18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara hér út í almennar umræður um þetta mál á þessu stigi málsins, þó að full ástæða væri til að svara ýmsum, sérstaklega hv. 2. þm. S-M.

Þess er ekki nokkur von, eins og nú er ástatt, að nokkur stj., sem ekki vill lofa meiru en hún getur staðið við, gefi loforð fullkominni lausn á málefnum bátaútvegsins. Það er svo langt milli tryggingar og fullkominnar lausnar og milli hins, að hafðar eru í frammi þær aðgerðir, sem geta veitt þá aðstoð, að framleiðslan þurfi ekki að stöðvast. Eins og nú horfir, þá er það þakkarvert, ef Alþ. getur sett stefnuna svo hátt, og ég er þess fullviss, að þær ráðstafanir, sem hér eru til umr. og stj. og fjhn. hafa komið sér saman um, þær eru þess eðlis, að útvegsmenn munu ekki heima sitja, ef þær komast í framkvæmd.Það er ákaflega misjafnt, hvað menn gera ákveðnar kröfur um lausn, og þó að það sé mikill hávaði hér við ýmsar stöðvar við Faxaflóann, þá er ekki svo að skilja, að bátaútvegsmenn annars staðar af landinu geri jafnharðar kröfur. Hitt er annað mál, að ríkisstj. ber skylda til að ganga eins langt til þess að hagræða þessu og hún treystir sér til, og ég vil halda því fram, að það sé gert með þessu frv. og brtt. fjhn.

Í framhaldi af ræðu hv. frsm. fjhn. vil ég segja, að viðvíkjandi undanþáguvörum, sem taldar eru í 22. gr., þá er það samkomulag, að fóðurbætir reiknist einnig með. Að öðru leyti vildi ég gefa þá yfirlýsingu fyrir stj. hönd, að ríkisstj. mun veita bátaútveginum ráðstöfunarheimild um það, sem fæst fyrir útflutt hrogn, og einnig mun það tekið til athugunar varðandi aðrar vörutegundir. Það er vitanlegt, að útvegsmenn hafa haft lítilsháttar fríðindi í þessu efni nú í eitt ár, og hefur það verið þeim til mikils hagræðis að þeirra sögn, og með þeirri yfirlýsingu, sem hér er gefin, þá verða þessi hlunnindi ekki tekin af þeim og möguleikar athugaðir á því, hvort vörur, sem ekki hafa verið fluttar út áður, vegna þess að nægilegt verð hefur ekki fengizt fyrir þær, geti komizt hér undir.

Ég vil vona, að þetta frv. geti sem fyrst fengið afgreiðslu í þessari deild, þar sem svo nærri er liðið jólahelgi og þingmenn farnir að vonast til þess að losna við skyldustörfin.