það er nám við þessa deild við Menntaskólann á Akureyri, sem gefur aðstöðu til áframhaldandi náms við annan menntaskóla landsins.

Ég vil minna á það í þessu sambandi, að áður en skólalöggjöfin kom í gildi, voru þrjú stig gagnfræðaprófs. Það var gagnfræðapróf í gagnfræðaskólunum sjálfum. Það var gagnfræðapróf við Menntaskólann í Reykjavík eftir tveggja ára nám, og það var gagnfræðapróf í Menntaskólanum á Akureyri eftir þriggja ára nám. Það þurfti sérfræðing í skólamálum til að vita, við hvaða gagnfræðapróf var átt hverju sinni. Nú á að fara að stefna í sömu átt aftur. Nú er eitt gagnfræðapróf, en það á að fara að gera þau tvö. Það er góð stefna í átt til vitleysunnar. Það yrðu þá tvenns konar gagnfræðaskólar og líka tvenns konar menntaskólar. Skólinn í Reykjavík yrði þá fjögurra ára skóli, en sjö ára skóli fyrir norðan. Það yrðu því tvenns konar menntaskólar líka, sem fengjust upp úr krafsinu.

Ef það væru uppeldisfræðileg rök fyrir því að gera menntaskóla að sjö ára skóla, væri öðru máli að gegna, og þá væri nær fyrir okkur að afgr. þessa undanþágu þannig, að hún gilti fyrir báða menntaskólana. Það væri engin sanngirni að setja Menntaskólann í Reykjavík þannig hjá, ef þetta væri uppeldisfræðilega til bóta. Fleiri orð þarf ég ekki að hafa um það, en það er röksemd, sem hefur fullt gildi.

Þá er sagt: Þetta er gert vegna velvildar við Menntaskólann á Akureyri og til sóma honum. Ég vil segja það, að með því að veita skólanum slíka tveggja ára undanþágu er hann settur í aukinn vanda og honum til ógagns. Ég mundi verða fyrstur manna til þess og vilja mikið til þess vinna að gera mínum góða skóla gagn og sóma, ef ég mætti á einhvern hátt auka hans veg, því að ég er gamall nemandi hans, og mér þykir ekki eins vænt um neinn skóla. En ég er á móti þessu, af því að það er honum til ógagns. Þessi undanþága orsakar eilífan eld á Akureyri milli menntaskólans og gagnfræðaskólans, og það er vond gjöf til Menntaskólans á Akureyri. Forstöðumaður þessa skóla á Akureyri er einn af mínum gömlu bekkjarbræðrum, kunningi minn og vinur, og líklega meira en helmingur kennaranna eru úr mínum kunningjahópi. Ég hefði því viljað seilast langt, ef það væri á réttan hátt. En þetta er svo alvarlegt mál, að það er ekki hægt að láta vinsemd til manna ráða afstöðu sinni til þess.

Það er ein ástæða til viðbótar við vinsemd mína og ræktarþel, sem gæti fengið mig helzt til að fylgja þessu máli. Ef komið væri á gagnfræðanámi við menntaskólana á Akureyri og Reykjavík, svo að aðgangur torveldaðist fyrir nemendur frá öðrum bæjum og byggðarlögum, sem hefðu lokið miðskólaprófi, þá væri síður hægt að standa á móti sanngirniskröfu Aust- og Vestfirðinga um menntaskóla í þeim landsfjórðungum. Það gæti því orðið til að flýta fyrir byggingu menntaskóla á Austur- og Vesturlandi að samþ. þetta frv. Samt vil ég ekki ganga inn á að samþ. þetta mál.

Ég vil svo að endingu bera fram þrjár fyrirspurnir til hv. frsm. eða forsvarsmanna þessa frv. í þessari d. Ég vil leggja áherzlu á að fá þeim svarað, því að þær skipta miklu máli.

Í fyrsta lagi: Er það ætlunin, að þessi fyrirhugaða gagnfræðadeild við Menntaskólann á Akureyri verði lögð niður að tveimur árum liðnum, þegar nýju skólalögin verða komin til fullrar framkvæmdar?

Í öðru lagi: Er það tilætlunin, að aðeins óskiptar ársdeildir starfi við þessa gagnfræðadeild?

Í þriðja lagi: Á að kenna þarna bæði bókleg og verkleg fræði, eins og löggjöfin krefst nú um nám á gagnfræðastiginu?

Það eru þessi þrjú atriði, sem ég vil fá svör við. Svo skal ég ekki hafa fleiri orð um þetta mál, nema tilefni gefist af svörunum.